Bólusetningar

Hvað er bólusetning?
Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að börnin veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn. Bólusetningar draga nafn sitt af kúabólusetningunni sem breskur læknir, Edward Jenner, benti árið 1796 á að kæmi í veg fyrir bólusótt. Enginn smitsjúkdómur hafði leikið íslensku þjóðina eins grátt og bólusóttin, en hún gerði nánast út af við þjóðina á öldum áður.

Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða að hefja bólusetningu gegn bólusótt með ákvörðun sem danska heilbrigðisstjórnin tók þegar árið 1802. Jenner benti á að hægt yrði að útrýma bólusótt úr heiminum með bólusetningum. Það tók þó hátt í 200 ár að ná því markmiði og hægt var að hætta bólusetningum gegn þessum alvarlega sjúkdómi á áttunda áratug tuttugustu aldar.

Til hvers er verið að bólusetja?
Markmiðið með bólusetningum er að koma í veg fyrir alvarlega sjúkdóma, einkum hjá börnum. Bólusetningar hindra einnig farsóttir og draga úr hættulegum afleiðingum smitsjúkdóma. Í sumum tilfellum er mögulegt að útrýma sjúkdómum með öllu. Margir barnasjúkdómar svo sem mislingar, barnaveiki, kikhósti og lömunarveiki, sjást afar sjaldan nú orðið. Ungabarnadauði vegna þessara sjúkdóma var þó algengur á 19. öldinni og framan af 20. öldinni. Reynsla margra Austur-Evrópuríkja sýnir að þessir sjúkdómar geta komið aftur ef slakað er á bólusetningum barna.

Hvaða gagnsemi er af bólusetningum?
Gagnsemi bólusetningar er fólgin í þeirri vernd sem hún veitir barninu. Gagnsemin er líka fólgin í því að hvert og eitt bólusett barn smitar ekki önnur næm börn af þeim sjúkdómi sem það er verndað fyrir. Þannig eru bólusetningar einstakar aðgerðir sem eiga sér enga hliðstæðu í forvörnum sjúkdóma. Til þess að ná þessum árangri þurfa bólusetningar að vera almennar og ná til sem flestra barna. Íslendingar gættu sín ekki nægilega á þessu í upphafi 19. aldar þegar bólusett var gegn bólusótt. Því kom bólusóttin aftur árið 1839 í síðasta sinn en skaðinn varð minni en áður. Aþjóðaheilsustofnunin fullyrðir að engar aðgerðir séu mönnum eins hagkvæmar og bólusetningar.

Getur verið ástæða til að bólusetja ekki barn?
Það er sárasjaldan ástæða til að bólusetja ekki barn. Ef eitthvað af þessu á við þitt barn skalt þú ræða það við lækninn eða hjúkrunarfræðinginn í heilsugæslunni:

  • Barnið er veikt af einhverri ástæðu eða er með hita (þá er venjulega beðið með bólusetninguna þangað til barninu er batnað).
  • Barnið hefur fengið hliðarverkun eða aukaverkanir í kjölfar fyrri bólusetninga.
  • Barnið hefur fengið alvarlega ofnæmissvörun eftir að hafa neytt eggja (þ.e. munnurinn og kokið hefur bólgnað, lost, erfiðleikar með öndun eða útbrot um allan líkamann).
  • Barnið er að taka ákveðin lyf, einkum steralyf.
  • Barnið er haldið alvarlegum langvinnum sjúkdómi, s.s. ónæmisgalla.

Gegn hvaða sjúkdómum er bólusett á Íslandi?

Barnaveiki (Diphtheria)
Barnaveiki er sjúkdómur orsakaður af bakteríu. Helstu einkenni eru svæsin hálsbólga með myndun skána, en sjúkdómurinn getur orðið mjög alvarlegur og leitt til dauða. Bakterían framleiðir eitur sem berst út í blóðið. Þetta eitur er skaðlegt vefjum svo sem hjartavöðva. Sýklalyf drepa bakteríuna, en koma ekki í veg fyrir eituráhrifin. Því er bólusetning eina vörnin gegn sjúkdómnum. Barnaveiki er mjög sjaldgæf nú á dögum vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin er.

Stífkrampi (Tetanus)
Stífkrampi orsakast af bakteríu sem er til staðar víða í náttúrunni, svo sem í jarðvegi og húsdýraskít. Auðvelt er að smitast af óhreinindum sem komast í sár. Bakterían framleiðir eitur sem veldur því að vöðvar herpast saman og stífna. Þetta getur valdið dauða ef ekkert er að gert. Til er móteitur sem hindrar þessi einkenni ef gefið er nægilega snemma en eina örugga vörnin er bólusetning.

