Brjóstakrabbameinsleit – þjónusta í þágu kvenna

Ávinningur hópleitar að brjóstakrabbameini – bættar horfur. Fyrir löngu hefur verið sýnt fram á með víðtækum rannsóknum erlendis að lækka má dánartíðni úr sjúkdómnum konum sem boðin er leit með röntgenmyndatöku af brjóstum á tveggja til þriggja ára fresti.

Sífellt hefur verið rennt betri stoðum undir gildi leitarinnar eftir því sem árin líða og lífslíkur þeirra kvenna sem greinast hafa aukist verulega.

Forsendur árangurs. Árangur leitar með brjóstamyndatöku byggist einkum á því að finna krabbameinin meðan þau eru lítil og því minni líkur á dreifingu æxlisfruma til eitla í holhönd og út um líkamann. Til að sem bestur árangur náist í leitinni þurfa konur að mæta reglulega í myndatöku, svo að meinin nái ekki að stækka óþarflega mikið, með auknum líkum á dreifingu.

Annar ávinningur – minni skurðaðgerðir. Auk fækkunar dauðsfalla af völdum sjúk­dómsins er annar aðalávinningur hópleitar með brjóstamyndatöku sá að mun fleiri konum en ella gefst kostur á minni skurðaðgerð, fleygskurði, í stað þess að allt brjóstið sé tekið. Síðan er venjulega beitt geislameðferð á brjóstið þegar það hefur jafnað sig. Flestar konur líta jákvætt á þennan kost og finnst hann stuðla að betri lífsgæðum að lokinni meðferð.

Sama gildir um fleygskurð og um lífslíkurnar: Því minna sem meinið er þegar það finnst, þeim mun líklegra er að komast megi af með slíka aðgerð og því nauðsynlegt að ekki líði of langt milli þess að kona komi í myndatöku.

Árangur á Íslandi. Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands hefur síðan í nóvember 1987 boðið 40-69 ára konum hópleit með brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti. Einnig hafa allar konur sjötugar og eldri verið velkomnar í myndatöku frá upphafi, þó að þeim séu ekki send boðunarbréf.

Fyrstu umferð leitar um land allt lauk í desember 1989. Íslendingar urðu þannig fyrstir allra til að ljúka slíkri hópleit meðal heillar þjóðar, í þeim aldurshópum sem til greina komu. Níundu umferð lauk svo í desember 2005. Flestar niðurstöður úr leitinni hafa verið vel sambærilegar við erlenda staðla.

Fremur léleg þátttaka kvenna, í heild aðeins rétt yfir 60% miðað við hvert tveggja ára tímabil, hefur þó óneitanlega valdið vonbrigðum. Léleg þátttaka er að mestu bundin þremur stærstu þéttbýlissvæðunum þar sem meirihluti landsmanna býr, verst í Reykjavík (aðeins 55% í árslok 2005). Víðast annars staðar er þátttakan góð eða jafnvel ágæt (hæst 87%).

Íslenskar konur nefna ýmsar ástæður fyrir hinni lélegu þátttöku, bæði í könnunum og þegar rætt er við þær persónulega. Reyndar er skýringin að verulegu leyti mæting fjöl­da kvenna á lengra bili en tveimur árum. Sé miðað við þriggja ára tímabil (í stað tveggja) hækkar þátttökuhlutfallið í 69-70%. Því miður er bilið alltof oft mun lengra.

Misskilningur. Þrátt fyrir fræðslu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins árum saman verður starfsfólk hennar enn vart við ýmsan misskilning varðandi brjóstamyndatökur sem kann að hafa áhrif á þátttöku í leitinni. Skulu hér talin nokkur helstu atriðin:

Miklum sögum fer af því hve pressan valdi miklum sársauka við myndatökuna og að hún geti jafnvel valdið krabbameini. Ljóst er að myndatakan er oft óþægileg, en langflestar konur finna þó engan eða mjög lítinn beinan sársauka. Hámarksþrýstingur hefur árum saman verið mun minni en áður tíðkaðist, og séu konur mjög aumar í brjóstunum er pressan raunar höfð eins lítil og unnt er. Röntgentækin eru einnig mun betri að þessu leyti en þau sem fyrir voru í landinu þegar röntgendeild Krabbameinsfélagsins var opnuð vorið 1985. Enginn fótur er fyrir síðari fullyrðingunni – pressan veldur ekki krabbameini.

Sumar konur óttast röntgengeislunina sem notuð er við myndatökuna. Geislunin er þó afar lítil, svipuð og við venjulega lungnamynd, og margfalt minni en tíðkaðist fyrir 1985. Líkur á því að hún geti valdið aukinni hættu á brjóstakrabbameini eru taldar hverfandi litlar eða jafnvel engar yfir fertugu. Heilbrigðis- og geislavarnayfirvöld um víða veröld myndu heldur ekki leyfa hópleitarmyndatöku meðal tugmilljóna kvenna á ári hverju nema aðferðin teldist nokkuð örugg.

