Börn og óbeinar reykingar

Eiturefni

Þeir sem reykja ekki hafa oft mikinn ama af tóbaksreyk, en ekki er um langt liðið síðan í ljós kom við rannsóknir hvaða hætta fylgir því fyrir heilsuna að anda að sér reyk frá öðrum. Raunar ætti hættan af slíkum „óbeinum reykingum“ ekki að koma neinum á ávart því að í reyknum umhverfis reykingamanninn eru að minnsta kosti jafnmörg skaðleg efni og í reyknum sem hann sogar að sér.

Meðganga

Af ýmsum ástæðum eru óbeinar reykingar hættulegastar börnum. Ef móðirin reykir meðan á meðgöngu stendur geta efni í tóbaksreyknum borist með blóðinu til banrsins og skaðað súrefnis- og næringarflutninga til þess.

Með fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á þann margvíslega skaða sem móðir, sem reykir eftir fjórða mánuð meðgöngunnar, getur valdið ófæddu barni sínu.

Sumt af þessu virðist bitna á barninu – jafnvel árum saman. Má meðal annars nefna lítinn fæðingarþunga og aukna hættu á að móðirin missi fóstur eða ali barnið fyrir tímann og síðast en ekki síst að það fæðist andvana eða deyi innan fárra vikna.Í tveimur nýlegum greinum var skýrt frá rannsóknum á svo miklum fjölda ófrískra kvenna að nú er varla um að efast að reykingar skaða og jafnvel deyða börn í móðurkviði, við fæðingu og á fyrstu vikunum efitr fæðingu.

Æskuþroski og námsgeta

Auk þess hefur verið sýnt fram á að reykingar tengjast með einhverjum hætti minni vexti og þroska á æskuárunum og minni og hægari framförum í lestri, skrift og öðrum lærdómi. Óljóst er hvað þessum tengslum veldur en þau eru ótvíræð. Grunur manna er sá að sum þau vandamál sem fram koma á barnsárunum varðandi þroska og heilsu megi rekja til skaðlegra efna í tóbaksreyk sem börnin fengu í sig meðan móðrinin bar þau undir belti. Reykingar föður á meðgöngutímanum hafa einnig svipuð áhrif þótt þær séu ekki jafn skaðlegar og reykingar móður.

Brjóstagjöf

Flestar mæður vita að reykingar á meðgöngutíma eru hættulegar fyrir ófætt barnið en því miður átta þær sig ekki allar á því að reykingar þeirra að fæðingu lokinni eru líka skaðvænlegar barninu. Oft er það svo að konur sem hætta að reykja ófrískar byrja strax aftur þegar barnið hefur verið borið í heiminn. Mæðrum er ráðlegt að hafa barnið á brjósti en þá má ekki gleyma að vara við því að brjóstmylkingurinn fær eiturefni með mjólkinni ef móðirin reykir. Athugun hefur sýnt að nikótín er í blóði og þvagi þessara brjóstmylkinga jafnvel þegar enginn tóbaksreykur er í andrúmslofti þeirra.

Ungbörn

Í flestum fjölskyldum eru börnin mikið með mæðrum sínum á heimilinu fyrstu æviárin. Frumurnar í ungum lungum eru viðkvæmar og á þessum tíma á sér stað í líkama barnsins ör vöxtur og margar breytingar sem horfa til fullorðinsáranna. Ef móðirin reykir andar barnið iðulega að sér lofti sem er mengað hættulegum efnum og vegna þess hve mikið þarf að sinna ungabarni eru líkur á að móðirin sé með sígarettuna nálægt því. Það er því ekki að undra þótt flestar rannsóknir sýni að reykingar móður séu barninu skaðlegri en reykingar föður.

Sjúkdómar í öndunarfærum

Lengi hefur verið vitað að reykingar móður á meðgöngutíma eru skaðlegar barninu, einnig eftir fæðingu, en ekki er langt síðan menn fóru að beina athyglinni að eldri börnum og þeim varanlegu áhrifum sem óbeinar reykingar í æsku kunna að hafa í för með sér, jafnvel ævilangt. Í tveimur viðamiklum rannsóknum árið 1974 var athugaður fjöldi barna sem lögðust á sjúkrahús vegna lungnakvefs og lungnbólgu. Niðurstaðan var samhljóða: Ungbörnum er hættara við báðum þessum sjúkdómum ef foreldrarnir reykja. Það kom einnig í ljós við þessar og aðrar rannsóknir að börn þjást oft af sömu öndunarfærasjúkdómum og foreldrarnir og því ekki ólíklegt að foreldrar smiti börnin aftur og aftur. Foreldrar sem reykja gera því hvort tveggja, að menga andrúmsloftið fyrir börnunum og smita þau ýmsum sjúkdómum.

