Blóðþrýstingslyf

Blóðþrýstingslyf

Hár blóðþrýstingur getur haft margvísleg skaðvænleg áhrif á hjarta og æðakerfi og leitt til alvarlegra sjúkdóma ef hann er lengi mjög hár. Háþrýstingur er einn af helstu áhættuþáttum æðakölkunar og slagæðaþrengsla. Hann hefur skaðvænleg áhrif á litlar slagæðar í líkamanum, t.d. í nýrum, augum og heila, og getur valdið nýrnabilun og stuðlað að heilablæðingum. Loks getur álag á hjartavöðvann, sem dæla þarf á móti hárri mótstöðu árum saman, orðið til þess að hjartavöðvinn þykknar og hjartahólfin stækka. Sú þróun getur á endanum leitt til hjartabilunar.

Hvenær er blóðþrýstingur of hár og hvenær er ástæða til að hefja lyfjameðferð? Skilgreining á háþrýstingi hefur verið nokkuð á reiki og mörk „eðlilegs blóðþrýstings hafa færst nokkuð niður á síðustu árum. Er nú oft miðað við 140 mm Hg í slagbili og 90 mm Hg í hlébili sem efri mörk eðlilegs blóðþrýstings. Ekki er þar með sagt að meðhöndla beri alla með lyfjum sem mælast ofan þessara marka. Í fyrsta lagi ber að mæla blóðþrýsting nokkrum sinnum með nokkurra vikna millibili til að staðfesta að um varanlega hækkun sé að ræða en ekki tímabundna uppsveiflu. Í öðru lagi ber að taka tillit til aldurs og fleiri aðstæðna þegar niðurstöður blóðþrýstingsmælinga eru metnar. Loks ber ætíð að freista þess að lækka blóðþrýsting án lyfjameðferðar fyrst, nema blóðþrýstingurinn sé þeim mun hærri og beinlínis lífshættulegur.

Grundvallaratriðin í lækkun blóðþrýstings án lyfja eru: Megrun, hófsemi í saltneyslu, hófsemi í áfengisneyslu, reglubundin og ríkuleg hreyfing og slökun.

Lyf: Á markaðnum er nú mikill fjöldi lyfja sem notuð eru til meðferðar á háþrýstingi. Þeim má í stórum dráttum skipta í þrjá flokka: þvagræsilyf, betablokkara og æðavíkkandi lyf.

Þvagræsilyf

Þótt mismunandi þvagræsilyf verki með mismunandi hætti á nýrun hafa þau öll í för með sér aukinn útskilnað á salti og vatni úr líkamanum, þ.e.a.s. aukna þvagmyndun. Vökvarúmmál líkamans minnkar og þar með blóðrúmmál og það magn blóðs sem hjartað dælir á hverri tímaeiningu. Við það lækkar blóðþrýstingurinn en eftir nokkurra vikna meðferð leita vökvarúmmál líkamans og blóðrúmmál í fyrra horf en af óþekktri ástæðu hefur viðnám í slagæðablóðrásinni þá venjulega lækkað þannig að blóðþrýstingslækkunin helst, oft í kringum 10 mm Hg.

Algeng aukaverkun þvagræsilyfja er lækkað kalíum í blóði, en útskilnaður kalíums eykst oft samfara auknum útskilnaði salts og vatns. Ýmis úrræði eru tiltæk til að mæta þessu vandamáli. Ráðlegt er að nota eins litla skammta þvagræsilyfja og komist verður af með og auka neyslu kalíumríkra matvæla, t.d. appelsína og banana. Oft er gefið viðbótarkalíum sem lyf, t.d. Kaleorid eða Kalinorm. Loks eru til þvagræsilyf sem draga úr kalíumútskilnaði, t.d. spironolacton (Aldactone, Spirix) og amiloríð (Midamor). Algengt er að nota blöndu slíkra lyfja og annarra þvagræsilyfja. Dæmi um slík blönduð lyf á íslenskum markaði eru Moduretic og Hýdramíl. Ýmsar aðrar aukaverkanir af völdum þvagræsilyfja eru þekktar á efnaskiptabúskap líkamans, oftast þó vægar. Má nefna hækkaða blóðfitu, skert sykurþol, aukna þvagsýru í blóði og lækkað magnesíum. Oft er unnt að komast hjá þessum aukaverkunum með því að nota mjög litla skammta af þvagræsilyfjum.

Betablokkarar Blóðþrýstingslyf

Fjallað er um betablokkara í kafla um hjartaöng. Þótt lyf úr þessum flokki séu gífurlega mikið notuð við háum blóðþrýstingi fer því fjarri að fyrir liggi tæmandi skilningur á því hvernig lyfin lækka blóðþrýsting. Sennilega eru áhrifin margþætt: Renínmyndun í nýrum og losun boðefna úr taugaendum minnka og stjórnstöð sjálfráða taugakerfisins er hamin. Talið er að blóðþrýstingslækkun u.þ.b. helmings sjúklinga með háþrýsting sé nægileg eftir meðferð með betablokkandi lyfi einu sér. Einkum verka lyf úr þessum flokki vel á yngra fólk en öllu lakar á eldra fólk.

