Börn og rétturinn til að ráða yfir líkama sínum

Í stað þess að leitast við að móta börn okkar eftir okkar eigin þörfum og löngunum ættum við að leitast við að miðla til þeirra styrk og ábyrgðartilfinningu til að þau megi ná tökum á eigin lífi þar sem þau eru sjálf gerendur og stjórnendur. Þetta krefst þess, meðal annars, að foreldrar og uppalendur verða frá ungum aldri barnanna að taka tillit til réttar þeirra til að ráða yfir líkama sínum.

Þegar fullorðið fólk beitir börn þvingunum, hvort sem það er að neyða þau til að klára matinn sinn, fá þau til að klæðast fötum sem þau vilja ekki, láta þau kyssa alla í boðinu góða nótt, eða rassskella þau fyrir að hlýða ekki, gefa þau börnunum ákveðin skilaboð um að líkamlegur réttur þeirra sé lítils eða einskis virði.

Börn hafa rétt til að ráða yfir líkama sínum

Þrátt fyrir að flest þjóðfélög hafi undanfarnar aldir unnið að þróun stjórnmálalegra og efnahagslegra réttinda þegna sinna eru þau sein til að þróa þann rétt sem kannski er mikilvægastur, nefnilega réttinn til að ráða yfir líkama sínum. Að minnsta kosti nær þessi réttur ekki til barna í flestum löndum heims. Kynferðisleg kúgun og misnotkun barna um heim allan er gífurlegt félagslegt vandamál. Á tímum hnattvæðingar fáum við fregnir af börnum sem neyðast til að selja sig kynferðislega vegna fátæktar og bjargarleysis foreldra þeirra. Einkum og sér í lagi á þessi kúgun og misnotkun sér stað í þriðja heiminum. Velmegandi fólk (karlmenn) frá Vesturlöndunum sækja til framandi landa til að fá útrás fyrir kynlífs- og valdaþörf sína. Þetta þýðir þó ekki að vandamálið sé ekki fyrir hendi á Vesturlöndum. Kynferðisleg misnotkun á börnum viðgengst einnig í velmegandi samfélögum hins vestræna heims. Ekkert bendir til að okkar eigin land skeri sig úr fjöldanum hvað þetta málefni varðar.

Sú hugmynd að allar persónur hafi rétt til að ráða yfir eigin líkama er vissulega viðurkennd að verulegu marki í vestrænum þjóðfélögum. Þessa hugmynd eigum við ekki síst að þakka hinum þekktu heimspekingum Immanuel Kant og John Stuart Mill. Þessi hugmynd hefur sett greinileg spor í nútíma samfélagi eins og sjá má innan heilbrigðiskerfisins þar sem áhersla er lögð á upplýst samþykki sjúklinga áður en meðferð eða rannsóknir eru hafnar á líkama sjúklings. Þá má sjá spor hugmyndar þessarar í löggjöf okkar þar sem óvelkomin snerting að yfirlögðu ráði á líkama annarrar persónu varðar við lög, hvort sem það er yfirmaður sem klappar á bossa einkaritarans, eða árásarmaður sem hrindir og skaðar. Þrátt fyrir þessar staðreyndir álít ég að mikið vanti á að hugmyndin um rétt manneskjunnar til að ráða yfir líkama sínum sé almennt meðtekin meðal fólks. Síst af öllu hafa börnin okkar hugmynd þessa á hreinu.

Líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, af hvaða tagi sem er, er skýr yfirlýsing til fórnarlambsins: þú ræður ekki yfir líkama þínum, heldur er það ÉG. Sé misnotkunin endurtekin, verða skilaboðin skýrari. Andstaða barnsins er brotin niður með endurtekningu verknaðarins. Að lokum gefst barnið upp og sættir sig við hið skýlausa boð: þú ræður ekki yfir líkama þínum. Sé misnotkunin langvarandi hætta börnin að skynja sínar eigin þarfir og langanir. Tilfinningum þeirra og upplifunum hefur verið stolið frá þeim af geranda hins kynferðislega verknaðar, sem neyðir þau til að bregðast við þörfum sínum og löngunum í stað sinna eigin. Við það að missa tengslin við tilfinningar sínar missa þau einnig tengsl við sitt eigið „sjálf”. Langvarandi misnotkun rænir börnin ekki einungis tengslum við tilfinningar sínar og sjálfvitund. Hún rænir þau einnig hæfileikanum til að lifa og starfa sem siðgæðisverur. Of mörg dæmi eru um að fullorðnir einstaklingar, sem hafa verið fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar nái ekki tökum á lífi sínu. Hættan á að „lenda” endurtekið í „vondum” samskiptum og samböndum tengist þeirri reynslu sem rændi einstaklingana unga sjálfsvitund sinni og hæfileikanum til að stjórna og taka ábyrgð á eigin lífi.

Börn eiga erfitt með að verja rétt sinn

Ég vil halda því fram að rétturinn til að ráða yfir líkama sínum sé forsenda sjálfræðis hverrar persónu og jafnframt að vitundin um þennan rétt móti breytni hverrar persónu sem siðgæðisveru. Þekking okkar á líkamlegu ofbeldi og þá sérstaklega kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum sýnir að börn eiga erfitt með að verja sig gagnvart þeim sem brýtur á þeim. Ekkert í uppeldi þeirra segir þeim á skýran hátt að líkami þeirra tilheyri þeim sjálfum og að engum sé leyfilegt að gera neitt við hann án þeirra samþykkis. Þessi vöntun á vitund um hinn sjálfsagða rétt til að ráða yfir líkama sínum, gerir börn auðveldlegar að þolendum ofbeldis í stað stjórnenda eigin lífs með sterka siðgæðisvitund, sem geta sett mörk og sagt: „Hingað og ekki lengra.” Vöntun réttarins til yfirráða yfir eigin líkama er tengdur hugmyndum um að börn séu eign foreldra sinna, einkum feðra sinna, sem höfðu óskoraðan rétt, en jafnframt ábyrgð til að aga þau líkamlega &i acute; uppeldinu til þess að þau mættu verða að mætu og heiðvirðu fólki. Strangur agi og hóflegt líkamlegt ofbeldi í uppeldisskyni þótti til skamms tíma sjálfsagður réttur foreldra.

Hvað þarf að breytast?

Í stað þess að leitast við að móta börn okkar eftir okkar eigin þörfum og löngunum ættum við að leitast við að miðla til þeirra styrk og ábyrgðartilfinningu til að þau megi ná tökum á eigin lífi þar sem þau eru sjálf gerendur og stjórnendur. Þetta krefst þess, meðal annars, að foreldrar og uppalendur verða frá ungum aldri barnanna að taka tillit til réttar þeirra til að ráða yfir líkama sínum. Ef börn eiga að geta þróað siðferðilega vitund og tilfinningar, persónulega og félagslega ábyrgð svo og hæfileikann til að mynda tilfinningalega gefandi og náin tengsl við aðra er nauðsynlegt að virða þennan rétt á víðtækan hátt. Ef fullorðnir meðhöndla líkama barna eins og hlut og ekki sem hluta persónu þeirra, kenna fullorðnir börnum að líta á sig sjálf sem hluti og þá jafnframt annað fólk á sama hátt. Börn eiga rétt á að fá útskýringu á hvað á að gera með líkama þeirra og hvers vegna. Þau eiga ekki að þurfa að klára mat þegar þau eru orðin södd, klæðast fötum sem þau hafa ímugust á, eða kyssa langafa góða nótt ef þeim finnst það ógeðfellt.

