Bólusetning gegn meningókokkum C á Íslandi.

Í október 2002 hófst á Íslandi bólusetningarátak gegn meningókokkum C hjá börnum og unglingum. Í þessu átaki er fyrirhugað að bólusetja öll börn á landinu sem eru á aldrinum 6 mánaða til og með 18 ára innan árs. Áframhaldandi bólusetning verður við 6 og 8 mánaða aldur sem hluti af ungbarnabólusetningum.

Hvers vegna er verið að bólusetja gegn meningókokkum C ?

Meningókokkar eru bakteríur sem geta valdið mjög skæðum sjúkdómi.Tvær undirtegundir bakteríunnar hafa verið algengastar hér á landi á undanförnum árum og nefnast þær C og B. Þar sem bólusetningin er einungis gegn tegund C má búast við áframhaldandi sýkingum hér á landi af völdum B en ekkert bóluefni er enn sem komið er til gegn þeirri tegund.

Hér á landi greinast árlega um 20 tilfelli með alvarlega sýkingu af völdum meningókokka. Á árinu 2001 voru um 70% þeirra (13 tilfelli) af völdum C en í ár (2002) hafa öll tilfellin verið af völdum C. Sýkingarnar eru algengastar hjá börnum fimm ára og yngri og hjá unglingum 10 til og með 18 ára. Þær greinist þó einnig af og til hjá eldri einstaklingum.

Faraldrar meningókokka hafa geisað hér á landi á um 15 ára fresti á undanförnum áratugum. Síðasti faraldur geisaði hér á árunum 1975-1977 og greindust þá tæplega 200 tilfelli á þremur árum.

Sýkingar af völdum meningókokka eru einkum heilahimnubólga og blóðsýking sem ollu dauða hjá 10% þeirra sem sýktust, og heilaskaða og útlimamissi hjá öðrum 10-20%. Á undanförnum árum hefur að meðaltali einn einstaklingur dáið á hverju ári af völdum meningókokka C.

Á Íslandi eru meningókokkasýkingar þrisvar til sex sinnum algengari en í flestum nálægum löndum en orsakir þess eru óþekktar.

Vegna þess hversu alvarlegar meningókokkasýkingar eru og tiltölulega algengar hér á landi þá hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu eftir virku og öruggu bóluefni svo koma megi í veg fyrir þær. Árið 1999 kom á markað virkt og öruggt bóluefni gegn meningókokkum C en beðið er eftir virkum bóluefnum gegn öðrum undirtegundum bakteríunnar þ.á.m. B.

Hver er reynslan af þessu nýja bóluefni gegn meningókokkum C ?

Bretar hófu almenna bólusetningu á börnum og unglingum í nóvember 1999. Síðan þá hafa rúmlega 20 milljónir barna og unglinga verið bólusettir með frábærum árangri. Tilfellum með meningókokka C sýkingu hefur fækkað um 90% í Bretlandi og bólusetningin því bjargað lífi og heilsu hundraðra barna þar í landi. Almenn bólusetning gegn meningókokkum C hófst einnig í Hollandi sumarið 2002 og fleiri þjóðir eru að undirbúa notkun þess.

Hverjar eru aukaverkanir bóluefnisins?

Bretar hafa fylgst vel með öllum hugsanlegum aukaverkunum bóluefnisins hjá ofangreindum 20 milljónum einstaklinga sem bólusettir voru. Bóluefnið getur eins og önnur bóluefni hjá ungbörnum valdið roða og þrota á stungustað og almennum hita. Hins vegar hafa ekki sést neinar alvarlegar aukaverkanir sem rekja má til bólusetningarinnar. Þar sem bóluefnið inniheldur ekki lifandi sýkla þá veldur það ekki sýkingum.

Hvaða árangri má búast við hér á landi af bólusetningunni?