Viðamikil rannsókn í Finnlandi sýndi að ung börn reykingafólks eru tíðari gestir á sjúkrahúsum en börn þeirra sem ekki reykja og eru þar að jafnaði lengur. Rannsóknin leiddi í ljós að dánartíðni barna á aldrinum eins mánaðar til fimm ára var hærri en ella ef foreldrar reyktu, og s ýnt var fram á marktæk tengsl við óbeinar reykingar.

Snemma á níunda áratugnum var orðið fullljóst að lungnakvef, lungnabólga, máskennd öndun, astmi og tíður hósti hjá ungum börnum væri í nánum tengslum við reykingar foreldra.

Á ofanverðum áttunda áratugnum fóru menn að gefa eldri börnum nánari gætur enda hafði komið fram þá þegar, að reykingar foreldra seinkuðu þroska barnsins fram eftir aldri.

Árið 1978 kom fram í viðamikilli rannsókn að börn reykingamanna voru hóstagjarnari en önnur börn. Í báðum samanburðarhópunum voru börn sem ekki reyktu sjálf. Seinna sýndi rannsókn að þessi áhrif voru mest á yngri börn en 11 ára en þó merkjanleg allt til 18 ára aldurs, Líkur á tíðu hóstakjöltri reyndust vera enn meiri ef aðrir reyktu, auk foreldranna.

Jafnvel eftir að tekið hefur verið tillit til búsetu, húsakosts, heilsufarssögu fjölskyldu o.fl. sýna flestar rannsóknir að óbeinar reykingar auka tíðni sjúkdóma í öndunarfærum.

Astmi og máskennd öndun

Sjúkdómar eins og lungnakvef og astmi geta valdið því að börn andi með sogkenndu hvæsi. Ef þau eiga við þetta vandamál að stríða getur það magnast þegar foreldrarnir reykja.

Börnum er einnig hættara við að fá astma ef foreldrarnir reykja. Við rannsókn í Kanada kom í ljós að börn sem höfðu astma og áttu móður sem reykti, sýndu 47% fleiri sjúkdómseinkenni og áttu erfiðara með öndun en þau sem ekki áttu móður sem reykti.

Lungnakvef

Við rannsóknir hefur margoft komið fram, að börn eru næmari fyrir lungnakvefi ef foreldrar þeirra reykja. Rannsókn sem gerð var í Japan sýndi að af allri megnun á heimilum ollu reykingar móður mestu um sjúkdóma í öndunarfærum og ekki síst astmakennt lungnakvef hjá börnum.

Vöxtur og þroski lungnanna

Líklegt er að óbeinar reykingar valdi ekki aðeins sjúkdómum og einkennum í öndunarfærum barna heldur hafi einnig áhrif á vöxt, þroska og öndunargetu lungnanna. Flestar rannsóknir hafa sýnt þetta þó að sambandið þarna á milli sé ekki jafn afdráttarlaust og þegar sjúkdómar eru annars vegar.

Viðamikil rannsókn í Bandaríkjunum sýndi að hætt er við að lungu barna starfi ekki eins vel ef móðirin reykir. Í mörgum öðrum rannsóknum þar sem loftmagn í lungunum var mælt með ýmsum aðferðum kom í ljós að það bitnaði á öndunargetu barnanna ef foreldrar þeirra reyktu. Flestar rannsóknirnar sýndu að lungun uxu þá hægar í börnunum og í einni kom fram að börnin stækkuðu hægar.

Mikilvægt er að greina á milli áhrifa óbeinna reykinga og annarra þátta í fjölskyldunni og umhverfinu sem gæti að sumu leyti verið um að kenna. Flestar rannsóknir sýna þó að óbeinar reykingar hafa veigamikil áhrif á þroska lunganna. Einnig er hugsanlegt að hægur lungnaþroski geti stafað bæði af því að móðirin reykti á meðgöngunni og yfir barninu eftir fæðingu. Nú eru vísindamenn að reyna að mæla vægi þátta, hvors um sig.