Leikskóli framtíðarinnar

Uppeldisstofnanir eins og dagheimili og skólar geta stuðlað að því að gera börn meðvituð um rétt sinn til að ráða yfir líkama sínum og stuðla þar með að forvörnum hvað varðar kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Ég sé fyrir mér leikskóla og skóla framtíðarinnar sem kenna börnum að átta sig á hvað er góð og örugg líkamleg snerting, hvað er vond og hættuleg snerting og hvað er ruglandi snerting. Hér er mikilvægt að benda á að enga snertingu er í sjálfu sér hægt að skilgreina í eitt skipti fyrir öll sem góða, vonda eða ruglandi. Hægt er að tala um snertingarás við börn og hjálpa þeim síðan með æfingum að flokka snertingar og þar með tilfinningar sínar gagnvart líkamlegri snertingu. Á þessum ás sem teikna má sem lárétt strik, frá vinstri til hægri finnum við:

Góða/örugga snertingu (á öðrum enda ássins)

Þessi snerting virðir, nærir, styrkir og hvetur. Hún gefur þiggjandanum þá tilfinningu að hann eða hún sé elskuð, virt og viðurkennd. Hún smækkar hvorki né tekur neitt frá þiggjandanum. Allar persónur þarfnast snertingar af þessu tagi. Það góða við góða snertingu er að hún lætur þiggjandanum líða vel.

Vonda og hættulega snertingu (á hinum enda ássins)

Þessi snerting meiðir, hræðir, niðurlægir og misnotar. Hún hefur í för með sér sársauka. Það er venjulega mjög skýrt að „þiggjandi” þessarar snertingar vill ekki taka á móti henni. Barsmíð, hrinding eða nauðgun eru dæmi um þessa snertingu. Það vonda við vonda snertingu er að hún lætur þiggjandum líða illa.

Ruglandi snertingu (í miðjunni)

Þessi snerting lætur þiggjandanum líða óþægilega, ruglingslega eða asnalega. Tilgangur snertingarinnar er óljós og þiggjandinn getur ekki flokkað snertinguna sem góða eða vonda. Dæmi um þetta getur verið þegar frændur eða frænkur sem barnið þekkir sama og ekkert kveðja barnið með kossi og barnið reynir að víkja sér undan þeim atlotum. Barninu finnst þessi snerting óþægileg og asnaleg. Ruglandi snerting þarf ekki að vera hættuleg, en barnið vill samt ekki taka við henni. Annað dæmi um ruglandi snertingu er þegar barnið neyðist til að láta sprauta sig hjá lækni, nokkuð sem er líkamlega vont en samtímis „gott” fyrir það, samkvæmt hinum fullorðnu í kringum það. Í þessu tilviki þurfa hinir fullorðnu að gefa sér tíma til að útskýra fyrir barninu tilgang aðgerðarinnar. En trúlega er sú snerting mest ruglandi fyrir barnið sem samtímis er góð og hættuleg, t.d. kynferðisleg snerting sem er framkvæmd af eldra barni eða fullorðnum. Þessari snertingu fylgir oft hótun um meiðingar ef barnið segir einhverjum frá. Hin líkamlega kynferðislega snerting getur gefið barninu vissa líkamlega vellíðan, en samtímis er allt umhverfi snertingarinnar slíkt að það ruglar barnið algerlega í ríminu. Það sem gerir snertinguna ruglandi er að barnið er ekki visst í sinni sök varðandi tilgang snertingarinnar og hvað gerandinn vill.

Kennum börnum okkar að segja nei

Líkamleg snerting eins og koss getur verið bæði góður/öruggur, ruglandi og vondur/hættulegur. Sumar snertingar foreldra gagnvart börnum sínum geta verið vondar eða ruglandi á sama hátt og snertingar ókunnugra gagnvart börnum geta verið góðar og öruggar. Hvað sem líður ásetningi þess sem snertir þá er það þiggjandi snertingarinnar sem ákveður það hvort ákveðin snerting er góð og örugg , ruglandi eða vond og hættuleg. Kennum börnum okkar að enginn annar en þau hafi rétt til að ákveða hvað gert er við líkama þeirra. Kennum þeim að að segja NEI við vondri og ruglandi snertingu.

Birt með góðfúslegu leyfi uppeldi.is, en greinin birtist áður í tímaritinu Uppeldi.