Blóðbankinn

Blóðbankinn var stofnaður árið 1953, og hefur æ síðan gegnt mikilvægu hlutverki við að tryggja öryggi í heilbrigðisþjónustunni. Á síðustu 15-20 árum hafa orðið straumhvörf í starfsemi blóðbanka hér á landi, líkt og um gjörvallan heim. Á alþjóðavísu hafa síðustu 20 ár einkennst af háværri umræðu um öryggi og gæði blóðhluta. Þær framfarir sem hafa orðið á þessum tíma valda því að blóðhlutar eru í dag öruggari en nokkru sinni áður. Tilkoma HIV á níunda áratugnum leiddi til ráðstafana, skilmerkja um heilsufar blóðgjafa og veiruskimunar sem hefur aukið öryggi blóðhluta til mikilla muna, í samanburði við árin fyrir 1985. Á hinn bóginn eru kröfur almennings um örugga blóðhluta háværari en nokkru sinni áður. Við Íslendingar viljum jú toppþjónustu, ekki síður en aðrar þjóðir! Starfsfólk Blóðbankans hefur svarað kalli nútímans og setur sér alþjóðleg viðmið. Blóðbankinn fékk alþjóðlega ISO-vottun sinnar starfsemi í mars 2000. Er það ekki bara pappír uppi vegg? spyr einhver. Nei! það er skuldbinding okkar að gæta þess stöðugt að bæta þjónustuna í hvívetna og geta sýnt utanaðkomandi úttektaraðila fram á það. Fá athugasemdir um það sem betur mætti fara, leiðrétta það strax. Þessari vinnu lýkur aldrei, hún er harður húsbóndi …………..en afskaplega gefandi! Jákvætt vinnuumhverfi, sýnilegur árangur og ánægðir viðskiptavinir eru afrakstur slíkrar vinnu.

 

VEIRUSKIMUN

Skimun fyrir HIV (alnæmisveiru) hófst árið 1985, og skimun fyrir lifrarbólgu C (HCV) hófst árið 1992 hér á landi. Þessar nýju skimunaraðferðir tryggja mikið öryggi blóðhluta. Áhætta veirusýkinga er mjög lítil, en þó til staðar. Nýleg úttekt Frakka sýnir að frá 1993 hefur áhættan á því að fá lifrarbólgu eða HIV með blóðhlutum minnkað fjórfalt. Erlendar rannsóknir benda til þess að áhætta á HCV-sýkingu, þrátt fyrir núverandi skimunaraðferðir, sé uþb. 1:100.000 eða 500.000. Með sama mælikvarða er talið að HIV geti borist með blóðhlutum, þrátt fyrir núverandi skimun, í allt að 1: 1.000.000 eða 5.000.000 tilvika. Nýjar skimunaraðferðir, sem nefndar eru kjarnsýrugreining (NAT-skimun), geta minnkað þessa áhættu enn frekar, en krefjast mikilla fjármuna á ári hverju. Mörg nágrannalönd okkar hafa tekið slíkar aðferðir í notkun. . Í Frakklandi þar sem búa 60 milljónir manna, myndi NAT-skimun fyrir HCV fyrirbyggja eitt tilfelli af lifrarbólgu C á ári. Slík skimun myndi kosta 79 milljón Evrur (uþb. 6-7 milljarðar ísl. kr.) til að fyrirbyggja eitt slíkt tilvik! Er það mikið? Já, flestum þætti það mikið. En þessum eina finnst það mikilvægt! Og hver gætir hans hagsmuna? Almenningur verður að geta tekið þessi sjónarmið til umræðu með fagfólki og stjórnmálamönnum.

 

 

ÁBYRGÐ OG SKYLDUR

 

Í nokkrum vestrænum löndum er þessi umræða oft samofin minningunni um fangelsisvist stjórnmálamanna og opinberra starfsmanna í kjölfar málaferla sjúklinga sem fengu HIV-sýkingar með blóðhlutum og storkuþáttum á níunda áratugnum. Í Frakklandi og Kanada urðu þáttaskil í umræðu um heilbrigðismál til frambúðar vegna þessara mála. Ábyrgð stjórnmálamanna og skyldur heilbrigðisstarfsmanna fengu annan hljóm til frambúðar. Í mörgum þessara landa telja menn réttast að “gera allt sem mögulegt er” á sviði blóðbankaþjónustu. Líklega svipað og það heitir í lögum um réttindi sjúklinga hér á Íslandi: “Sjúklingur á rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita”. Engar vöflur á mönnum þar!