Fróðleikur um lyf við hjartaöng

Æðavíkkandi lyf

Æðavíkkun slagæðamegin í blóðrásinni minnkar viðnám og lækkar þrýsting. Oft er þar með ráðist að rótum vandans, því að hjá sjúklingum með háþrýsting er viðnám í slagæðum óeðlilega hátt.

Mikilvægustu undirflokkar hinna æðav&ia cute;kkandi lyfja eru kalsíumblokkarar, ACE-blokkarar og angiotensín II blokkarar. Kalsíumblokkurum eru gerð skil í kaflanum um lyf við hjartaöng.

ACE-blokkarar

Skammstöfunin ACE er ensk og stendur fyrir „angiotensin converting enzyme", eða hvarfhvati angiotensíns. Hlutverk hvatans er að breyta angiotensin I, sem er óvirkt efni, í angiotensin II, sem dregur saman æðar og eykur aldósterónmyndun í nýrnahettum. Aldósterón verkar á nýrun og hvetur þau til að draga úr útskilnaði salts og vatns. Angiotensín II hækkar þannig blóðþrýsting með tvennum hætti og því hefur reynst árangursríkt að nota ACE-blokkarana, sem draga úr myndun þess, til að lækka blóðþrýsting. Aukaverkanir eru fremur fágætar. Við fyrsta skammt getur orðið skyndilegt blóðþrýstingsfall með svima og jafnvel yfirliði. Ertingarhósti er nokkuð algengur en aðrar aukaverkanir mjög sjaldgæfar.

Þessi lyfjaflokkur er orðinn rótgróinn og eru allmörg slík lyf þegar á markaði hér á landi og fer fjölgandi: Kaptopríl (Capoten, Katópríl), enalapríl (Renitec, Daren, Enapríl), lisinopríl (Vivatec), benazepríl (Cibacen), perindopríl (Coversyl) og cilazapríl (Inhibace).

Angiotensín II-blokkarar

Nýjasti flokkur blóðþrýstingslyfja sem eins og nafnið gefur til kynna hindrar angiotensín II í að bindast viðtökum sínum. Blóðþrýsingshækkandi áhrifum angiotensín II er þannig bægt frá og fæst gjarna hægfara en örugg blóðþrýstingslækkun. Aukaverkanatíðni er jafnvel enn lægri en af ACE-blokkurum. Ekki er komin löng reynsla af þessum lyfjaflokki en viðamiklar rannsóknir eru stundaðar til að kanna notagildi þeirra bæði gegn háþrýstingi og hjartabilun. Á íslenskum lyfjamarkaði eru þrír angiotensín II-blokkarar þegar þetta er ritað; losartan (Cozaar), valsartan (Diovane) og candesartan (Atacand).

Önnur æðavíkkandi lyf

Gamalgróið lyf við háþrýstingi, sem enn er talsvert notað er hýdralasín (Apresolin). Það verkar beint á æðavegginn, veldur æðavíkkun og þar með minnkuðu viðnámi í slagæðablóðrásinni og blóðþrýstingslækkun. Það er oft notadrjúgt með öðrum lyfjum í meðferð svæsins háþrýstings en hefur þann ókost eitt sér að valda hröðum hjartslætti og vökvasöfnun í líkamanum.

Alfablokkarar eru hliðstæða betablokkara að því leyti að þeir hindra bindingu aðrenalíns og noraðrenalíns við viðtaka, alfaviðtaka eins og nafnið gefur til kynna. Örvun alfaviðtaka veldur samdrætti æða og blokkun þeirra æðavíkkun. Helsti fulltrúi þessa lyfjaflokks er prazosín sem hér er á markaði undir sérlyfjaheitinu Peripress.

Þessi mikli fjöldi lyfja sem nota má til að lækka blóðþrýsting skapar bæði völ og kvöl. Tækifæri skapast til að taka tillit til fjölmargra sjónarmiða þegar lyf er valið. Lyfin eru misdýr. Þau verka misvel á mismunandi aldurshópa, jafnvel kynþætti. Þau verka misvel saman, valda mismunandi aukaverkunum, henta misvel þegar aðrir sjúkdómar eru líka í spilinu o.s.frv. Möguleikar eru að jafnaði mjög góðir að finna „rétt" lyf eða „rétta lyfjasamsetningu fyrir sérhvern sjúkling. Að sjálfsögðu er æskilegt að nota aðeins eitt lyf ef unnt er og sjálfsagt að verja til þess nokkrum tíma að finna slíkt lyf. Hins vegar er fremur mælt með því að nota fleiri, jafnvel mörg lyf í litlum skömmtum, heldur en eitt lyf eða fá í stórum skömmtum til að ná því markmiði háþrýstingsmeðferðar að lækka blóðþrýsting í sem eðlilegast horf með sem minnstum aukaverkunum.