Kikhósti (Pertussis)
Kikhósti orsakast af bakteríu sem framleiðir eiturefni. Bakterían er mjög smitandi og berst milli manna með úðasmiti. Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst sérstaklega á næturnar. Sjúkdómurinn er bæði erfiður og langdreginn og getur verið lífshættulegur ungbörnum. Þau fá áköf hóstaköst með einkennandi soghljóði. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma í sjúkdómsferlinum. Með bólusetningu er hægt að verja börnin og er mikilvægt að byrja að bólusetja þau ung, því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Nýtt kikhóstabóluefni, sem hefur mun minni aukaverkanir í för með sér en eldri bóluefni, var tekið í notkun hér á landi 1. janúar árið 2000. H& eacute;r á landi er bólusett gegn kikhósta við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 5 ára aldur. Frá 1. janúar 2007 verða 14 ára unglingar einnig bólusettir í þeim tilgangi að minnka líkur á smiti í þjóðfélaginu.

Mænusótt (Polio)
Mænusótt eða lömunarveiki orsakast af veiru sem getur borist í menn með saurmengun, fæðu og vökva og hugsanlega einnig með úðasmiti. Einkenni geta verið væg, en einnig alvarleg vegna lamana sem leitt geta til dauða. Engin lyf eru til sem lækna sjúkdóminn. Með bólusetningu hefur náðst mikill árangur í að fyrirbyggja mænusótt og hefur nánast tekist að útrýma sjúkdómnum úr heiminum. Vonast er til að það markmið náist á næstu árum.

Haemofilus influenzae sjúkdómur af gerð b (Hib)
Haemofilus influenzae b er baktería sem getur orsakað alvarlega sjúkdóma svo sem heilahimnubólgu, barkabólgu, lungnabólgu, blóðsýkingu og liðbólgur. Bólusetning gegn þessarri bakteríu hefur verið mjög árangursrík. Frá því byrjað var að bólusetja gegn Hib hér á Íslandi árið 1989, hefur ekkert tilfelli greinst af heilahimnubólgu eða öðrum alvarlegum sýkingum af hennar völdum. Fyrir þann tíma greindust u.þ.b. 10 börn á ári með heilahimnubólgu af völdum Hib.

Mislingar (Morbilli, measles)
Mislingar stafa af veiru sem er mjög smitandi og berst milli manna með úðasmiti. Einkenni eru mismikil, en sjúkdómurinn getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða. Um það bil 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu. Bólusetning gefur góða vörn.

Hettusótt (Parotitis epidemica, mumps)
Hettusótt sem stafar af veiru er oftast mildur sjúkdómur, en er þekktur fyrir að geta valdið alvarlegum fylgikvillum. Heilabólga er algengust fylgikvilla, en aðrir fylgikvillar eru heyrnarskerðing og bólga í eistum, sem getur valdið ófrjósemi. Bólusetning veitir vörn gegn sjúkdómnum.

Rauðir hundar (Rubella)
Rauðir hundar er vægur veirusjúkdómur hjá börnum, en ef ófrísk kona fær sjúkdóminn getur fóstrið skaðast. Fósturskaði getur verið heyrnarskerðing, blinda, vansköpun, vaxtarskerðing og jafnvel fósturlát. Með bólusetningu allra í þjóðfélaginu er hægt hindra faraldra af rauðum hundum og koma í veg fyrir að konur á barneignaraldri smitist.

Meningókokkar C
Fram til ársins 2003 greindust að meðaltali um 10-15 einstaklingar á hverju ári með alvarlega sýkingu af völdum meningókokka C. Auk þess getur bakterían valdið hópsýkingum þar sem mun fleiri sýkjast. Aðallega er hér um að ræða börn og unglinga. Þessar sýkingar eru mjög alvarlegar þar sem um 10% þeirra sem sýkjast deyja og önnur 20% geta fengið alvarleg örkuml. Bólusetning gegn meningókokkum C hófst hér á landi síðla árs 2002 með mjög góðum árangri. Búast má við að með almennri bólusetningu megi útrýma meningókokkum C úr þjóðfélaginu. Bólusetningin hindrar hins vegar ekki sýkingar af völdum annarra meningókokka.

 

Þarf að hafa áhyggjur af afleiðingum bólusetninga?

Hvað á að gera ef barnið fær hita?

Fái barnið hita ráðleggja læknar og hjúkrunarfræðingar venjulega að því sé gefinn barnaskammtur af paracetamóli til að lækka hitann. Það er svo endurtekið 4-6 klukkustundum síðar gerist þess þörf. Ef hitinn varir lengur en í sólarhring eða honum fylgja önnur einkenni er rétt að ráðfæra sig við lækni.

Hvað um stungustaðinn?
Stundum kemur roði eða bólga á stungustað. Þetta er eðlilegt og öll ummerki hverfa af sjálfu sér. Hafir þú áhyggjur af þessu skalt þú ræða það við hjúkrunarfræðing eða lækni á heilsugæslustöð.

Hvenær á að leita læknis?
Hafir þú einhverjar áhyggjur skalt þú hafa samband við hjúkrunarfræðing eða lækni. Ef barnið fær háan hita, grætur óeðlilega eða fær krampa skalt þú hafa samband við lækni eins fljótt og auðið er.

Öryggi og hliðarverkanir bólusetninga

Bóluefni gegn kikhósta, barnaveiki, stífkrampa, Haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu (gefið við 3, 5 og 12 mán. aldur)
Aukaverkanir af þessum bóluefnum eru yfirleitt vægar og hverfa innan tveggja til þriggja daga. Vægur hiti, pirringur og almenn vanlíðan geta komið eftir 4-6 tíma. Þessar aukaverkanir hverfa venjulega á fyrsta sólarhring eftir bólusetningu. Bólga og roði geta komið á stungustað og barnið getur haft viss óþægindi í stuttan tíma. Þá getur komið þrymill á stungustað sem hverfur smám saman.

Bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum í einni sprautu (gefið við 18 mán. og 12 ára aldur)

Aukaverkanir eru yfirleitt vægar. Hiti og útbrot geta komið 5 – 12 dögum eftir bólusetninguna í innan við 10% tilvika, en börnin verða yfirleitt ekki mikið veik. Staðbundinn roði, eymsli og þroti koma fyrir á stungustað í innan við 10% tilvika. Þessi einkenni ganga yfir á nokkrum dögum.

Bóluefni gegn barnaveiki, stífkrampa og kikhósta í einni sprautu (gefið við 5 ára aldur)
Aukaverkanir af þessum bóluefnum eru yfirleitt vægar. Vægur hiti, pirringur og almenn vanlíðan geta komið eftir 4-6 tíma en hverfa venjulega innan sólarhrings. Bólga og roði geta ko mið á stungustað og barnið getur haft viss óþægindi í stuttan tíma. Þrymill getur komið á stungustað sem hverfur smám saman.

 

Bóluefni gegn barnaveiki, stífkrampa og kikhósta fyrir eldri börn og fullorðna í einni sprautu (gefið við 14 ára aldur frá 1. janúar 2007)

Aukaverkanir eru yfirleitt vægar. Verkur, roði og bólga á stungustað geta gert vart við sig og stundum hitavella. Einstaka sinnum getur komið þrymill sem hverfur smám saman.

Bóluefni gegn mænusótt (gefið við 14 ára aldur í sprautu með barnaveiki, stífkrampa og kikhósta frá 1. janúar 2007)
Aukaverkanir eru fátíðar. Verkur, roði og þroti geta komið á stungustað allt að 48 klukkustundum frá bólusetningu og varað í einn til tvo daga.

Bóluefni gegn meningókokkum C (gefið við 6 og 8 mán. aldur)
Aukaverkanir eru vægar. Á stungustað getur komið verkur, roði og bólga og barnið getur fengið hita.

Alvarlegar aukaverkanir bólusetninga
Alvarlegar aukaverkanir af bólusetningum geta sést en eru mjög fátíðar. Búast má við alvarlegri aukaverkun hjá um það bil einu barni af hverri milljón bólusettra barna. Þannig má búast við alvarlegri aukaverkun af völdum bólusetninga hér á landi einu sinni á fimmtíu ára fresti. Hætta á alvarlegum afleiðingum sjúkdómanna sem bólusett er gegn er margfalt meiri en af bólusetningunum sjálfum.

Fyrirkomulag barnabólusetninga á Íslandi eftir 1. janúar 2007

Aldur: Bólusetning gegn:

3 mánaða

Kikhósta, barnaveiki, stífkrampa, Haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu.
5 mánaða Kikhósta, barnaveiki, stífkrampa, Haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu.
6 mánaða Meningókokkum C.
8 mánaða Meningókokkum C.
12 mánaða Kikhósta, barnaveiki, stífkrampa, Haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu.
18 mánaða Mislingum, hettusótt og rauðum hundum í einni sprautu.
5 ára Barnaveiki, stífkrampa og kikhósta í einni sprautu.
12 ára Mislingum, hettusótt og rauðum hundum í einni sprautu.
14 ára Barnaveiki, stífkrampa og kikhósta ásamt mænusótt í einni sprautu.

Birtist fyrst á vef Landlæknisembættisins