Börn með sérþarfir á brjósti

Börn sem eru veik eða hafa meðfædda galla

Þrátt fyrir hina mörgu kosti brjóstamjólkur reikna margir með því að brjóstagjöf þurfi að enda ef barn er alvarlega veikt. Þegar barn reynist hafa meðfæddan galla eða sjúkdóma geta vonbirgði og sorg foerldra verið yfirþyrmandi. Í stað fullkomna barnsins sem búist var við á meðgöngu kemur sterk tilfinning missis.

En brjóstagjöf hefur mildandi áhrif bæði á barnið og foreldrana í veikindum. Barnið fær aukna vörn gegn sýkingum sem eru veikari fyrir, auk þess að vera í nánara sambandi við móður og fá meiri örvun. Það hefur sýnt sig að þegar nauðsyn krefur hefur nýburinn ótrúlega aðlögunarhæfni að óvenjulegum aðstæðum og brjóstið er mun eftirgefanlegra en peli og pelatútta. Hér á eftir verða nefndir helstu gallar og sjúkdómar og hvernig má styðja við brjóstagjafarferlið í hverju tilfelli fyrir sig.

Lágur blóðsykur

Nýburar fá eðlilegt lífeðlisfræðilegt sykurfall eftir fæðingu sem aðlagast fljótt utanlegslífi. Fall undir mörk eru yfirleitt einstaklingsfrávik.

Blóðsykursfall er áhyggjuefni ef móðir er sykursjúk, barnið er síðburi, fyrirburi eða léttburi.

Sykursýkisbörn eru líkleg til að falla í sykri fljótlega eftir fæðingu því þau halda áfram að framleiða mikið insúlín. Ef einkenni sykurskorts koma fram er gefinn sykur í æð. Síðburar þurfa örar brjóstagjafir til að ná jafnvægi í blóðsykri. Slappleiki og lélegt sog getur hvatt blóðsykursfall. Því þarf að fylgja strax eftir öllum áhuga barnsins til brjóstagjafa eins oft og lengi og barnið óskar. Léttburar og fyrirburar eru líka í hættu á sykurfalli. Ákveðin fyrsta brjóstagjöf sem fylgt er með mjög þéttum gjöfum er venjulega nóg til að jafna blóðsykur. Í sumum tilfellum geta áframhaldandi lélegar gjafir krafist ábótar en þeim á ekki að halda áfram þegar barn fer að taka brjóst vel. Hvenær sem sykurvatnsgjafir eru boðnar hvort sem það er rútína eða tilraun til þess að leysa vandamál verður að hafa í huga neikvæð áhrif slíkra gjafa á áhuga barnsins á brjóstagjöf. Fyrir utan þurrmjólk þá leiðir allur vökvi t.d. vatn eða sykurvatn í stað brjóstagjafar til hitaeiningasnauðra gjafa sem aftur leiðir til meira þyngdartaps en ef barn fær broddamjólk. Slíkan skort á hitaeiningum ber að forðast ef hægt er.

Fjölburar

Það að vera fjölburi er ekki sjúkdómur. En brjóstagjöfin er flóknari og þarfnast meiri vinnu. Tvö nær fullburða börn þurfa tvöfalt meiri næringu en eitt. Brjóstagjöf er vel möguleg en móðirin þarf sérstakan stuðning. Móðirirn þarf að láta hvorn tvíbura taka bæði brjóst og þarf að fá aðstoð við að prófa hinar ýmsu tvíburastellingar. Þríburabrjóstagjöf er líka vel mögulega eins og dæmin sanna. Brjóstaráðgjafi á að fylgja fjölburum eftir og móðir á að fá heimilisaðstoð eftir útskrift.

Börn sem þyngjast hægt

Þau einkennast af:

a) hægum, stöðugum vexti
b) samræmi í þyngdar- og lengdaraukingu
c) Þroskamörkum er náð innan eðlilegra tímamarka.

