Bólusetning gegn Pneumókokkasýkingum

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leita tilboða í bóluefni vegna bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum árið 2011 meðal barna sem fæðast á því ári. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu í júní 2010 um að hefja skyldi slíka bólusetningu hér á landi. Áður hafði sóttvarnaráð mælt með að bólusetning gegn pneumókokkasýkingum yrði næsta almenna bólusetningin sem hafin yrði hér á landi og vísaði ráðið í því efni til viðamikilla erlendra kannana sem renna stoðum undir hagkvæmni slíkrar bólusetningar meðal ungbarna. Pneumókokkabólusetning hefur reynst kostnaðarhagkvæm, ekki hvað síst vegna víðtækra óbeinna áhrifa á óbólusetta einstaklinga. Til að varpa ljósi á kostnaðarhagkvæmni þessarar bólusetningar hjá börnum hefur kostnaður á hvert áunnið lífár verið metinn á 0,4 milljónir kr. Til samanburðar hefur kostnaður vegna bólusetningar gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini verið metinn á 2,6–10 milljónir kr. á hvert áunnið lífár, eftir því hvort tekið er tillit til afvöxtunar eða ekki.

Bóluefni gegn pneumókokkasýkingum

Sóttvarnalæknir hefur kannað þau bóluefni gegn pneumókokkasýkingum sem eru um þessar mundir á markaði á Íslandi með tilliti til væntanlegs útboðs. Þessi bóluefni eru Synflorix® og Prevenar 13®.

Synflorix er próteintengt bóluefni með mótefnavaka gegn 10 hjúpgerðum pneumókokka og að auki með mótefnavaka gegn óflokkanlegum H. influenzae sýklum sem eiga nokkurn þátt í eyrnabólgum og lungnabólgum.

Prevenar 13 er próteintengt bóluefni með mótefnavaka gegn 13 hjúpgerðum pneumókokka.

Þessa eiginleika bóluefnanna, ásamt verði þeirra samkvæmt undangengnu útboði, þarf að vega og meta þegar ákvörðun verður tekin um hvaða bóluefni skal nota hér á landi í almennu ungbarnabólusetningunni.

Afleiðingar pneumókokkasýkinga

Pneumókokkar geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sýkingum hjá börnum og fullorðnum, einkum ungum börnum og eldri einstaklingum. Tíðni alvarlegra pneumókokkasýkinga hér á landi virðist vera hærri en í mörgum nálægum löndum en svipuð og í Bandaríkjunum.

Reynslan hefur sýnt að bólusetningin fækkar verulega pneumókokkasýkingum hjá bólusettum einstaklingum. Vegna svokallaðra hjarðáhrifa fækkar sýkingunum einnig hjá þeim sem ekki eru bólusettir. Það dregur þó úr heildarárangri bólusetningarinnar að samhliða henni hefur orðið vart aukningar á sýkingum af völdum annarra hjúpgerða sem ekki eru í bóluefninu. Bólusetningin hefur reynst örugg til jafns við önnur bóluefni sem notuð eru.

Áhrif bólusetninga

Mikilvægt er að meta áhrif pneumókokkabóluefna á eftirfarandi sjúkdóma:

− Ífarandi sýkingar af völdum pneumókokka

− Miðeyrnabólgur

− Lungnabólgur

− Sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra pneumókokka og útbreiðslu þeirra.

Áhrif á notkun sýklalyfja þarf einnig að meta.

Faraldsfræði þessara sjúkdóma og hlutur pneumókokka og H. influenzae í þeim er ekki að fullu þekktur hér á landi, en tilgangur bólusetningarinnar er einmitt að koma í veg fyrir sýkingar af völdum þessara baktería. Því er annars vegar stuðst við erlendar upplýsingar og hins vegar við áætlanir um ýmsa þætti sem nauðsynlegir eru til að spá fyrir um áhrif bólusetningarinnar.

Áætluð áhrif pneumókokkabólusetningar hér á landi eftir að almenn bólusetning hefst hjá börnum við 3, 5 og 12 mánaða aldur eru eftirfarandi:

1. Alvarlegum pneumókokkasýkingum (ífarandi sýkingum) mun fækka um allt að 91% (10 af 11) hjá börnum yngri en 5 ára á hverju ári og allt að 37% (14 af 38) hjá eldri óbólusettum aldurshópum vegna óbeinna áhrifa bólusetningarinnar.

2. Komið verður í veg fyrir allt að 36% dauðsfalla (2 af 5,7) árlega af völdum pneumókokka hjá öllum aldurshópum (bólusettum og óbólusettum) og þar af 95% (0,38 af 0,4) dauðsfalla hjá börnum yngri en 5 ára.

3. Bráðum miðeyrnabólgum hjá börnum yngri en 2 ára mun fækka árlega um allt að 24% (2.100 af 9.000), þrálátum miðeyrnabólgum um allt að 24% (220 af 900) og röraísetningum um allt að 31% (200 af 640).

4. Lungnabólgu hjá börnum yngri en 2 ára mun fækka um allt að 37% (250 af 400) árlega.

5. Sýklalyfjanotkun hjá börnum yngri en 2 ára mun dragast saman um allt að 23% árlega, sem er sparnaður um rúmar 7 milljónir króna (með vsk.) miðað við smásöluverð lyfja í apríl 2010 og notkun á árinu 2009.

6. Áhrif á útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka eru vandmetin en væntanlega mun draga úr útbreiðslunni, ekki hvað síst vegna minni sýklalyfjanotkunar.

7. Áhrif þeirra tveggja bóluefna sem eru á markaði hér á landi eru nokkuð mismunandi vegna mismunandi samsetningar bóluefnanna. Annað þeirra nær til 13 hjúpgerða pneumókokka og kann því að hafa hagstæðari áhrif á pneumókokkasýkingar en hitt, sem aðeins nær til 10 hjúpgerða. Á móti kemur a&e th; bóluefnið sem inniheldur færri hjúpgerðir pneumókokkagæti haft meiri áhrif á sýkingar þar sem H. influenzae kemur við sögu (t.d. á eyrnabólgur) og hefði því meiri áhrif í þá átt að draga úr almennri sýklalyfjanotkun.

Grein þessi er fengin úr Farsóttarfréttum landlæknisembættisins, 6. árg. 3. tölublað. Ágúst 2010