Brjóstastækkanir

Almennar upplýsingar

Kvenímyndin hefur í huga beggja kynja verið nátengd brjóstunum frá örófi alda. Við fæðumst með misjafnt útlit og eru brjóstin þar engin undantekning. Brjóst kvenna hafa ætíð skipað veglegan sess í hugarheimi okkar og þannig fengið ríkulega umfjöllun bæði í ræðu og riti. Á hverjum tíma hefur myndast stöðluð ímynd af hinum fullkomnu brjóstum. Flestar konur hafa sætt sig við brjóstin sem þeim eru ásköpuð. Það hefur einnig þótt sjálfsagt að brjóstin hrörni og breytist með aldrinum en minna verið rætt um þá staðreynd að stöku sinnum getur ein barnsfæðing gjörbreytt formi brjóstanna.

Frá því að lýtalækningar urðu til, hafa lýtalæknar með margvíslegum hætti reynt að koma til móts við væntingar kvenna um fegurri barm. Lengi var aðallega um að ræða minnkun stórra brjósta eða enduruppbyggingu siginna brjósta, t.d. eftir mjólkurgjafir. Ekki varð mögulegt að stækka brjóst fyrr en með tilkomu sílikons. Viðbrögð líkamans við þessu framandi efni eru oftast lítil. Sjaldan hljótast vandræði af, þótt slíkt geti vissulega gerst.

Hvað er sílikon?

Sílikongel sem notað er í brjóstafyllingar er unnið úr einu algengasta efni jarðar, silica, en það eru kristallar sem mynda sand. Sílikon finnst hins vegar ekki í náttúrunni. Með því að blanda silica við lífræn efni verður til gel eða olía. Sílikon er mikið notað vegna einstakra eiginleika sinna, m.a. í matvæli, snyrtivörur og lækningatæki, t.d. sprautur. Sílikonpúðar sem notaðir eru til að stækka brjóst eru venjulega gerðir úr sílikonkvoðu sem er innpökkuð í seigan sílikonpoka. Þegar um er að ræða svokallaðar saltvatnsfyllingar er saltvatni komið fyrir í sílikonpoka í stað sílikonkvoðunnar.

Frekari fróðleik um sílikon má finna á:

Hvernig eru brjóst stækkuð?

Brjóst skulu einungis stækkuð að vel íhuguðu máli þar sem allar hliðar málsins, kostir og gallar, hafa áður verið ígrundaðar í samráði við lýtalækni. Sérstök ástæða er fyrir ungar konur, einkum undir tvítugu, að íhuga vel sinn gang áður en þær fara fram á brjóstastækkunaraðgerð. Aðgerðin fer venjulega fram á skurðstofu lýtalæknis og er sjúklingur svæfður á meðan. Brjóstafyllingunni er komið á sinn stað gegnum lítinn skurð annaðhvort undir brjóstkirtlinum sjálfum eða ennþá dýpra undir stóra brjóstvöðvanum. Sílikonið er því aldrei sett inn í brjóstkirtilinn sjálfan. Hvaða aðferð sem notuð er fer eftir samkomulagi sjúklings og læknis hverju sinni. Útkoman er nokkuð svipuð þrátt fyrir þennan grundvallarmun. Aðgerðatíminn er um það bil ein til ein og hálf klukkustund. Að aðgerð lokinni fer sjúklingur heim, þegar hann hefur náð sér eftir svæfinguna. Talsverðir verkir fylgja aðgerðinni í nokkra daga á eftir og eru brjóstin hörð og aum til að byrja með. Rétt er að taka sér frí frá vinnu í eina til tvær vikur eftir starfsgrein viðkomandi. Ekki ætti að leggja stund á leikfimi í 4-6 vikur.

Áhætta

Fylgikvillar vegna sílikonaðgerða eru sem betur fer sjaldgæfir. Líkt og eftir skurðaðgerðir er ákveðin hætta á blæðingu eða sýkingu. Með réttum viðbrögðum er oftast hægt að tryggja farsælan endi á slíku. Einstaka sinnum þarf að fjarlægja fyllinguna vegna óviðráðanlegrar sýkingar. Slíkt er þó fátíðara en eftir ísetningu annarra aðskotahluta, t.d. gerviliða. Við skurðaðgerðina getur teygst það mikið á skyntaugum til brjóstsins að sjúklingurinn búi við skerta tilfinningu í nokkrar vikur. Í einstaka tilvikum getur taug skemmst og leiðir það af sér varanlegan svæðisbundinn dofa.

Hvað gerist í líkamanum?

Nútíma lækningar hafa í nokkra áratugi stuðst við „varahluti", sem oftast er komið fyrir í líkamanum með góðum árangri. Ónæmiskerfið bregst þó alltaf samstundis gegn hinu framandi efni í þeim tilgangi að gera aðskotaefnið óskaðlegt. Þetta er í daglegu tali kallað höfnun. Af þeim efnum sem algengast er að nota í dag er sílikon með þeim betri. Líkaminn lætur nægja að einangra það með því að hlaða niður örvef umhverfis brjóstafyllinguna. Myndast því eins konar lífrænn poki eða bandvefshimna umhverfis fyllinguna. Það útskýrir hversu lengi brjóst geta haldið lögun.

Hversu lengi endist aðgerðin?