Þó að þessi börn séu léttari en jafnaldrar eru þau heilbrigð og hamingjusöm. Afskipti eru ekki nauðsynleg en brjóstráðgjafi getur útilokað óheppilegt brjóstagjafarmynstur. Mjög fituskertir megrunarkúrar sem hafnir eru á brjóstagjafartíma geta haft áhrif. Síðan er alltaf til nokkuð sem kallast arfgeng smæð. (litlir foreldrar, asískir foreldrar).

Börn sem þyngjast ekki

Barn sem hefur ekki náð fæðingarþyngd eða þyngist um minna en 100 gr á viku. Flest tilfelli eru ekki af líkamlegum orsökum, sem geta verið miðtaugakerfisgallar, hjarta- eða nýrnagallar, efnaskiptasjúkdómar, parasítsýking o.fl. En auðvitað þarf að kanna þá möguleika. Algengari ástæður eru t.d. ónógurfjöldi gjafar, slæmar stellingar, mataræði móður, sogvilla, taugakerfisvanþroski eða lyfjanotkun móður. Stundum eru svo þessar ástæður saman í bland. Finna þarf orsökina með eða án aðstoðar og fá viðeigandi meðferð.

Fyrirburar

Innihaldsmunur brjóstamjólkur framleiddri af konum sem fæða fyrir tímann og þeirra sem fæða á tíma hefur verið þekktur frá 1950. Miðað við mjólk fullmeðgenginnar konu hentar fyrirburamjólkin vaxtar og ónæmisþörfum fyrirbura betur. Hún hefur mun meira magn IgA, próteins, fitu, járns o.fl. Þar að auki er fitusamsetning fyrirburamjólkur sérlega hentug fyrirburum. Mæður fyrirbura standa frammi fyrir ýmsum hindrunum til brjóstagjafar sem mæður fullbura gera ekki. Þetta veldur því m.a. að á heimsvísu fækkar fyrirburum og léttburuum sem eru á brjósti.

Þetta er sérstakt áhyggjuefni því að fyrir þennan viðkvæma hóp er ágóðinn af brjóstagjöf sérlega mikill og ekkert sem kemst jafnfætis því. Það ætti að ræða við allar konur sem leggjast inn vegna yfirvofandi fyrirburafæðingar um brjóstagjöf. Ef konan hefur þegar frætt hana um leið og hún er viðræðuhæf eftir fæðinguna. Veita þarf allar upplýsingar sem tiltækar eru um brjóstagjöf barns í svipuðu ástandi og hennar. Starfsfólk má ekki forðast að gera þetta undir því yfirskyni að valda konunni sektarkennd, ef hún velur að hafa ekki á brjósti. Allar uppl&yacute ;singar eru gefnar um meðhöndlun barnsins að öllu öðru leyti. Að sleppa upplýsingum um brjóstagjöf er siðferðislega rangt.

Mjólkun fyrirburamæðra

Sumar konur eru óákveðnar eða tregar til að byrja mjólkun. Þeim gæti hafa verið talin trú um að það væri „of mikið“ ofan á allt það álag, kvíða og þreytu sem fyrir væri. Sumum er jafnvel ráðlagt að byrja ekki mjólkun, því í því tilfelli að barnið dæi væru þær verr settar en ef brjóstagjöf eða mjólkun hefði ekki verið hafin. Það á þvert á móti að hvetja til að byrja að mjólkun strax eftir fæðingu þegar hormónaáhrif eru í hámarki. Hvatningu má miða við stuttan tíma í senn og benda á skammtímamarkmið til dæmis fyrsta vikan o.s.frv. gott langtímamarkmið er að miða við þann tíma sem barnið átti að fæðast á. Þessum konum á að benda á að mjólka sig að minnsta kosti 5 sinnum á dag í 10-15 mínútur (a.m.k. 100 mín á dag). Flestar mæður fyrirbura upplifa minnkun mjólkurmagns á öðrum mánuði. Engin einföld skýring er til á þessu en pumpa kemur ekki í stað líkamlegrar nálægðar barns og hormónaviðbrögð eru því ekki þau sömu.