Með því að bólusetja alla á aldrinum 6 mánaða til og með 18 ára hér á landi á næstu mánuðum má búast við að á næstu 10 árum megi koma í veg fyrir sýkingu hjá 100-150 börnum og unglingum, dauða hjá 10-15 og alvarleg örkuml hjá 20-30. Auk þess má búast við að sýkingum af völdum meningókokka C muni fækka hjá eldri einstaklingum sem ekki verða bólusettir.

Áframhaldandi bólusetning ungbarna mun væntanlega leiða til þess að sjúkdómur af völdum meningókokka C hverfi hér á landi á næstu árum.

Hversu lengi mun verndin af bólusetningunni endast?

Þetta er ekki vitað fullkomlega þar sem bóluefnið hefur ekki verið í notkun nema nokkur ár. Hins vegar benda rannsóknir og reynsla af öðrum bóluefnum til að verndin muni endast alla ævi.

Þurfa foreldrar að gefa formlegt samþykki fyrir bólusetningu barna sinna?

Þar sem að ákveðið hefur verið að bólusetningin verði hluti af ungbarnabólusetningu hér á landi og ekki er um rannsókn að ræða þá þarf ekki að að leita eftir sérstöku samþykki áður en börn verða bólusett. Foreldrar geta hins vegar neitað bólusetningunni og þurfa að tilkynna það sérstaklega til sinnar heilsugæslustöðvar.

Þurfa foreldrar að borga fyrir bólusetningu barna sinna?

Bólusetning barna og unglinga til og með 18 ára verður foreldrum að kostnaðarlausu. Vilji eldri einstaklingar láta bólusetja sig þurfa þeir að borga. Bóluefnið má fá í lyfjabúðum gegn lyfseðli eða á heilsugæslustöðvum.

Hvar verður bólusett og hverjir bólusetja?

Framkvæmd bólusetningarátaksins er í höndum heilsugæslunnar í landinu og Miðstöðvar heilsuverndar barna í Reykjavík. Þar verður kynnt nákvæmlega hvernig bólusett verður og börnin kölluð til bólusetningar. Búast má við börn verði einnig bólusett í grunn- og framhaldsskólum. Þar sem að taka mun nokkra mánuði að bólusetja alla á Íslandi sem erum á aldrinum 6 mánaða til og me&e th; 18 ára þá verða sum börn ekki bólusett fyrr en á árinu 2003.

Hvaða börn má ekki bólusetja?

Frábendingar við bólusetningunni eru mjög fáar. Bíða ætti með að bólusetja börn sem eru veik og með hita yfir 38°C, börn með blæðingarsjúkdóma, börn sem fengið hafa alvarleg viðbrögð við bólusetningum og óléttar stúlkur. Börn með kvef og hósta en að öðru leiti frísk, börn sem eru að taka sýklalyf, börn með ofnæmi og börn sem fengið hafa meningókokkasjúkdóm má bólusetja.

Samantekt.

Allir heilbrigðisstéttir vita hversu skelfilegur meningókokkasjúkdómur er. Það er því sérstakt fagnaðarefni að komið er á markað virkt og öruggt bóluefni gegn meningókokkum C og þakkarvert að heilbrigðisyfirvöld hafi beitt sér fyrir því bólusetningarátaki sem nú er að hefjast.

Á næstu árum koma vonandi á markað bóluefni gegn öðrum undirtegundum meningókokka þ.á.m. B og verður þá vonandi hægt að koma veg fyrir allan meningókokkasjúkdóm hér á landi.

Ég hvet alla foreldra til að standa vörð um heilsu barna sinna með því að láta bólusetja þau gegn meningókokkum C. Einnig er mikilvægt að íslenskir foreldrar haldi áfram þátttöku í öðrum ungbarnabólusetningum sem tryggt hefur börnum góða heilsu hér á landi.

20-10-2002.
Þórólfur Guðnason yfirlæknir
sóttvarnasviði
Landlæknisembættisins

Höfundur er einnig barnalæknir og
Sérfræðingur í smitsjúkdómum barna