 

 

HVÍTKORNASÍUN

 

Umræða almennings um öryggi, gæði og áhættu í blóðbankaþjónustu tengist um allan heim umræðu um veirusmit og veiruskimun. Með auknu öryggi blóðhluta verða hins vegar aðrir öryggisþættir æ mikilvægari. Hvítkornasíun er annar þáttur sem getur minnkað aukaverkanir við blóðhlutagjafir, en í dag eru blóðhlutar síaðir fyrir tiltekna sjúklinga á grunni undirliggjandi sjúkdóms. Sum nágrannalönd okkar hafa tekið upp hvítkornasíun allra blóðhluta, og hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld skoðað tillögur þar að lútandi. Áætlað er að slík hvítkornasíun allra blóðhluta hér á landi myndi auka kostnað blóðbankaþjónustunnar um 40-60 milljónir á ári. Ekki hefur verið sýnt fram á það að slík hvítkornasíun “spari” að fullu útlagðan kostnað, en engu að síður hefur hvítkornasíun allra blóðhluta verið tekin upp í allflestum nágrannalöndum okkar. Við þær aðstæður er það mjög áleitin spurning hvort við getum leyft okkur að fara aðrar leiðir en öll nágrannalönd okkar. Hvenær finnst neytendum / sjúklingum hér á landi sem þeirra heilbrigðisþjónusta geri minna en í nágrannalöndunum?

 

 

BAKTERÍUR Í BLÓÐHLUTUM

 

Í sumum nágrannalöndum okkar hefur verið tekin upp skimun fyrir bakteríum í blóðhlutum, en þær geta borist úr blóði eða af húð blóðgjafans. Skimunaraðferðir til að greina bakteríur í blóðhlutum eru tiltækar, og sumir kunnáttumenn í blóðbankamálefnum hafa sagt að & thorn;etta séu meðal mikilvægustu verkefna á þessu sviði. Kostnaðaráætlun slíkra ráðstafana er ekki endanlega ljós hér á landi, en gæti verið uþb. 5-10 milljónir á ári í upphafi, en myndi skila þeim kostnaði til baka með skjótum hætti.

 

 

RÉTT BLÓÐ FYRIR RÉTTAN SJÚKLING

 

Áhættan á því að sjúklingur fái blóðhluta af blóðflokki sem ekki er samræmanlegur blóðflokki sjúklingsins er til staðar. Erlendar rannsóknir benda til þess að slík aukaverkun gæti valdið dauða sjúklings í uþb. 1:100.000 til 1:200.000 tilvika. Því hafa verið þróaðar lausnir til að tryggja öryggi við sýnatöku sjúklings og inngjöf blóðs, sem kemur í veg fyrir slík tilvik. Rafrænar lausnir hjálpa starfsmönnum deilda að tryggja rétta sýnatöku fyrir blóðflokkun og krosspróf blóðs. Þá er mikilvægt að sjúklingar séu merktir með réttum armböndum, með strikamerkingu sem tryggir að blóðsýnið merkt Jóni Jónssyni, sé raunverulega úr Jóni Jónssyni. Og þegar Blóðbankinn sendir deildinni blóðhluta fyrir Jón Jónsson, þá hjálpar rafrænn aflestur og skráning að tryggja að það sé enginn annar en Jón Jónsson sem fær blóðið.

 

 

 

ÖRYGGI, GÆÐI OG ÁHÆTTA

 

Öryggi, gæði og áhætta í heilbrigðisþjónustu eru afstæð hugtök! Almenningur vill “heilbrigðisþjónustu án áhættu” (zero risk) eða “heilbrigðisþjónustu á heimsvísu”. Því marki verður aldrei náð. Áherslur við uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu verður að taka mið af vísindalegri þekkingu, en væntingar og tilfinningar almennings í samspili við áherslur stjórnmálamanna á hverjum tíma eru áhrifaþættir sem eru erfiðari að spá um en íslenskt veður!

 

Ísland verður að halda vöku sinni á sviði blóðbankaþjónustu. Heilbrigðisyfirvöld hrærast í alþjóðlegu umhverfi, með sama hætti og almenningur um allan heim er í dag vel upplýstur um ný meðferðarúrræði og öryggisráðstafanir í heilbrigðisþjónustu. En jafnframt er það skylda okkar fagfólksins að vera til svara og gefa “balanseraðar” upplýsingar, sem tekur mið af bestu tiltæku vísindalegu þekkingu á hverjum tíma. Það er hlutverk okkar. Þessi grein er vonandi örlítið framlag til slíkrar umræðu.

 

 

Áhugaverðar vefsíður:

 

 

www.blodbankinn.is

 

besti blóðbankavefur á Íslandi!

 

www.psbc.org

 

mjög góður vefur blóðbanka í Seattle í Bandaríkjunum

 

www.bloodservices.ca

 

vefur kanadískra blóðbanka

 

www.blood.co.uk

 

vefur enskra blóðbanka

 

 

 

Dr. Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans

sveinn@landspitali.is

 

www.blodbankinn.is