Prólaktín er yfirleitt kallað aðalmjólkurframleiðsluhormónið. Það losnar við sog barnsins á geirvörtunni eða aðra örvun og stjórnar því hversu mikil mjólk er framleidd.

Þættir sem hemja Prólaktín losun eru t.d. löng rúmlega, vandamál móður tengd fæðingu eða keisaraskurði, þreyta, streita og óregluleg mjólkun.

Sýkingar

Sýkingar eru af ýmsum toga og misalvarlegar. Sýkingarnar og spítalavist í kjölfar þeirra geta oft haft áhrif á brjóstagjöfina.

Þarmasýkingar einkennast af niðurgangi og/eða uppköstum. Ef ógleði fylgir með reynist oft erfiðara að næra börnin. Eftir fæðingu hafa börn vökvabirgðir til tveggja til þriggja daga. Eftir það eru vökvaskipti 40% á meðan þau eru 14% hjá fullorðnum. Þetta gerir þau sérlega viðkvæm fyrir vökvatapi. Barn sem þjáist af þurrki er lystarlaust og ber sig illa. Ef barnið er tilbúið að taka eitthvað um munn meðan á þarmasýkingu stendur ætti það að vera brjóstamjólk. Hún er fljótmelt og því líkur á að eitthvað nái niður í maga. Þó læknir ákveði að taka eigi barn af mjólk og mjólkurvörum gildir það ekki um brjóstamjólk. Ef brjóstamjólk er ekki tiltæk þarf að gefa sérstaka vökvablöndu með ákveðnu hlutfalli salt og sykurs. Í alvarlegustu tilfellunum þarf að gefa vökva í æð.

Öndunarfærasýkingar eru algengustu sýkingar nýbura og barna. Yfirleitt er orsöki vírus. Venjuleg viðbrögð barna við veikindum eru að vilja fara oftar á brjóst en í þessum tilfellum eru þau treg eða neita jafnvel alveg.

Ástæðan er oftast stíflað nef. Til að hjálpa til ætti móðirin að gefa í sitjandi stöðu haldandi barninu eins uppréttu og hægt er. Nefdropa má gefa í 15-20 mín. fyrir gjöf. Síðri leið er að soga slímið út með sogi. Einnig má nota saltvatnsdropa.

RS-vírus krefst ekki notkunar lyfja nema bakteríusýking komi samhliða. Börn fara ekki á spítala nema um langvarandi lungnavandamál sé að ræða. Barnið er heima og heldur áfram á brjósti.

Lungnabólga getur krefist spítalainnlagnar. Börnin verða oft bráðveik með háum hita og jafnvel krömpum. Þau þurfa súrefni, vökva í æð og stera.

Brjóstagjöf getur haldið áfram þótt súrefni sé gefið í nös. Einnig þótt barnið sé í súrefnistjaldi. Brjóstmóðir er fljót að hugga grátandi óhamingjusamt barn sem líka þarf að spara kraftana.

Heilahimnubólga er alvarlega og krefst innlagnar. Tekinn er mænuvökvi til ræktunar og sýklalyf gefin í æð. Móðir þarf að fá aðstoð við vökvaslöngurnar þegar hún leggur á brjóst. Barnið getur verið áhugalaust fyrir brjóstinu í einn eða tvo daga í bráðafasanum en tekur svo við sér af sama ákafa og áður.

Eyrnabólga. Það er vel þekkt að brjóstagjöf verndar gegn eyrnabólgum og sýking er vægari ef hún kemur hjá brjóstabarni. Barn með eyrnabólgu vill fara oftar á brjóst sér til huggunar og heldur oft um eyrun eða höfuðið á meðan það sýgur.

