Bókstafakunnátta leikskólabarna

Áhugi hefur stöðugt aukist á síðustu árum á að skoða bókstafakunnáttu barna á leikskólaaldri. Sá áhugi hefur leitt af sér enn frekari rannsóknir á þessu sviði. Í þessum rannsóknum hefur m.a. komið fram að börn sem þekkja stafina í stafrófinu eru betur undirbúin fyrir fyrstu ár skólagöngunnar og þar af leiðandi verður áhugi þeirra á náminu meiri (Adams, 1994). Fyrstu ár skólagöngunnar skiptir það barnið miklu máli að ná góðum tökum á lestri, þekkja stafina og hafa áhuga á náminu. Helsta áhersla á fyrstu árum skólagöngu er að kenna börnum að þekkja stafina og að lesa. Læsi í fyrsta, öðrum og jafnvel þriðja bekk leiðir til þess að börnin eiga auðveldara með að vinna verkefni sín, þau geta lesið sjálf leiðbeiningar í vinnubókum og því eru þau frekar laus við að vera háð öðrum um hjálp við heimanámið. Börn sem eru vel læs þurfa einnig að eyða minni tíma í að æfa sig í lestri og þau eru fljótari að lesa þann texta sem settur er fyrir í heimanámi. Því hlýtur að skipta miklu máli að kunna stafina og hafa öðlast færni í lestri í fyrstu bekkjum grunnskóla.

Chall sagði árið 1967 að þekking barna á bókstöfum á leikskólaaldri væri góð forspá fyrir síðari lestrargetu, jafnvel enn betri forspá en greindaraldur. Seinna sama ár byggðu Bond og Dykstra á rannsókn Challs og sögðu að stafaþekking væri besta forspáin fyrir lestrargetu á fyrsta ári (Adams, 1994).

Muter (sjá í Hulme & Snowling, 1994) sagði að þekking á heitum stafa og hljóðkerfisvitund spái vel fyrir um lestrarferli í upphafi lestrarnáms. Hljóðkerfisvitund vísar til þekkingar barnanna á hljóðum innan orðs; að þau viti að hægt sé að brjóta orð niður í smærri einingar hljóða.

Af þessu má draga þá ályktun að ef vitað væri hvort stafaþekking barna á leikskólaaldri væri mikil eða lítil ætti að vera hægt að spá fyrir um hvort lestrarfærni þeirra í byrjun grunnskólanáms yrði góð eða slök.

Sú spurning hlýtur að vakna hvar börnin læra stafina. Eru það afar og ömmur, foreldrar eða leikskólar sem kenna börnum fyrstu stafina? Eða læra börnin þá öðruvísi? Nú á dögum eru stafir allt í kringum okkur í hinu daglega lífi og því er ekki mögulegt fyrir börn í samfélagi nútímans að komast hjá því að sjá prentað mál í einhverjum mæli á hverjum degi. Bílnúmer innihalda stafi, stafir eru í bókum, texti er með mörgum þáttum og myndum í sjónvarpinu, matarumbúðir eru merktar (Nýmjólk, Cheerios o.s.frv.). Því hefur oft verið rætt um að börn læri ekki að lesa þau orð, heldur læri þau að þekkja orðin. Þau vita smám saman að á mjólkurfernunni stendur „nýmjólk“ og að bíllinn hans pabba er númer „MD 362“.

En þetta er ekki nóg. Þó að börnin læri hvað stendur á skiltum í kringum þau er forsenda lesturs alltaf stafaþekking. Stafina læra þau ekki af sjálfu sér og því hlýtur sú vitneskja að koma kerfisbundið frá einhverjum þeim eldri, eins og sagt var áður.

Flest börn á aldrinum tveggja til sex ára eru í leikskóla hluta úr degi eða allan daginn. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort leikskólar eigi að kenna börnum stafina og ef þeir kenna þeim stafina, hvort það skipti einhverju máli fyrir börnin seinna meir.