Líkamsþroski

Reyki móðirin á meðgöngutíma dregur það að jafnaði úr fæðingarþyngd barnsins. Óháð þessu hafa sumar rannsóknir sýnt að börn foreldra sem reykja eru að meðaltali minni en jafngömul börn foreldra sem ekki reykja. Í einni könnunni kom fram samband milli hæðar 6-10 ára barna og sígarettufjöldans sem móðirin reykti en marktæku áhrifin virtust vera af óbeinum reykingum í móðurkviði og innöndun tóabaksreyks í frumbernsku.

Nikótín í barnslíkamanum

Nikótínið sem sumir brjóstmylkingar fá með móðurmjólkinni brotnar niður og breytist í önnur efni í líkama þeira. Svipuð efni er að finna í blóði smábarna sem anda að sér tóbaksreyk. Að undanförnu hefur athyglin beinst í vaxandi mæli að eldri börnum í þessu sambandi. Þegar þau fá sjúkdóma og einkenni sem tengjast óbeinum reykingum er líklegt að skaðann megi ekki aðeins rekja til þess sem reykurinn gerir lungunum sjálfum, heldur einni til þeirra skaðlegu efna sem fara inn í blóðið meðan reykurinn er í lungunum og berast með því um líkamann. Við rannsóknir í Bandaríkjunum (ungbörn), Japan (skólabörn) og Bretlandi (11-16 ára börn) kom skýrt í ljós að því meira sem reykt var á heimilum barnanna þeim mun meira var að slíkum efnum, ýmist blóði, þvagi eða munnvatni þeirra.

Eyrnabólga, smákvillar og skólanám

Eyrnabólga er oft þrálátur og jafnvel alvarlegur kvilli. Eyranu er skipt í þrennt: Ytra eyra, miðeyra og innra eyra. Milli miðeyra og hálsins eru göng og af þeim sökum er sýking á öðrum staðnum oft tengd sýkingu á hinum. Sýnt hefur verið fram á að miðeyrasýking hjá börnum tengist reykingum foreldra. Þetta hefur komið fram í nokkrum rannsóknum á börnum á líkum aldri.

Sá sem þjáist iðulega af einverjum minni hátta meinum líður að sjálfsögðu fyrir það. Ef börn eiga í hlut getur það staðið þeim verulega fyrir þrifum. Þeim líður illa líkamlega og vegna s júkdómsins eru samskipti við annað fólk minni en ella. Þau missa úr skólanum eða eru svo ónóg sjálfum sér að það bitnar á náminu. Af slíkum kveisum má til dæmis nefna hálsbólgu eða önnur særindi í barka. Sýnt hefur verið fram á að hundraðshluti barna sem sýna þessi einkenni fjórum sinnum á ári eða oftar er tengdur því hvort móðirin reykir og stækkar eftir því sem hún reykir meira.

Aðrir kvillar

Nokkuð bendir til að ýmis önnur vanheilsa í börnum tengist óbeinum reykingum. Þar á meðal eru minni háttar kvillar eins og magakrampi og bólgnir hálskirtlar en einnig alvarlegri veikindi eins og heilahimnubólga og Kawasaki-sjúkdómur. Rannsóknir eru stöðugt að leiða í ljós eitthvað nýtt sem bendir til sambands milli óbeinna reykinga og fjölmargra sjúkdóma í börnum. Trúlega er það aðeins toppurinn á ísjakanum sem blasir við enn sem komið er.

Krabbamein

Margir spyrja hvort óbeinar reykingar í æsku geti aukið líkur á lungnakrabbameini síðar á ævinni. Því er erfitt að svara vegna þess að sjúkdómsins verður ekki vart fyrr en mörgum árum eftir að sjúkdómsvaldurinn kom til sögunnar. Oft er um að ræða 20 ár eða meira og á þeim tíma verða menn fyrir ýmsu sem skipt getur máli í þessu sambandi. Samt sem áður er það niðurstaða nokkurra rannsókna, þar sem kappkostað var að taka tillit til allra annarra þátta, að óbeinar reykingar auki vissulega hættuna á lungnakrabbameini síðar á lífsleiðinni.

  • Lokaorð

Það er sannað að heilsu barna er hætta búin af óbeinum reykingum. Hér að framan er gerð grein fyrir veigamestu áhrifum þeirra samkvæmt rannsóknum vísindamanna að undanförnu.

Útgefendur:
Tóbaksvarnanefnd og Krabbameinsfélag Reykjavíkur, 1991
Birt með góðfúslegu leyfi Tóbaksvarnanefndar, reyklaus.is og Krabbameinsfélagsins, krabb.is

fyrst birt á doktor.is 2002