Bruni og meðhöndlun flugelda

Alvarlegir brunar eru hræðileg lífsreynsla að lenda í. Aldurshópurinn sem er hvað mest útsettur fyrir brunaslysum eru börn yngri en 5 ára og svo einstaklingar eldri en 55 ára. Báðir hóparnir hafa oft minni getu til að forða sér úr bruna eða gera sér grein fyrir því hvað getur brennt. Vegna þess hve húðin er þunn á þessu aldurskeiði eru þessum tveim aldurshópum hættara við því að fá alvarlega bruna en öðrum. Dauði eða vandamál tengd brunaslysum verða algengari með aldrinum vegna algengi þess að fólk hafi aðra undirliggjandi sjúkdóma sem gerir þeim erfitt fyrir að gróa jafn vel og eins minnkar geta ónæmiskerfisins til að berjast gegn sýkingum. Hversu alvarlegur bruninn verður ræðst af hitastiginu, tímalengdinni sem einstaklingurinn er í snertingu við brunavaldinn og styrkleika húðar.

Hægt er að skipta brunaslysum í þrennt:

Hitabruni – ekki er allur hitabruni af völdum elds. Það er talað um hitabruna t.d. ef barn setur hendi á hellu, heitir vökvar og heitar gufur eru líka dæmi um hitabruna. 3 sekúndur er nógur tími til að mynda 3° bruna ef hitinn fer yfir 60 °C.

Efnabruni – mörg efni geta brennt húðin ef þau komast í snertingu við hana. Bruninn ræðst af sýrustigi efnisins, tímanum sem efnið er í snertingu við þig og styrkleika húðar. Efnið heldur áfram að brenna húðina þar til það er skolað af, því er mikilvægt að skola eins vel og hægt er.

Rafmagnsbruni – skaði af völdum rafmagnsbruna veltur á gerð straumsins (spennu eða riðstraumur), styrkleika hans (Voltin), staðsetningu á líkamanum þar sem straumurinn fer inn og tímalengd snertingarinnar. Rafstraumur sem fer í gegnum líkamann getur haft áhrif á hjartað og valdið hjartastoppi. Hjartað sjálft gengur fyrir rafboðum og geta þau farið úr skorðum við þennan utanaðkomandi straumgjafa og hjartslátturinn truflast og stöðvast.

Einstaklingur sem fengið hefur raflost getur farið í hjartastopp allt upp í 8 klukkustundum seinna. Því er mikilvægt að láta fylgjast með börnum sem fengið hafa í sig rafstraum í einn sólarhring eftir raflostið.

Sárið sem sést utan frá er einungis hluti af skemmdinni sem átt hefur sér stað. Inngangssári fylgir langoftast útgangssár annars staðar á líkamanum. Það má gera ráð fyrir innvortis skemmdum alla leiðina frá inngangssári að útgangssári.

Alvarleika brunasára má skipta í þrennt:

1°bruni – húðin er rauð og aum viðkomu. Engar blöðrur eru sjáanlegar

2°bruni – húðin er rauð og aum. Bruninn nær lengra niður í húðlagið. Blöðrur myndast í sárinu.

3°bruni – bruninn nær í gegnum öll húðlögin. Sár myndast og húðin kolast.

Skyndihjálp

Skyndihjálp við hitabruna:

Kældu brennda svæðið strax í mjög köldu vatni í ca. 2 mínútur eftir það skaltu halda áfram að kæla í volgu vatni (15°C). Kældu þar til sviðinn er horfinn. Mjög gott er að gefa verkjalyf strax svo þau séu farin að virka svolítið þegar kælingu líkur. Ef þér líst ekki á brunasárið að kælingu lokinni skaltu leita til næstu heilsugæslu eða slysadeildar til að láta búa um sárið. Aldrei á að setja nein smyrsl á brunasár.

Skyndihjálp við efnabruna:

Skolaðu svæðið strax undir rennandi vatni. Láttu vatnið renna þannig á að efnið leki út af svæðinu og niður á gólf en berist ekki yfir stærra svæði. Skolaðu eins lengi og þú mögulega getur, að minnsta kosti í 45 mínútur til að skola efninu vel burtu. Efnið heldur áfram að brenna húðina ef einhverjar örður eru eftir af því. Ef einstaklingurinn er í einhverjum fötum sem gætu innihaldið efnið er mjög mikilvægt að fjarlægja þau strax.

Brunasvæðið er metið í prósentum. Svæðum er skipt niður í níu prósent svæði og er oft talað um níu prósent regluna.

Sýnið aðgát með jólaskreytingar yfir hátíðirnar

Farið varlega með kerti. Verið viss um að skreytingar séu ekki þannig gerðar að kertaloginn geti náð að brenna slaufur eða greinar á skreytingunni. Ekki skilja börn eftir ein þar sem kerti loga sérstaklega eru skreytingar varasamar.Börn hrífast gjarnan af skreytingum og fara að fikta í kertunum séu þau skilin eftir ein. Algengt er að eldspýtur og kveikjarar liggi á glámbekk yfir hátíðirnar – munið eftir börnunum. Setjið aldrei logandi kerti í glugga þar sem gardínur eða annað efni er. Ef vindblær nær að hreyfa við gardínunni er mjög hætt við því að loginn berist í gardínuna.

Sýnið aðgát varðandi flugelda yfir áramótin

Síðastliðin áramót varð fjöldinn allur af handarslysum eftir gallaða flugelda. Meðhöndlið því alla flugelda með slíkt í huga. Látið ekki börn halda á handblysum eða kveikja í flugeldum. Hafið flugeldana á stöðugu undirlagi og í stefnu frá einstaklingum og heimilum. Aldrei má kveikja í flugeldum innandyra. Sýnið aðgát utandyra og skjótið ekki upp flugeldum í mannmergð s.s. við áramótabrennur slíkt getur valdið alvarlega slysi ef flugeldinn skýst annað en áætlað var. Geymið flugelda aldrei í vasanum. Ef neisti kemst í fötin getur hlotist af alvarlegt slys.

Foreldrar, fylgist með því að börn ykkar séu ekki að kaupa sér flugelda og skjóta þeim upp án þess að nokkur sé viðstaddur til að ráðleggja þeim. Unglingar og börn kaupa flugelda og breyta þeim þannig að úr getur orðið mjög hættuleg vara. Fræðið börnin y kkar um skaðsemi slíkra gerða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands.

Vefur Rauða krossins redcross.is