Könnunin

Lagt var upp með þessa spurningu þegar lagt var í litla könnun til að athuga hvort einhver munur væri á stafaþekkingu barna í tveimur leikskólum á höfuðborgar-svæðinu. Annar leikskólinn (köllum hann leikskóla A) leggur ekki áherslu á að kenna börnum stafina, en hinn leikskólinn (leikskóli B) leitast við að kynna fyrir börnum stafina og prentað mál. Það má þó ekki segja að formleg stafakennsla fari þar fram, heldur eingöngu kynning, að þau viti hvernig orð og prentað mál líti út og að þau heyri úr hvaða hljóðum orð eru samansett. Það síðastnefnda vísar því til þeirrar hljóðkerfisvitundar sem Muter talaði um (sjá framar). Stafakynningin felst meðal annars í því að nöfn barnanna eru gerð sýnileg innan leikskólans. Öll börnin eiga spjöld með nöfnum sínum á og eru þau spjöld meðal annars notuð til að hengja upp fyrir framan deildina hver er þjónn þann daginn. Einnig er börnunum kennt að skipta orðum niður í atkvæði, þau eru látin klappa nöfn sín og önnur orð í takt við atkvæðin. Þannig fá þau frekar tilfinningu fyrir þeim hljóðum sem eru í orðum.

Þátttakendur voru 37 leikskólabörn, 19 fædd árið 1996 og 18 fædd árið 1997 (3ja til 5 ára). Meðalaldur var 51 mánuður (rúmlega fjögur ár). Tuttugu börn komu úr leikskóla A en 17 úr leikskóla B. Kynjaskipting var 17 drengir og 20 stúlkur.

Einnig var ætlunin með könnuninni að athuga hvort einhver munur væri á stafaþekkingu eftir kyni og aldri.

Notast var við 24 stafi úr íslenska stafrófinu. Sleppt var stöfum sem íslensk nöfn byrja ekki á (X, Ð, W, Q, Z, C), auk þess sem ekki voru gerðir sérstaklega stafir með kommu yfir (Á, É, Í, Ó og Ú), heldur var gerð sérútbúin komma sem mátti skeyta ofan á stafina ef börnin hétu nafni sem byrjaði á broddstöfum. Stafirnir voru skrifaðir með hástöfum á miða, 10×10 cm á stærð. Miðarnir voru í fj&oa cute;rum mismunandi litum, gulir, rauðir, grænir og bláir og voru sex stafir í hverjum lit (6×4=24).

Fengið var leyfi hjá Leikskólum Reykjavíkurborgar og leikskólastjórum leikskólanna tveggja. Einnig voru hengdir upp listar á eldri deildum leikskólanna þar sem foreldrar gátu lesið sér til um könnunina og neitað þátttöku ef þeir vildu ekki að barn þeirra tæki þátt í henni. Ekkert foreldri nýtti sér þann rétt.

Verkefnið var lagt var fyrir börnin eitt í einu, spurt hvort þau þekktu einhverja af stöfunum og hvort þau vissu hvað þeir hétu. Í stuttu máli sagt þá höfðu flest börnin mjög gaman af þessu, en nokkuð augljóst var að þau börn sem kunnu nokkra stafi voru mun áhugasamari en þau börn sem kunnu fáa eða enga stafi. Einnig var oft um það að ræða að börnin þekktu stafina og vissu hver átti þá, t.d. „mamma á þennan staf (benti á G), hún heitir Guðrún“, án þess að þau vissu hvað þeir hétu.

Niðurstöður

Niðurstöður voru ekki í fullu samræmi við það sem búist hafði verið við. Ekki kom fram marktækur munur á meðaltölum barnanna eftir leikskólum. Meðalstafakunnátta í leikskóla A var 7,35 stafir af 24, en á leikskóla B (þar sem börnum höfðu verið kynntir stafirnir) var meðalkunnáttan 6,71 stafur af 24.

Munur var á meðaltölum barnanna eftir kynjum en sá munur var ekki marktækur. Meðalstafakunnátta drengja var 8,88 stafir af 24, en meðalkunnátta stúlkna var 5,55 stafir af 24.

Marktækur munur kom fram á meðaltölum barnanna eftir aldri. Reiknað var eftir flokkuðum aldri, þar sem skoðuð voru meðaltöl fæðingaráranna 1996 og 1997. Meðalstafakunnátta barna fæddra á árinu 1997 var 4,78 stafir en barna fæddra 1996 var 9,26 stafir (F (1,35) = 4,208, p<0,05).

Munur kom fram á stúlkum og drengjum, þó hann væri ekki marktækur. Drengirnir kunnu fleiri stafi en stúlkurnar. Það voru aðallega fjórir drengir sem drógu meðaltal þeirra upp, því einn þeirra kunni alla stafina (24) og hinir þrír kunnu 19, 21 og 22 stafi. Engin stúlka reyndist kunni svo marga stafi, sú sem kunni flesta vissi heitin á 15 stöfum.

