Bólusetning gegn meningókokkum C

Þann 15. október n.k. fer af stað bólusetningarátak gegn meningókokkum C hér á landi. Börn og unglingar á aldrinum 6 mánaða til og með 18 ára verða bólusett gegn þessari skæðu bakteríu, en sá hópur telur um 80 þúsund einstaklinga. Búast má við að það taki nokkra mánuði að bólusetja allan þennan hóp og er áætlað að átakinu ljúki innan eins árs.

Börn á aldrinum 6 mánaða til og með 11 mánaða munu fá tvær sprautur með 1–2 mán. millibili en eldri börn og unglingar fá eina sprautu. Framkvæmd átaksins er í höndum heilsugæslunnar í landinu. Ungbarnabólusetning gegn meningókokkum C hefst einnig 15. október og verður framvegis við 6 og 8 mánaða aldur (tvær sprautur).

Af hverju er verið að bólusetja gegn meningókokkum C?
Meningókokkar er flokkur baktería sem getur valdið skæðum sjúkdómi, aðallega hjá börnum og unglingum. Tvær undirtegundir meningókokka hafa valdið sjúkdómi hér á landi á undanförnum árum. Þær eru tegund C, sem bólusetja á gegn, og tegund B, en ekkert bóluefni er til gegn þeirri tegund.

Undanfarin ár hafa greinst hér á landi um 20 tilfelli á hverju ári með alvarlega sýkingu af völdum meningókokka, aðallega B og C. Á árinu 2001 greindust alls 19 tilfelli og þar af voru 15 með tegund C. Meningókokkasýkingar geta verið mjög alvarlegar þar sem bakterían fer oftast í blóðið og getur valdið alvarlegri heilahimnubólgu. Um 10% þeirra sem fá slíka sýkingu deyja og annars eins hópur fær alvarleg örkuml, einkum truflun á heilastarfsemi, og getur misst útlim. Undanfarin ár hafa um 1–2 einstaklingar látist árlega af völdum meningókokka C, aðallega börn og unglingar.

Þrátt fyrir miklar framfarir í læknisfræði á undanförnum árum hefur ekki tekist að lækka dánartíðni sýkingarinnar eða koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hennar. Því er afar mikilvægt að koma í veg fyrir hana með bólusetningu. Á markað eru nú komin mjög virk og örugg bóluefni gegn meningókokkum C. Bretar hófu bólusetningu gegn meningókokkum C í nóvember 1999. Sú bólusetning hefur fækkað meningókokka C sýkingum um 90% þar í landi.

Með ofangreindu bólusetningarátaki á Íslandi má búast við að koma megi í veg fyrir um 100–150 tilfelli sýkinga af völdum meningókokka C á næstu 10 árum og um 10–15 dauðsföll. Áframhaldandi ungbarnabólusetning mun væntanlega útrýma öllum meningókokka C sýkingum hér á landi. Á næstu árum kemur vonandi einnig á markað virkt og öruggt bóluefni gegn meningókokkum B þannig að hægt verði að útrýma öllum meningókkasjúkdómi hér á landi.

Þórólfur Guðnason yfirlæknir bólusetningaverkefnis

Frá Landlæknisembættinu