Blóðgjafar

Innkoma

Á þessari síðu verður farið í gegnum ferli sem allir blóðgjafar ganga í gegnum. Þetta ferli á sér stað mörgum sinnum á hverjum degi í Blóðbankanum. Allir blóðgjafar hefja blóðgjafarferil sinn á sama hátt.

Þeir ganga inn um dyrnar á Blóðbankanum og upp í afgreiðsluna sem blasir þá við. Þar fylla blóðgjafar út gult eyðublað „Heilsufar blóðgjafans við fyrstu blóðgjöf“ eða „ef 2 ár hafa liðið frá síðustu gjöf“, en það er sennilega mikilvægasti liðurinn í öryggisneti blóðbankans.

Á eyðublaðinu er líka fjallað um þá þætti sem máli skipta varðandi hæfi blóðgjafans til að gefa blóð. Annars eru starfsmenn blóðbankans mjög fúsir til að gefa tilvonandi og núverandi blóðgjöfum ráð varðandi blóðgjafir og lífeðlisfræðileg atriði sem þar geta skipt máli. Blóðgjafar sem gefið hafa áður fylla út grænt eyðublað og eru spurningarnar á því blaði miðaðar við endurtekna blóðgjöf enda heitir það „Heilsufar blóðgjafa við endurtekna blóðgjöf“.

Prufurnar

Að lokinni mjög stuttri bið fer blóðgjafinn í nokkrar prufur. Þessar prufur eru gerðar til að tryggja öryggi blóðgjafa og blóðþega.
Fyrst er gengið úr skugga um að blóðgjafinn sé tilbúinn til að gefa blóð. Þetta er gert með því að mæla blóðþrýsting og púls blóðgjafa.

Síðan er framkvæmd einföld mæling með fingurástungu sem gefur til kynna hversu mikill blóðrauði (hemoglobin) er í blóði blóðgjafans. Það er einmitt sú mæling sem á sér stað á myndinni hér að ofan. Á tölvuskjá getur hjúkrunarfræðingurinn fylgst með ferli blóðgjafans, þ.e. hversu oft hann hefur gefið og hver gildin voru í síðustu prufum.

Blóðgjöfin

Ef um nýjan blóðgjafa er að ræða er fyrsta blóðgjöf hans 3 vikum eftir fyrstu komu. Eftir að hafa útfyllt eyðublað líkt og reyndir blóðgjafar gera og undirgengist þær mælingar sem nauðsynlegar eru (blóðþrýstingur, blóðrauði), leggst blóðgjafinn í einn af hinum ótrúlega þægilegu blóðtökustólum Blóðbankans (sjá mynd).
Hjúkrunarfræðingur setur síðan blóðtökunál í bláæð í handlegg og tengir hana við söfnunarpoka.

 

Þegar sett er upp blóðtökunál á það ekki að hafa nein óþægindi í för með sér fyrir blóðgjafann. Stundum finnur þó blóðgjafinn fyrir örlitlum sársauka sem getur stafað af því að nálin liggi of nálægt æðaveggnum.

Hver blóðgjafi gefur hálfan lítra af blóði. Þessi hálfi lítri er mislengi að renna í pokann en almennt eru blóðgjafar ekki lengur en 10 mínútur í stólnum. Einnig eru tekin sýni sem send eru í smitskim og blóðflokkun.
Síðan er nálin fjarlægð og blóðgjafinn setur höndina upp í loft til að hjálpa til við storknun og lokun æðarinnar.

Að þessu loknu er ekki nema eðlilegt að blóðgjafinn sé bæði svangur og þyrstur. Þess vegna er öllum blóðgjöfum boðið upp á góðar veitingar að blóðgjöf lokinni. Þar geta þeir svo setið og notið dagsins að góðverki loknu.
Æskilegt er að blóðgjafinn staldri við í a.m.k. fimmtán mínútur að blóðgjöf lokinni. Þess ber að geta að allir blóðgjafar eiga kost á að fá járntöflur að lokinni blóðgjöf. Þessar töflur flýta fyrir myndun blóðrauða.

Ef mælingarnar að ofan eru í lagi geta reyndir blóðgjafar lagst á bekk og gefið blóð. Nýir blóðgjafar leggjast hins vegar á bekk til að láta taka úr sér blóð í þrjú sýnisglös (alls 12 ml); eitt fyrir blóðflokkun (A, B, O, AB, Rhesus), eitt fyrir smitskimun (HIV, lifrarbólga B og C) og eitt fyrir mælingu á magni ferrítíns í blóðinu. Ferrítín er mjög mikilvægt burðarprótein og gefur magn þess nokkuð vel til kynna í hvaða ástandi járnbirgðir blóðgjafans eru. Að þessu loknu fara nýir blóðgjafar og fá sér kaffi og með því.
Þeir mega svo koma aftur að þremur vikum liðnum og gefa þá einn skammt af blóði.

Vinnsla á blóðhlutum

Allt blóð sem gefið er í Blóðbankanum er unnið í blóðhluta. Blóðeiningin er skilin niður í sérstökum blóðskilvindum þannig að snúningshraði og tími í skiljun ræður mestu um gæði afurðarinnar sem út kemur. Blóðþættirnir eru síðan skildir að með því að pressa þá í tóma poka sem fylgja með upprunalegu blóðeiningunni.

Helstu blóðhlutar eru.:

Rauðkornaþykkni, plasma, blóðflöguþykkni, kuldabotnfall. Einnig eru unnar nýburaeiningar og blóðskip tablóð. Að auki er rauðkornaþykkni og blóðföguþykkni síað í sérstökum tilfellum til að fjarlægja allar hvítar frumur úr blóðhlutanum.

Með vinnslu blóðhluta geta allt að þrír sjúklingar fengið blóðhluta frá einum og sama blóðgjafanum. Þannig náum við fram hámarks nýtni og gæðum blóðhlutans og sjúklingurinn fær öruggari og markvissari blóðhlutameðferð.

Birt með góðfúslegu leyfi Blóðbankans www.blodbankinn.is