Sannað er og vel þekkt hérlendis að hafi náinn kvenkyns ættingi konu fengið brjósta­krabbamein er hún í aukinni hættu að fá það líka. Sumar konur án slíkrar ættarsögu halda þátttaka í hópleit sé óþörf, sem er reginmisskilningur. Langflestar, yfir 80% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein eiga enga nána ættingja með sjúkdóminn.

Konur sem hafa farið oft og reglulega í leghálsskoðun, með eðlilegum niðurstöðum, eru ekki í mikilli hættu að fá síðar leghálskrabbamein, þannig að óhætt er að lengja bil milli skoðana og jafnvel sleppa þeim alveg þegar aldur færist yfir. Sumar konur halda að sama máli gegni um hópleit að brjóstakrabbameini, sem er alrangt. Þvert á móti aukast líkur á sjúkdómnum með aldrinum, sem er reyndar sterkasti áhættuþátturinn.

Hræðsla við sjúkdóminn. Meginástæða fyrir því að konur sinna ekki boði í hópleit að brjóstakrabbameini kann þó stundum að vera sú að þær óttast að “eitthvað finnist”. Slíkt er afar skiljanlegt en ekki alveg rökrétt, þegar haft er í huga að meðferð vegna meins sem finnst snemma er yfirleitt auðveldari en ella, að ekki sé minnst á bættar lífslíkur.

Margir óttast mjög krabbamein og finnst óþægilegt að leiða hugann að því þrátt fyrir opnari umræðu og aukna fræðslu um sjúkdóminn hin síðari ár, einkum upplýsingar um bættar lífshorfur sjúklinga eftir því sem greiningu og meðferð hefur farið fram. Starfsfólk Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins veltir því oft fyrir sér hversu langt megi ganga í fræðslu um krabbamein, og á hvern hátt hún verði best sett fram án þess að fara yfir strikið. Sumar viðkvæmar konur kunna þó að skynja fræðslustarf félagsins og hvatningu til kvenna um að mæta í hópleit sem ósmekklegan hræðsluáróður og snúast ef til vill gegn þátttöku af þeim sökum. Hvorugt er auðvitað ætlunin.

Andróður og neikvæðar fréttir. Konur ættu heldur ekki að láta neikvæðan áróður slá ryki í augu sér, einkum rangfærslur sjálfskipaðra krossfara um geislunarhættu eða úrtölur annarra, t.d. vinkonu, starfsfélaga eða jafnvel maka. Andróður gegn þátttöku kvenna í hópleit að brjóstakrabbameini er mikill ábyrgðarhluti, af augljósum ástæðum.

Einnig er varasamt að trúa of fljótt neikvæðum (og jafnvel brengluðum) fréttum fjölmiðla af niðurstöðum nýrra rannsókna erlendis. Sem dæmin sanna geta þær síðar reynst byggðar á misskilningi eða vanþekkingu og því ómarktækar – jafnvel þótt þær hafi upphaflega birst í læknatímaritum!

Sjálfskoðun á brjóstum. Þó að reglubundin brjóstamyndataka sé eina aðferðin sem hefur sannað gildi sitt til leitar að brjóstakrabbameini er hún ekki óbrigðul, auk þess sem sum mein vaxa hraðar en önnur og geta þannig komið upp milli þess sem konur fara í mynda­töku. Því er eindregið mælt með að konur skoði sjálfar brjóst sín reglulega, helst einu sinni í mánuði, svo að greina megi áþreifanleg æxli sem fyrst.

Jafnframt verður að leggja á það áherslu að slík sjálfskoðun – eða skoðun hjá lækni – getur engan veginn komið í stað reglubundinnar myndatöku, heldur er hún aðeins til viðbótar. Liðlega helmingur þeirra brjóstakrabbameina sem greinast í hópleit reynast alls ekki áþreifanleg, og allmörg að auki eru svo óljós við þreifingu að þau hefðu líklega ekki fundist þannig.

Lækkandi dánartíðni á Íslandi. Nýlegar upplýsingar frá Krabbameinsskránni sýna að þrátt fyrir stöðugt vaxandi nýgengi brjóstakrabbameins hérlendis meðal miðaldra og eldri kvenna undanfarna áratugi hefur dánartíðni úr sjúkdómnum farið lækkandi nokkur síðustu ár, sem má eflaust þakka hópleitinni að verulegu leyti (sjá meðfylgjandi línurit neðst á síðunni).

Fullt gagn af leitinni fæst þó ekki nema með mun betri þátttöku kvenna, einkum þar sem brjóstakrabbamein er algengast samkvæmt rannsóknum Krabbameinsskrárinnar, það er að segja á Reykjavíkursvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi.

Starfsfólk Leitarstöðvar hvetur konur því eindregið til að nýta sér þá þjónustu sem í boði er og byggð er á vísindalegri þekkingu og langri reynslu – það er að segja fara reglulega í brjóstamyndatöku frá fertugu – og hvetja aðrar til hins sama. Ennfremur að skoða sjálfar brjóst sín reglulega og hika ekki við að koma aftur ef þær verða varar við grunsamleg einkenni frá brjóstunm, hversu stutt sem kann að vera um liðið frá síðustu myndatöku.