Munur kom einnig fram á aldri. Eldri börnin kunnu fleiri stafi. Hér virðist um augljósa staðreynd að ræða; eldri börnin eru búin að vera lengur að læra stafina og hafa meira vald yfir tungumálinu og þekkja hljóðin í málinu betur. Þetta er því rökrétt þróun að börnin læra meira eftir því sem þau eldast, æfingin skapar meistarann.

Enginn marktækur munur kom fram á leikskólunum. Í leikskóla B eru stafirnir kynntir fyrir börnunum og þau læra þá á þann hátt. Í leikskóla A eru börnin ekki kynnt fyrir stöfunum og því hlýtur að fara fram annars konar stafanám hjá þeim. Til þess geta verið ýmsar leiðir. Gera má ráð fyrir að foreldrar barnanna kenni þeim stafina, eða afar og ömmur. Kennslan heima getur því verið vegna þess að engin kennsla er í leikskólanum. Á leikskóla B getur það hins vegar verið svo að vegna þess að börnunum eru kenndir stafirnir í leikskólanum, leggi foreldrar minni áherslu á að kenna börnunum stafina þegar heim er komið. Þetta eru þó eingöngu getgátur, erfitt er að segja nákvæmlega fyrir um ástæðuna. Hér er því komin góð hugmynd að viðameiri rannsókn.

Munurinn á drengjum og stúlkum var lítill og væntanlega er hægt að fá hann marktækan með stærra úrtaki. Helsti galli þessarar rannsóknar er hve fáir þátttakendur voru í henni. Stærra úrtak endurspeglar frekar þýðið sjálft og gefur raunhæfari mynd á hvort einhver munur sé raunverulega til staðar. Það gefur grunn að frekari rannsóknir á þessu sviði.

Adams (1994) ræðir meðal annars um kosti þess að þekkja stafina þegar komið er í skóla. Hún nefnir að hjá þeim börnum sem kunna stafina muni kennsla á fyrsta skólaári aðallega endurspegla upprifjun á fyrri lærdómi. Markmið námsins mun því verða augljósara fyrir þau og áhugahvötin meiri. Fyrir þau börn sem hafa ekki lært stafina áður mun námið verða mun erfiðara og áhugahvöt þeirra verður því minni. Þau geta því byrjað í skóla með það vegarnesti að nám sé erfitt og nokkuð sem þarf að hafa mikið fyrir. Adams fjallar því um kosti þess að kenna stafina hægt og rólega, halda þeim að börnunum og leyfa börnunum sjálfum að ráða ferðinni. Sum börn hafa mikinn áhuga á stöfum að fyrra bragði og þeim mun stafalærdómur og lestur verða auðveldur. Önnur börn hafa ekki mikinn áhuga á stöfunum og ef þau eru látin læra þá án áhugahvatar getur það valdið því að þau hreinlega snúist gegn námi. Fara þarf því rólega í alla kennslu, en eins og áður segir er betra fyrir börnin að þau þekki stafina að einhverju leyti áður en þau byrja í skóla. Hér er því spurning um hinn gullna meðalveg, að kynna stafina fyrir börnum án þess að pína þau til náms.

Sífellt er að verða nauðsynlegra í þjóðfélagi okkar að lesa mikið og skrifa, enda fara mikil samskipti fram á rituðu máli. Það hefur löngum verið vitað að börn sem standa sig illa í lestri eiga erfitt um vik með allt annað nám. Þetta er því mikilvægt svið til að skoða. Áhugavert væri að gera eftirfylgdarrannsókn seinna á börnunum sem tóku þátt í þessari rannsókn og sjá hvernig þau standa sig í lestri í skóla. Einnig mætti hugsa sér langtímarannsókn þar sem byrja&et h; væri að fylgjast með börnum í leikskóla og haldið væri áfram fram á grunnskólaár. Einnig hefði verið gaman að gera þessa rannsókn stærri og umfangsmeiri með fleiri leikskólum og jafnvel með leikskólum sem setja börnin í formlega stafakennslu, en með stærri rannsókn má draga ákveðnari og víðtækari ályktanir. Við vonum þó að þessi rannsókn geti vakið upp umræðu um stafakennslu leikskólabarna eða gefið grunn að fleiri rannsóknum á þessu sviði.

Heimildir

Adams, M. J. (1994). Beginning to Read: Thinking and Learning about Print. London: The MIT Press.

Hulme, C., og Snowling, M. (Ritstj.), (1994). Reading Development and Dyslexia. London: Whurr Publishers Ltd.

Birt með góðfúslegu leyfi Félags íslenskra sérkennara.
Greinin birtist í tímiriti þeirra, Glæður, vefur félagsins.