Gallar á miðtaugakerfi

Sog og kyngingarviðbragð hjá þessum börnum er ekki í lagi og það veldur vandræðum við næringu. Margar ákveðnar mæður hafa með góðri hjálp lækna, ljósmæðra og annarra haft þessi börn á brjósti og oft þróað sína eigin tækni til að komast yfir vandkvæðin.

Myelomeningocele er galli neðarlega á hrygg sem oft fylgir veiklun fóta eða jafnvel lömun. Barnið fer oft í aðgerð fljótlega. Foreldrar eru hvattir til að vera hjá barninu og móðir getur haft það á brjósti. Móðirin þarf að fá aðstoð við að taka barnið upp og staðsetja það við brjóstið án þess að hreyfa við þessu svæði. Hún getur notað Madonnustöðu (konan situr með barnið á ská í kjöltunni) eða liggjandi stöðu. Fyrstu gjafir þurfa að vera stuttar til að spara krafta barnsins. Ef það gleypir loft í gjöfinni er ekki hægt að láta það ropa á venjulegan hátt. Best er að nudda milli herðablað eða róa barninu fram og aftur. Ef gallanum fylgir ske mmd á heilastofni er óvíst hvort barnið geti verið á brjósti yfirhöfuð. Mjólkun handa barninu getur þá gefið móðurinni mikið.

Vatnshöfuð þarfnast nákvæmrar hjúkrunar og foreldrar þurfa mikinn stuðning. Meðferð við gallanum er aðgerð þar sem lagður er ventill í höfuðið. Brjóstagjöf er oft möguleg ef meðferð er markviss. Stelling og stuðningur við höfuð barnsins er aðalvandamálið og fara þarf mjög varlega. Brjóstagjöf í liggjandi stöðu er sennilega þægilegust fyrir barnið. Gjafir ættu að vera þéttar og eftir eftirspurn barnsins til að forðast bakflæði. Ef alvarleg heilaskemmd fylgir gallanum er brjóstagjöf ekki möguleg en auðvitað getur konan mjólkað sig.

Down´s heilkenni.

Mæður þessara barna þurfa sérstaka aðstoð við gjöf svo og hvatningu til að örva barnið með snertingu og æfingum. Mælt er með að nota aðferðina „dansarahendi“ við að gefa. Þá er höndin notuð til að styðja við og örva kjálka barnsins á meðan það drekkur. Í könnun sem gerð var á brjóstagjöf 59 barna með Down´s heilkenni átti helmingurinn ekki í neinum vandræðum með að taka brjóst, 4 voru hæg en tóku innan viku, 8 voru um viku að taka brjóst en 16 voru lengur en eina viku að ná tökum á gjöfinni.

Hjartagallar

Hjartagallar eru allt frá því að vera einkennalausir upp í að vera svo alvarlegir að hvaða áreynsla sem er, þar með talin gjöf, veldur bláma og einkennum hjartabilunar. Hjartagallar koma ekki í veg fyrir brjóstagjöf. Ljósmæður ættu að hvetja til brjóstagjafar og vera foreldrunum stuðningur. Algengt einkenni er að barn sýgur lélega og þreytist fljótt. Eftir einhvern tíma leiðir léleg fæðutaka til þyngdastöðvunar. Stundum duga lyfjagjafir (t.d. Digitalis) til að laga ástandið en stundum þarf barnið að fara í aðgerð. Börn með hjartagalla þyngjast betur ef þau eru á brjósti en ef þau eru á pela og sýnt hefur verið fram á að alvarleiki gallans er í engu samræmi við hæfileika barnsins til brjóstagjafar, eða það hversu lengi barnið er á brjósti. Það er fyrst og fremst staðfesta móður sem skiptir máli. Gjafir barna með hjartagalla eru oft langar eða ein klukkustund af hverjum tveim til þremur.

Meltingarfæragallar

Séu meltingarfærin gölluð getur verið þörf á aðgerð. Þá þarf yfirleitt að gera hlé á brjóstagjöf í einhvern tíma, og stundum þarf að nota sondu.

