Börn sem pissa undir á nóttunni

Hvað er undirmiga?

Börn fimm ára og eldri sem pissa ósjálfrátt undir á nóttinni. Undirmiga er þrisvar sinnum algengari hjá strákum en stelpum. Um 15% 5 ára barna eiga við þetta vandamál að stríða, 10% 6 ára barna, 7% 7 ára barna, 3% 12 ára barna og 1% 18 ára einstaklinga.

Af hverju hættir barnið ekki að pissa undir?

Í flestum tilfellum er orsökin óþekkt. Eftirfarandi skýringar eða orsakir eiga mestu fylgi að fagna:

 • Mörg þessara barna hafa miklu meiri þvagframleiðslu um nætur en eðlilegt getur talist. Þetta stafar af ónógri framleiðslu á þvagstemmandi hormóni yfir nóttina.
 • Sjúkdómar,eins og sykursýki eða blöðrubólga.
 • Lítil eða veik þvagblaðra, sem ekki heldur heillar næturþvagi.
 • Sálrænar, tilfinningalegar orsakir, t.d. vegna aðskilnaðar frá móður eða vegna nýs fjölskyldumeðlims.
 • Barnið sefur mjög fast.

Áhættuþættir

 • Sykursýki.
 • Blöðrubólga.
 • Ef foreldrar hafa þjáðst af undirmigu. Um 44% líkur eru á undirmigu ef annað foreldrið hefur pissað undir og 77% ef báðir foreldrar hafa þjáðst af undirmigu.
 • Fyrsta barnið.

Fyrirbyggjandi aðgerðir:

 • Ekki eru til neinar ábyggilegar fyrirbyggjandi aðgerðir.
 • Sýnið barninu ást, stuðning og skilning á vandamálinu.

Ráðleggingar:

 • Setjið undirbreiðslu á rúmið.
 • Látið barnið vera í þykkum nærfötum og náttfötum. Notið ekki bleiur og plastbuxur þegar barnið er orðið 4 ára. Það letur barnið til að takast á við vandamálið. Ekki eru þó allir sammála þessu og ráðleggja bleiunotkun áfram.
 • Hafið hrein náttföt við rúm barnsins, þannig að barnið geti skipt um föt.
 • Haldið vökvainntöku í lágmarki 2-3 tímum fyrir svefninn.
 • Látið barnið pissa áður en það fer að sofa.
 • Vekið barnið til að pissa þegar það hefur sofið í nokkra klukkutíma. Ef barnið er nógu gamalt, getur það jafnvel sjálft stillt vekjaraklukkuna, þannig að það geti pissað um nóttina.
 • Hrósið og knúsið barnið ef það pissar ekki undir.
 • Merkið þurrar nætur með krossi eða límmiða á dagatalið, ef barnið vill það sjálft.
 • Reiðist ekki yfir óhöppum. Skammið hvorki né nöldrið í barninu ef það pissar undir. Það leiðir einungis til þess að barnið gefst upp eða til frekari tilfinningalegra vandamála.
 • Ef þið notist við blöðrustækkandi æfingar, fylgið þá leiðbeiningunum vel eftir. Þetta á einnig við ef notast er við önnur tæki til að breyta vananum.
 • Reynið rakaskynjara sem fer í gang þegar barnið blotnar.

Mataræði

Reglulegt og venjulegt fæði. Látið barnið drekka mikið yfir daginn en mjög lítið 2-3 tímum fyrir svefn.

Hvað ber að varast

Sálrænt og tilfinningalegt áfall sem getur fylgt barninu alla ævi.

Framtíðarhorfur

Undirmiga getur verið nokkurra ára vandamál.

Látið lækni útiloka að um bólgur í þvagfærum sé að ræða eða hvort sykursýki sé orsök vandamálsins. Þegar gengið hefur verið í skugga um að svo sé ekki er eins víst að með auknum þroska barnsins lagist vandamálið.

Lyfjameðferð

Meðferð gengur út á að gefa lyf sem dregur úr þvagframleiðslu á nóttinni. Minirin® (Desmópressin) er náskylt heiladingulshormóninu Vasopressin sem skortur er á og gegnir þessu hlutverki. Minirin er til í töfluformi, sem nefdropar eða nefúði, og fæst gegn lyfseðli. Mælt er með þessu ef aðrar aðferðir duga ekki og fjölskyldan óskar eftir lyfjameðferð er mælt með þessu.