Ómögulegt er að segja til um hversu lengi brjóstafyllingin endist. Sé einstaklingurinn ánægður með barminn er ástæðulaust að hafast nokkuð að. Eins og að ofan greinir myndar líkaminn örvefshimnu umhverfis fyllinguna. Himnan getur orðið þykk og dregist saman þannig að brjóstið verði hart, aumt viðkomu og aflagað. Skýringin á því hvers vegna sumar konur fá hörð brjóst en aðrar ekki liggur ekki ljós fyrir. Margt bendir þó til þess að orsakavaldurinn sé tiltölulega skaðlaus og algeng húðbaktería. Með nýrri og fullkomnari fyllingum gerist þetta sem betur fer æ sjaldnar en ber þó að hafa í huga þegar brjóstastækkun er íhuguð. Brjóstagjöf og aldur skipta einnig máli. Ástæður einstaklinganna fyrir a&eth ;gerðinni eru jafnframt mjög misjafnar. Sum brjóst geta verið þannig löguð, þótt smá séu, að nauðsynlegt er að endurbyggja þau frá grunni. Þetta gerist áður en brjóstsstækkun á sér stað eða í sömu aðgerð. Hér getur oft verið um óskýr mörk að ræða. Það er því afar mikilvægt að sjúklingurinn geri sér góða grein fyrir því út í hvað hann er að leggja þannig að árangurinn verði í samræmi við væntingar.

Meira um silikonfyllingar:

Sjúkdómar og sílikon

Mikið hefur verið rætt og ritað um skaðsemi sílikons fyrir líkamann. Umræðan hefur nær eingöngu miðast við sílikonbrjóstafyllingar. Það að við innbyrðum daglega sílikon hefur vakið minni athygli. Lengi hefur verið uppi sú tilgáta að sílikonið eða eitthvað annað í fyllingunni geti tengst tilurð tiltekins sjúkdóms í hópi svokallaðra sjálfsofnæmissjúkdóma. Á íslensku hefur hann verið kallaður herslissjúkdómur, en einkenni hans lýsa sér meðal annars í þynningu húðar, sérstaklega á fingrum, tám og í andliti. Fólk fær liðverki, vélindað verður stirt og kyngingarvandamál koma upp hjá fólki, auk þess getur sjúkdómurinn lagst á hjartað. Ekki hefur þó verið hægt að sýna fram á þessi tengsl í vönduðum nýlegum faraldsfræðilegum rannsóknum. Samkvæmt þeim er jafnlíklegt, að konur fái herslissjúkdóminn hvort sem þær hafa fengið sílikon í brjóst eður ei. Grunur hefur jafnframt leikið á að sílikon í brjóstum tengist síþreytueinkennum, s.s. þreytu, sleni, hitavellu, skorti á einbeitingu o.fl. Tengsl síþreytu og sílikons í brjóstum hefur þó ekki verið skýrð á fullnægjandi hátt og því hvorki hægt að sanna né afsanna að svo sé. Að lokum hefur ekkert óyggjandi komið fram, sem bendir til þess að konum með brjóstafyllingar sé hættara við að fá ákveðna sjúkdóma, þar með talið brjóstakrabbamein, en öðrum konum. Menn eru því ekki á eitt sáttir um skaðsemi sílikons, en þó má fullyrða að fylgikvillar eru sem betur fer mjög sjaldgæfir. Sílikonfyllingar hafa um árabil verið bannaðar í Bandaríkjunum, nema þegar um er að ræða enduruppbyggingu eftir brottnám brjósts vegna krabbameins. Þetta er í sjálfu sér athyglisvert og sýnir vel tvískinnunginn í umræðunni í Bandaríkjunum. Talsvert hefur verið talað um sílikonleka sem aðalskaðvald. Er hér um að ræða það sem á ensku er kallað „silicone bleed" og á að lýsa því litla magni fljótandi sílikons sem í öllum tilvikum sleppur hægt og bítandi gegnum ytra hylkið. Hér er ekki um að ræða umtalsvert magn sílikons á ferðalagi út í aðlægar eitlastöðvar. Því hefur þó verið lýst í undantekningatilvikum.

Frekari upplýsingar:

Brjóstagjöf

Af augljósum ástæðum hafa ungar konur með sílikonfyllingar haft áhyggjur af hugsanlegum eituráhrifum brjóstagjafa á börn sín. Mest af því, sem ritað hefur verið þessu til stuðnings eru lýsingar á einstökum atburðum. Rannsóknir óvilhallra aðila finna ekkert sem bendir til þess að börn þessara mæðra hafi meira magn mælanlegs sílikons í blóði sínu en þeirra sem drekka af pela með sílikontúttu. Hafa ber í huga að fyllingarnar liggja í öllum tilvikum undir brjóstinu en ekki inni í því.

Frekari upplýsingar:

Brjóstaskoðun

Regluleg skoðun brjósta er mikilvægur þáttur í heilbrigðiseftirliti sérhverrar konu. Það að hún hafi brjóstafyllingar má á engan hátt rýra gæði slíks eftirlits. Sjálfsagt er að geta þessa hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun við eftirlit. Einstaka sinnum springa eða aflagast fyllingarnar við gegnumlýsingu, oftast er þá um að ræða gamlar fyllingar. Hér er þó engin hætta á ferðum og við engan að sakast, heldur nokkuð sem taka verður með í reikninginn frá upphafi. Einfalt er að skipta um fyllingu við fyrsta tækifæri. Ef það er hins vegar dregið á langinn myndar líkaminn nýja örvefshimnu um aflögunina sem gengur ekki til baka.

Frekari upplýsinga:

Kostnaður

Brjóstastækkanir teljast til fegrunarlækninga og eru því alfarið á kostnað sjúklings, svo og óhjákvæmilegar fjarvistir frá vinnu.