Bakflæði. Gubb og gúlp er algengt bæði hjá brjósta- og pelabörnum. Ástæðan er lítill magi. Meirihluti þessara barna kallast bara subbuleg börn og gubbið minnkar með þroska.

Foreldrum er ráðlagt að:

  • Hafa barnið upprétt í gjöf (nota þyngdaraflið).
  • Gefa eitt brjóst í gjöf (minna magn pr. gjöf).
  • Gefa oft.
  • Notast ekki við gamlar kerlingabækur (gefa mjöl o.fl.).

Ef vandamálið lagast ekki eða lagast um tíma en kemur svo aftur og er þá verra þarf að vísa barninu til læknis. Ástæður geta verið margar, til dæmis:

Pyloric stenosis, sem að vísu er sjaldgæft hjá brjóstabörnum. Meðferð felst í aðgerð. Brjóstagjöf þarf að hætta í 1-2 daga. Svo er ráðlagt að gefa eitt brjóst í stutan tíma í byrjun og þannig smá þenja magann út. Fara þarf með barnið eins og postulín á meðan.

Tracheoesophageal fistula. Barnið sem hóstar, svelgist á og blánar í gjöf þjáist líklega af þessu. Brjóstagjöf í byrjun er það besta fyrir þessi börn því broddurinn er lítill að magni. Meðferð felst í aðgerð. Síðan er gefið með sondu og þarf móðirin þá að mjólka sig. Örvun munns barnsins með snuði er mikilvæg. Eftir nokkra daga fer barnið að sjúga brjóstið af áfergju.

Lokaður endaþarmur krefst aðgerðar. Um leið og garnahreyfingar fara af stað eftir aðgerðina getur barnið farið á brjóst. Eðlilegar linar brjóstahægðir kom í veg fyrir vandamál vegna hægðatregðu hjá þessum börnum.

Klofin vör og/eða gómur. Mælt er með brjóstagjöf því það minnkar hættu á eyrnabólgu. Ef vör er klofin öðru megin og lítill galli á tanngóm getur barnið tekið brjóst án mikillar fyrirhafnar. Halda þarf barni þétt að brjóstinu og leggja fingur yfir gatið til að mynda loftþéttni. Eftir viðgerð á vör getur barnið farið svo til beint á brjóst. Ef gallanum fylgir gat á mjúka eða harða góminum er gjöf erfiðari. Það er opið upp í nefhol svo barnið þarf helst að gleypa mjólkina milli andadrátta til að forðast að mjólkin flæði út um nefið. Best er ef mjólk flæðir hratt og auðveldlega. Það má fá fram með örvun brjóstsins fyrir gjöf (brjóstanudd).

Barnið færir vörtuna gjarnan til í munninum að þeim gómhluta sem virkar best fyrir það. Ef gallinn er öðru megin gengur barni betur að sjúga ef sú kinnin liggur að brjóstinu. Þegar lagt er svo á hitt brjóstið snýr barnið eins, t.d. í fótboltastöðu. Móðirin þarf að æfa sig til að finna þá stellingu sem henni hentar best. Gjafir taka lengri eða 35-45 mín af virku sogi. Barn sem hefur gallann beggja megin ætti að sitja í kjöltu móður og snúa beint að henni með fætur í sundur. Þannig getur það auðveldar fært vörtuna til í munninum að vild. Mæður eru annars afar duglegar og uppfinningasamar að finna út þá tækni sem hentar þeim og barninu best.

Til eru gervigómar lagaðir af tannlæknum sem hafa gefist vel og b&ou ml;rnin hafa geta tekið brjóst án vandræða. Hér á landi hefur sú tækni þó ekki verið notuð enn. Ef barnið þyngist illa þarf að gefa því ábót. Mælt er með mjólkun með mjaltavél til að halda uppi framleiðslu. Ábótina má gefa með stútstaupi, dropateljara, sprautu eða hjálparbrjósti.

