Börn á spítala

Hvað er best?

Á seinni árum hafa heilbrigðisstéttir og foreldrar öðlast aukinn skilning á því hversu mikil röskun það er í lífi barns að leggjast inn á spítala. Fyrir aðeins 30 árum var enginn skilningur fyrir hendi á þeim miklu áhrifum sem innlögn hafði á þroska barnsins og algengast var að börnin væru lögð inn ein. Foreldrarnir voru meira að segja beðnir um að heimsækja ekki barnið meðan á vistinni stæði því að börnin ættu helst ekki að vera til vandræða á deildinni með gráti sínum og söknuði.

Þegar lítil börn eru aðskilin frá foreldrum sínum bregðast þau fyrst mjög harkalega við aðskilnaðnum með gráti og eftirsjá. Síðar, þegar foreldrarnir koma ekki aftur, verða þau sljó og sinnulaus. Þetta var forðum túlkað þannig, að börnin hefðu sætt sig við aðstæður og orðið þæg börn á deildinni. Því miður kom á daginn að þessi börn höfðu orðið fyrir óbætanlegu tjóni; þau höfðu upplifað slíkan missi, að æ síðan áttu þau erfitt með að bindast öðru fólki sterkum tilfinningaböndum.

Í dag er talið sjálfsagt að foreldrarnir leggist inn með börnum sínum, þökk sé auknum sálfræðilegum skilningi, og reynt er að hamla gegn áföllum af þessum sökum eins og hægt er.

Hvað hræðist barnið þitt á spítalanum?

Ýmislegt getur haft áhrif á barnið og vakið með því ótta á sjúkrahúsinu, þrátt fyrir að foreldrar með því allan tímann sem það dvelst þar. Á sjúkrahúsinu sér það mörg framandi andlit. Skyndilega er her manna kominn inn í líf þess og það getur verið ógnvekjandi. Reyndu að útskýra jafnóðum fyrir barninu hvað er á seyði og biddu starfsfólkið líka að útskýra fyrirfram hvað eigi að fara að gera við barnið. Það er mikilvægt að barninu sé sagt satt. Þá veit það að það getur treyst þér. Það er ekki rétt að segja barninu að það muni ekki koma til með að finna til nema að vitað sé að svo verði. Barnið treystir ekki því sem sagt er og þeirri manneskju sem segir því ósatt.

Á sjúkrahúsum er nánast allt framandi. Það orsakar streitu hjá barninu. Bara það að borða er öðruvísi; einnig nýr matur, ný lykt, ókunnug hljóð og venjur. Því þarf barnið að hafa foreldri eða annan nákominn nálægt sér allan tímann til að geta fundið fyrir öryggi. Með nærveru foreldris og því að tala við það og útskýra allt fyrir því skapar þú barninu öryggiskennd. Það er því ráðlegt að standa við það, að barnið verði aldrei einsamalt og að alls ekki verði vikið frá því (ef þú getur staðið við það). Það gefur barninu öryggistilfinningu að eitthvað í daglegu lífi þess sé eins og það er vant.

Hvernig bregst barnið við spítalavist?

Börn bregðast mjög misjafnlega við spítalavist. Þau eru sjálfstæðir einstaklingar og viðbrögðin eru eins misjöfn og börnin eru mörg.

Sumum börnum reynist sjúkrahúsvist auðveld og eru örugg og full trúnaðartrausts ef foreldrarnir eru hjá þeim.

Önnur börn bregðast afar harkalega við dvöl á sjúkrahúsi.

Þau síðarnefndu gráta mikið. Það er mikilvægt að þau fái leyfi til að gráta og fái útrás fyrir angist sína. Það er einnig mikilvægt að vera hjá barninu á meðan og sýna skilning á því að það sé hrætt en foreldri muni verða kyrrt hjá því. Það er ráðlegt að halda á barninu í fangi sér eða halda í höndina á því. Snertingin róar það.

Ofsafengin viðbrögð, þegar barnið fleygir sér í gólfið af reiði eða skelfur, geta líka komið í ljós. Þá skiptir miklu máli að halda ró sinni, tala rólega við barnið og taka það í fangið ef hægt er. Ástæða þess að barnið bregst svona skelfilega við er óttinn við hið ókunna og þá á ekki að skamma það heldur róa það og fullvissa það um að þú sért hjá því og munir ekki fara burt.

