Bílbeltin? þín og annarra vegna

Nánast daglega heyrum við fréttir af hörmulegum umferðarslysum þar sem fólk bíður bana eða slasast mjög alvarlega. Í alltof mörgum tilfellum kemur fram í fréttinni að farþegar og/eða ökumaður hafi kastast út úr bílnum. Fyrir þrjátíu árum hefði það ekki þótt sérstaklega fréttnæmt þótt fólk kastaðist út úr bílum t.d. við útafakstur eða í bílveltum. Í dag, árið 2001, 20 árum eftir lögleiðingu bílbelta á Íslandi hlýtur það að teljast undarlegt að enn skuli berast fréttir af fólki sem kastast út úr bílum með skelfilegum afleiðingum. Það þýðir nær undantekningarlaust að bílbeltin voru ekki spennt í umrætt sinn.

Í starfi mínu sem forvarnafulltrúi VÍS ferðast ég mikið um þjóðvegi landsins og ek iðulega landshornanna á milli jafnt sumar sem vetur. Varla þarf að taka fram að sjaldan sé ég eftirlitsbíla lögreglu enda hefur löggæsla á vegum landsins nánast lagst af utan þess sem einstaka lögregluembætti hlutast til um hraðamælingar í næsta nágrenni við þéttbýlisstaði. Þar má t.d. nefna lögregluna. Þess utan má segja að umferðarlöggæsla sé engin. Oft og tíðum er einum lögreglumanni ætlað að stunda löggæslu á svæði sem spannar hundruð kílómetra og segir sig sjálft að slík löggæsla er nánast að nafninu til. Það gefur því augaleið að menn komast upp með að aka án bílbelta og stunda hraðakstur að vild án þess að þurfa að óttast að verða staðnir að verki. Víða í þéttbýli á landsbyggðinni má sjá fólk aka um götur án bílbelta og lítil börn sitja laus í fram- eða aftursætum bíla. Afsökun heimamanna fyrir þessu hátterni er oft sú að það taki því ekki að spenna beltið eða setja barnið í stólinn þær stuttu vegalengdir sem farið er! Slíkur hugsunarháttur er ekki aðeins fáránlegur heldur lífshættulegur.

Þráfaldlega hefur sést til sumra ökumanna fólks- og vöruflutningabíla sem ekki nota bílbelti undir stýri á þjóðvegum landsins. Sumir þeirra eru haldnir þeim misskilningi að þeir séu undanþegnir notkun bílbelta en auðvitað er það fjarri lagi eins og reglugerð um undanþágu á notkun bílbelta kveður skýrt á um. Sömu sögu er að segja af mörgum leigu- og sendibílstjórum sem telja sig undanþegna notkun bílbelta þegar þeir stunda leiguakstur. Svo er auðvitað ekki í öllum tilfellum enda gildir undanþága sendibílstjóra aðeins í örfáum undantekningartilfellum þegar um er að ræða dreifingu á vörum á milli húsa. Undanþága leigubílstjóranna er á sömu forsendum og lögreglumanna, þ.e. af öryggisástæðum og því eingöngu gild þegar þeir flytja farþega. Við allan annan akstur er bæði leigu- og sendibílstjórum skylt að nota bílbelti svo ekki sé talað um vöru- og fólksflutningabílstjórana sem aldrei eru undanþegnir bílbeltanotkun nema þar sem hætta er á skriðuföllum og snjóflóðum.

Þá skal tekið fram að í einstaka tilfellum fá ökumenn læknisvottorð sem undanþiggur þá frá notkun bílbeltis en slík tilfelli eru afar fátíð. Notkun bílbelta bjarga mannslífum. Um það vitna fjölmörg dæmi. Ekki skirrast við að spenna beltin, alltaf þegar sest er upp í bíl.

Heimasíða Vátryggingafélags Íslands