Choanal Atresia: Eru lokuð nefgöng (sjaldgæft). Barnið getur ekki andað gegnum nefið og verður að anda gegnum munninn. Meðferð felst í aðgerð. Brjóstagjöf er möguleg. Móðirin þarf að vera á verði gagnvart köfnunareinkennum. Stoppa þarf gjöf milli kynginga til að leyfa barninu að anda. Ef illa gengur þarf að fæða barnið með sondu. Best er ap halda barninu uppréttu.

Svæfingar

Vegna þess að oft er verið að tala um aðgerðir er rétt að nefna brjóstagjöf í tengslum við svæfingar. Reglur eru nokkuð mismunandi milli sjúkrahúsa um það hvenær síðasta gjöf fyrir aðgerð má fara fram. Þetta er allt frá 6 klst. fyrir aðgerð og niður í 2 klst. fyrir aðgerð. Samkvæmt rannsóknum er 75% magainnihlads brjóstabarns melt eftir 3 klst, á hinn bóginn aðeins 17% magainnilhads barns sem nærist á þurrmjólk.

Efnaskiptasjúkdómar

Hægt er að greina yfir 100 efnaskiptasjúkdóma í nýburum. Aðeins fáir þeirra valda heilsubresti. Í flestum löndum er kembileitað fyrir einhverjum af þessum sjúkdómum og hér á lnadi eru það PKU og Hypothyroidism.

PKU er skortur á ensími til að vinna úr Phenylalanini. Brjóstamjólk hefur minna phenylalanin en nokkur þurrmjólk. Meðferð við PKU er brjóstamjólk með ábót af sérstakri þurrmjólk sem úr hefur verið fjarlægt allt phenylalanin. PKU börn sem eru á brjósti hafa sýnt 12.9 hærri gáfnastig en börn nærð á annan hátt. Meðferð PKU barna er í höndum lækna og næringarfræðinga.

Galactosemia er mjög sjaldgæf, kemur fyrir í einni af hverjum 85.000 fæðingum. Ástæðan er ensímskortur. Niðurbrot mjólkusykursins galactosa er því ógerlegur. Þetta er eitt af fáum tilfellum sem ráðlagt er að venja barn af brjósti án tafar. Meðferð felst í því að gefa sérstaka þurrmjólk án galactosa (Nutramigen).

Hyopthyroidism er skortur á ensími til að myndun Thyroxins geti farið fram eða algjör vöntun á skjaldkirtli. Barnið þarf ævilanga lyfjagjöf án tillits til mataræðis.

Celiac disease einkennist af breytingum á þörmum sem veldur lélegri upptöku á fitu. Þetta ástand þarmanna er örvað af glúteini. Meðferð er brjóstagjöf eins lengi og mögulegt er og seinkun á kynningu fastrar fæðu. Eftir það þarf barnið að vera á glúteinlausu fæði. Þetta er afar sjaldgæfur sjúkdómur.

Vöggudauði

Orsök vöggudauða er ennþá aðeins þekkt að hluta. En það að hafa barn á brjósti er talinn einn af þeim þáttum sem geta komið í veg fyrir vöggudauða. Aðrir þættir eru: að svefnstaða sé rétt (lega á baki), að ekki sé reykt nálægt barninu og að barnið sofi í sama rúmi og móðirin (foreldrarnir). Brjóstamjólk er það besta sem hægt er að gefa nýfæddu barni. Ef barnið hefur meðfæddan galla eða sjúkdóm er brjóstagjöfin ennþá dýrmætari. Ekki þannig að hún geti lagfært viðkomandi galla eða sjúkdóm heldur njóta kostir hennar sín enn betur. Einnig byggir nándin við móðurina upp einstaka tengslamyndun sem er ómetanlegt fyrir barnið og ekki síður móðurina sem heldur á barni sem er ekki eins fullkomið og hún vonaðist til.

Greinin birtist áður í tímaritinu Mjólkurpósturinn.
Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.