Sum börn fara aftur á bak í þroska og fara til dæmis að sjúga þumalinn eða pissa undir á ný. Þessi viðbrögð sýna ótta barnsins. Barnið þarf öryggi, nærveru og vissuna um að það muni ekki verða yfirgefið. Enn á ekki að skamma það né segja því að það sé vaxið upp úr slíku. Þá verður barnið bara ennþá hræddara. Þá þarf foreldri að vera hjá barninu, halda utan um það og tala við það svo að það finni aftur til öryggis og þá ættu þessi viðbrögð að hjaðna smátt og smátt, þó ef til vill ekki alveg fyrr en barnið er aftur komið heim.

Sum börn hætta líka að borða, draga sig inn í skel og vilja engin afskipti fullorðinna. Þau eru greinilega mjög hrædd, svo hrædd að þau hafa næstum misst alla trú á fullorðna fólkinu. Þau þurfa mikil samskipti. Þau þurfa á því að halda að talað sé við þau, þau föðmuð, að það sé sungið fyrir þau, þau jafnvel kitluð, leikið við þau og hvað annað sem hægt er að láta sér detta í hug til að fá þau út úr skelinni aftur og til að taka þátt í lífinu. Ef foreldrunum l&aacute ;nast þetta ekki er nauðsynlegt að leita aðstoðar, t.d. hjá fagfólki sjúkrahússins.

Hvað er hægt að gera til að auðvelda barninu spítalavistina eins og hægt er?

Ef svo heppilega vill til að foreldri geti undirbúið barnið fyrir sjúkrahúsvistina skal endilega gera það. Til eru góðar bækur á bókasöfnum um þetta efni sem hægt er að lesa með þeim. Þú getur líka keypt leikfanga læknadót, svo að þið getið farið í læknisleik. Vertu samt viðbúinn því að barnið bregðist allt öðruvísi við á sjúkrahúsinu heldur en þegar þið voruð að leika læknisskoðun heima. Það er ekki hægt að ætlast til þess að barnið sé þægt þegar á hólminn er komið, en það má ekki skamma það. Börn hafa sjaldnast stjórn á viðbrögðum sínum.

Þú getur varið eins miklum tíma og hægt er hjá barninu á spítalanum. Þú getur lagst inn með barninu og þannig verið hjá því allan sólarhringinn. Á sumum sjúkrahúsum eru aukarúm, sem komið hefur verið fyrir á sjúkrastofunni, en annars staðar er boðið upp á dýnur.

Ef barnið á hlut sem veitir því öryggistilfinningu heima hjá sér, t.d. bangsa, snuð eða þvíumlíkt, ætti að taka það með. Þú getur leikið við barnið á spítalanum. Allur leikur auðveldar barninu dvölina. Það má nota leikinn til að vinna úr þessari erfiðu reynslu. Þið getið líka spilað. Það er góð aðferð til að leiða hugann að öðru og skapa samkennd. Ef barnið er stálpað er athugandi að leigja myndbandstæki eða tölvuleiki til að drepa tímann. Láttu samt ekki barnið vera eitt með tækin, taktu heldur þátt. Þið getið rætt saman um leikina eða myndirnar, þá finnst barninu þú sýna því áhuga og taka þátt.

Biddu ævinlega starfsfólkið um að undirbúa barnið undir það sem er í vændum, ef þau gera það ekki að eigin frumkvæði. Barnið finnur til mun meira öryggis ef allt er útskýrt fyrir því. Einnig mætti árétta við starfsfólkið að sýna barninu eitthvað af tækjum og áhöldum til að það geti vanist þeim og fundist það hafa vott af yfirsýn.

Hvernig gerirðu spítalavistina eins bærilega og hægt er?

Ef barnið er á leikskóla mætti athuga hvort hægt sé að koma því við að leikskólinn heimsæki barnið á sjúkrahúsið. Á sumum spítölum eru barnadagar, þ.e. þegar börn mega koma í heimsókn. Þau fá að skoða sig um og útskýrt er fyrir þeim hvernig það er að leggjast á spítala og þau fá að snerta sum áhöldin. Börnum finnst öruggara að koma á stað sem þau kannast við þeim finnst þau ráða betur við þetta og hafa meiri stjórn á aðstæðum.