Blástur – Aðferðir

Munn-við-nef aðferðin
Þótt oftast megi beita munn-við-munn aðferðinni við blástur getur reynst nauðsynlegt að nota munn-við-nef aðferðina þegar:
• Erfitt er að opna munn einstaklings.
• Ekki er hægt að mynda loftþétt tengsl umhverfis munninn.
• Alvarlegir áverkar eru í kringum munninn.
• Viðkomandi er tannlaus eða munnur hans mjög stór.

Ef munn-við-nef aðferðinni er beitt er blásið gegnum nef þess slasaða eða veika um leið og  munninum er haldið lokuðum með annarri hendinni. Munnurinn á hinsvegar að vera opinn við útöndun svo hugsanleg stífla í nefi hindri ekki öndun.

Munn-við-stóma aðferðin
Krabbamein og sjúkdómar í raddböndunum geta leitt til þess að fjarlægja þurfi barkakýli. Sá sem gengist hefur undir slíka aðgerð þarf að anda í gegnum lítið gat á barkanum sem kallast stóma.

Þegar munn-við-stóma aðferðinni er beitt verður að loka bæði munni og nefi viðkomandi meðan blásið er því að loftið getur farið upp öndunarveginn gegnum barkann í stað þess að fara niður í lungun. Loka má munninum og nefinu með annarri hendi. Meta þarf öndunina með því að horfa, hlusta og þreifa á stómanu meðan höfði og hálsi er haldið í láréttri stöðu.

Munn-við-hlíf aðferðin
Munn-við-hlíf aðferðin felst í að blásið er í gegnum grímu eða hlíf til varnar þeim sem blæs. Tvær gerðir eru til af slíkum hlífðarbúnaði.

Blástursgríma: Gríman fer yfir munn og nef. Á flestum grímum er einstefnuloki til að hindra að loft berist til baka í munn björgunarmannsins.

Andlitshlíf: Andlitshlífar eru gerðar úr gegnsæju plasti og á þeim eru munnstykki sem blásið er í gegnum. Á sumum er stutt rör sem stinga á upp í munn þess sem blásið er í þannig að það nemi við tunguna. Andlitshlífar eru smærri og ódýrari en blástursgrímurnar en loft getur lekið meðfram hlífunum. Æskilegt er að skipta andlitshlíf út fyrir blástursgrímu eins fljótt og auðið er ef þess er kostur.

Þegar búið er að opna öndunarveginn og koma blástursgrímu eða andlitshlíf fyrir er blásið í  þann nauðstadda á sama hátt og við munn-við-munn aðferðina.

Athugið þessar  upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands