Blóðtappi í heila

Heilablóðfall er samnefni yfir sjúkdómsástand þar sem truflun hefur orðið á blóðflæði til hluta heilans. Heilavefurinn er viðkvæmur og þolir illa súrefnisskort, skemmdir koma því fljótt fram ef súrefnisríkt blóð berst ekki til hans. Hvaða einkenni koma fram fara eftir því hvar skemmdin er staðsett og hversu útbreidd hún er. Hægt er að skipta þessum truflun í þrennt;

  • blæðing
  • blóðsegi og
  • blóðreki.

Oft er talað um blóðsega og blóðreka undir samnefninu blóðtappi og um það verður fjallað hér.

Hvað er blóðtappi í heila?

Blóðtappi (blóðsegi eða blóðreki) er kökkur í blóði sem veldur hindrun blóðrennslis í æð. Blóðsegi í heila er tilkominn vegna þrenginga í æðum heilans sem oftast stafa af æðakölkun. Truflunin á flæðinu sem verður þegar blóðið fer gegnum þrenginguna veldur því að það storknar og myndar tappa (blóðsega). Við það berst ekki súrefnisríkt blóð til þess hluta heilans sem þessi æð átti að þjóna og skemmd verður í vefnum. Sjúkdómar annars staðar í líkamanum, oftast frá hjarta, geta myndað blóðtappa sem þá berst með blóðrásinni (blóðreki). Þegar æðarnar greinast meir og meir og verða minni festist tappinn loks og lokar æð. Við það verður blóðþurrð í vefnum og síðar skemmd ef blóðflæði kemst ekki á að nýju. Tímabundin blóðþurrð í heila (transcient cerebral ischemia, TCI) er sjúkdómur þar sem einkenni blóðþurrðar ganga til baka innan 24 klst. Þessi einkenni stafa oftar af blóðreka en blóðsega á meðan þessu er öfugt farið þegar blóðþurrðin er varanlegri.

Blóðtappi getur einnig lokað bláæðum, þ.e. æðum sem flytja súrefnissnautt blóð frá heilavefnum. Slíkir tappar eru sjaldgæfari og einkennin verða önnur og stafa þá fyrst og fremst af þrýstingi á heilavefinn.

Hver er orsökin?

Allt sem veldur skemmdum í æðum líkamans eykur hættu á blóðtappa í heila. Hættan er bæði fólgin í beinum skemdum á æðunum í heilanum og þar með auknum líkum á blóðsega en einnig er aukin hætta á blóðreka til heilans frá öðrum skemmdum æðum. Æðakölkun, hár blóðþrýstingur og of hátt kólesterólmagn í blóði eru meðal þess sem eykur hættu á blóðtappa. Fylgni er milli hjartasjúkdóma og hættu á að fá blóðtappa í heila. Óreglulegur hjartsláttur t.d. í forhólfum hjartans (atrial fibrillation) er algeng orsök blóðtappa í heila. Einnig getur skemmd í hjartavöðvanum sjálfum verið undirrót blóðtappans. Aðrir sjaldgæfari orsakir eru truflanir á storknunareiginleikum blóðsins og mikið vökvatap.

Áhættuþættir:

  • Hár blóðþrýstingur