Breytingar á tíðni kransæðasjúkdóma á Íslandi

Á þessari öld hefur orðið mikil breyting á dánarorsökum Íslendinga. Á fyrstu áratugum aldarinnar voru kransæðasjúkdómar nánast óþekktir en upp úr 1930 fór dánartíðni vegna þeirra ört vaxandi. Á sjöunda áratugnum var svo komið að hjarta- og æðasjúkdómar voru valdir að dauða um það bil 50% allra karla. Í þessum sjúkdómaflokki voru kransæðasjúkdómar langalgengasta dánarorsökin eða í yfir 30% tilvika, heilablóðfall í um 10% tilvika og ýmsir aðrir hjarta- og æðasjúkdómar voru dánarorsök í nokkrum prósentum. Meðal kvenna var þróunin svipuð en kransæðastífla hefur þó alla tíð verið miklu sjaldgæfari meðal kvenna en meðal karla.

Þessar breytingar á sjúkdómatíðni sem áttu sér stað hér á landi voru ekkert einsdæmi heldur má segja að mjög svipuð þróun hafi orðið víðast hvar í hinum vestræna heimi.

Á undanförnum áratugum hafa farið fram víðtækar rannsóknir, einkum á sviði faraldsfræði, til þess að reyna að finna orsakir þessara sjúkdóma svo hægt yrði að beita varnaraðgerðum eða lækningum.

Þann 8. maí sl. birtist grein í hinu þekkta læknatímariti „Lancet“ sem fjallar um fyrstu meginniðurstöður MONICA-rannsóknar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Þessi fjölþjóðarannsókn – stærsta faraldsfræðilega rannsókn sem gerð hefur verið – er vel þekkt hér á landi því Íslendingar hafa verið þátttakendur í henni frá 1981.

Markmið þessarar rannsóknar voru tvenns konar: í fyrsta lagi að sannreyna hvort tíðni kransæðastíflu væri að breytast í þátttökulöndunum og í öðru lagi að leiða í ljós hverjar væru ástæður slíkra breytinga.

Í þessu skyni voru skráð öll tilvik kransæðastíflu á hverju rannsóknarsvæði í minnst 10 ár, áhættuþættir voru kannaðir reglulega og einnig meðferð. Rannsóknarhópar urðu 37 í 21 landi í fjórum heimsálfum. Alls voru skráð 166.000 tilfelli kranæðastíflu. Hér á landi hófst skráningin 1981 og nær til allra íbúa landsins á aldrinum 25-74 ára. Skráningu er nú lokið til og með árinu 1996.

Tíðni kransæðastíflu lækkar

Í greininni í „Lancet“ kemur fram að tíðni kransæðastíflu hefur farið lækkandi í flestum löndum MONICA-rannsóknarinnar. Í nokkrum löndum Austur-Evrópu og Kína átti sér stað aukning. Dánartíðni karla vegna kransæðastíflu hefur lækkað um 57% á tímabilinu 1981-1996, nýgengi (ný tilfelli) hefur lækkað um 36% og heildartíðni (ný og endurtekin tilfelli) hefur lækkað um 30%. Meðal kvenna hefur þróunin orðið svipuð en lækkunin er nokkru minni en meðal karla en þar eru samsvarandi tölur 42, 29 og 30%.

Í MONICA-löndunum lækkaði dánartíðni mest meðal karla í Norður-Svíþjóð, um 8% á ári og meðal kvenna á Nýja-Sjálandi um 8,5%. Hér á landi varð árleg lækkun dánartíðni 6,4% meðal karla en 4,3% meðal kvenna.

Ef litið er til dánartíðni eftir aldursflokkum hér á landi kemur í ljós að dánartíðni hefur lækkað langmest í yngstu aldursflokkum eða um 70%.

Dánarhlutfall lækkar

Í MONICA-rannsókninni er reiknað hve stór hluti þeirra sem fá kransæðastíflu deyi innan 28 daga frá áfallinu. Þessi hlutfallstala er 36,9% meðal íslenskra karla en 34,1% meðal kvenna. Þetta eru mjög lágar hlutfallstölur miðað við aðrar MONICA-þjóðir, hjá mörgum var þetta hlutfall í kringum 60% og fór upp í 80%. Dánarhlutfallið hefur einnig farið stöðugt lækkandi hjá okkur meðal karla um 2% á ári en um 1% meðal kvenna.

Þetta bendir til þess að meðferð vegna kransæðastíflu fari stöðugt batnandi.

Eins og nú standa sakir eru íslenskar konur í næstneðsta sæti að því er dánarhlutall varðar og íslenskir karlar í 4. neðsta sæti MONICA-þjóðanna.

Forvarnir skila árangri

Gögn MONICA-rannsóknarinnar gera kleift að áætla hve stór hluti þeirrar lækkunar sem orðið hefur á dánartíðni vegna kransæðastíflu stafar af minnkandi tíðni sjúkdómsins og hve stór hluti vegna lækkandi dánarhlutfalls. Hjá flestum þátttökuþjóðunum, þar á meðal Íslandi, skýrist lækkunin að tveim þriðju af lækkandi tíðni en aðeins einn þriðji af lækkandi dánarhlutfalli. Lækkandi tíðni kransæðastíflu hér á landi skýrist fyrst og fremst af breytingum til batnaðar á helstu áhættuþáttum sjúkdómsins. Þannig hefur meðferð hækkaðs blóðþrýstings stórlega batnað og meðalblóðþrýstingur þjóðarinnar lækkað verulega, reykingatíðni hefur minnkað um helming meðal karla og um þriðjung meðal kvenna, blóðfita hefur lækkað og reglubundin líkamsþjálfun hefur aukist.

Allar þessar forvarnaraðgerðir hafa skilað sér þannig að heildartíðni kransæðastíflu lækkar nú meir hér á landi en í flestum öðrum löndum. Af 37 rannsóknarhópum MONICA-verkefnisins voru aðeins 5 er sýndu meiri lækkun meðal karla og 6 meðal kvenna.

Nýjar áherslur

Þó mikilvægur árangur haf i náðst í baráttunni við kransæðasjúkdóma hér á landi eru þeir þó ennþá algeng dánarorsök.

Rannsóknarstöð Hjartaverndar hefur haft það að meginmarkmiði að finna áhættuþætti þessara sjúkdóma svo hægt verði að beita markvissum forvörnum.

Þeir áhættuþættir sem nú eru þekktir geta aðeins skýrt 70-80% tilvika kransæðastíflu þannig að ennþá eru ýmsir áhættuþættir ófundnir. Rannsóknir Hjartaverndar beinast nú að því að finna slíka þætti og einnig að meta þátt erfða í tilurð hjarta- og æðasjúkdóma.

Birt með leyfi Hjartaverndar hjarta.is