Berð þú heilsu þína fyrir brjósti?

Til þess að geta fylgst með brjóstunum þarft þú að læra að þekkja þau, á sama hátt og þú þekkir andlit þitt og hendur. Það auðveldar þér að taka eftir breytingum sem geta orðið á brjóstunum. Minnstu þess að flesta sjúkdóma í brjóstum er hægt að lækna ef þeir finnast snemma – og þú getur stuðlað að því. Ræddu um það við vinkonur þínar og konur í fjölskyldunni hvernig þið getið verið vakandi fyrir breytingum á brjóstunum.

Hvað getur þú gert til þess að
fylgjast
með breytingum á brjóstunum?

• Farðu reglulega í brjóstamyndatöku (40-69 ára).
• Skoðaðu brjóstin sjálf í hverjum mánuði.
• Láttu lækni þreifa brjóstin ef ástæða er til.

Brjóstamyndataka
Ein öruggasta leiðin til þess að finna sjúkdóma í brjóstum meðan þeir eru á byrjunarstigi er að fara reglulega í brjóstamyndatöku. Á röntgenmynd er hægt að sjá hnúta sem eru of litlir til þess að hægt sé að finna þá með fingrunum. Allar konur á aldrinum 40-69 ára ættu að fara í brjóstamyndatöku með reglulegu millibili, samkvæmt ráðleggingum Krabbameinsfélagsins.

Sjálfskoðun
Ef þú skoðar brjóstin reglulega áttu auðveldara með að átta þig á því hvað er eðlilegt og hvað hefur breyst. Gildi sjálfskoðunar eykst með aldrinum, sérstaklega eftir fertugt. Best er að þreifa brjóstin einu sinni í mánuði, um það bil viku til tíu dögum eftir að blæðingar hefjast. Eftir tíðahvörf er best að þreifa brjóstin á svipuðum tíma í hverjum mánuði.
Auðveldast er að þreifa brjóstin í sturtu. Ef þú verður vör við eitthvað sem þér finnst vera óeðlilegt skaltu einnig þreifa þau liggjandi. Horfðu fyrst á brjóstin í spegli, áður en þú þreifar þau, bæði með hendur niður með hliðum og með hendur spenntar á hnakka.
Bækling með leiðbeiningum um sjálfskoðun brjósta getur þú fengið hjá Krabbameinsfélaginu og á heilsugæslustöðvum. Það er mikilvægt að þora að þreifa brjóstin. Hikaðu ekki við að spyrja lækni ráða um sjálfskoðun.

Að hverju átt þú að leita?
Leitaðu eftir breytingum á útliti brjóstanna, útbungun eða inndrætti í húð. Hefur húðin eðlilegt útlit og eðlilega áferð? Sérð þú svæði þar sem húðin hefur þykknað og roðnað – orðið lík svokallaðri appelsínuhúð? Hefur geirvartan dregist inn? Finnur þú hnút eða eitthvað sem er þéttara eða harðara en aðrir hlutar brjóstsins?
Verkir og eymsli í brjóstum og útferð úr geirvörtu eru venjulega meinlaus fyrirbæri en geta þó einstaka sinnum verið fyrstu einkenni um brjóstakrabbamein. Alltaf þarf að láta rannsaka glæra eða blóðuga útferð frá geirvörtu, eða sár á geirvörtu, til þess að útiloka að um krabbamein sé að ræða. Rétt er að taka fram að flestir hnútar í brjóstum eru góðkynja.

Hvenær á að leita læknis?
Ef þú finnur einhver af áðurnefndum einkennum er mikilvægt að leita læknis. Þó getur verið ástæða til að bíða fram yfir næstu tíðablæðingar ef um er að ræða hnúta og þéttingar hjá konum á frjósemisskeiði.

Eru sumar konur líklegri en aðrar til að fá brjóstakrabbamein?

Brjóstakrabbamein er algengur sjúkdómur og áhættan á að fá það eykst með aldrinum. Það er afar sjaldgæft undir þrítugu og einnig á fertugsaldri. Sumar konur eiga öðrum fremur á hættu að fá brjóstakrabbamein, en ekki er þar með sagt að þær fái sjúkdóminn. Þær ættu að skoða brjóst sín sérstaklega vel.
Þessar konur eru:
• Þær sem hafa áður fengið brjóstakrabbamein.
• Þær sem eiga náinn ættingja sem hefur fengið brjóstakrabbamein
(t. d. móður eða systur).
• Þær sem hafa aldrei eignast barn eða hafa eignast fyrsta barn sitt eftir þrítugt.
• Þær sem eru lengi á frjósemisskeiði (byrja tíðablæðingar fyrir 12 ára aldur og hætta þeim eftir fimmtugt).

Hvað er gert ef krabbamein hefur fundist?

Langoftast þarf að fjarlægja meinið með skurðaðgerð. Ef brjóstið allt er tekið þarf sjaldan að gefa geislameðferð á eftir. Sé aðeins tekinn hluti af brjóstinu (með svonefndum fleygskurði) fylgir geislameðferð í kjölfar aðgerðar. Í vissum tilvikum þarf að gefa frumueyðandi lyf sem viðbótarmeðferð. Oft er gefin sérstök hormónameðferð í nokkur ár eftir aðgerð. Val á meðferð fer eftir eðli, legu og útbreiðslu meinsins og einnig eftir heilsufari konunnar. Læknar ráðleggja þér hvað hentar best. Ef brjóstakrabbamein uppgötvast snemma eru góðar líkur á að lækna megi sjúkdóminn.

Er sama hvað maður borðar?

Heilsusamlegt fæði virðist geta minnkað líkur á að fá brjóstakrabbamein. Enn hefur þó ekki verið vísindalega sannað að svo sé. Fylgdu ráðleggingum Manneldisráðs Íslands um fæðuval. Með þeim er stefnt að bættu heilsufari almennt.
• Veldu fjölbreytta fæðu.
• Borðaðu hæfilega mikið til að viðhalda eðlilegri líkamsþyngd.
• Leggðu áherslu á grænmeti og ávexti, kartöflur, brauð og annan kornmat.
• Veldu fituskertar mjólkurvörur, fisk, magurt kjöt og rétti s em eru að litlu leyti úr fitu.
• Gættu hófs í saltneyslu.

Vilt þú vita meira?

Ef þú vilt fræðast meira um brjóstakrabbamein skaltu leita upplýsinga hjá lækni þínum. Einnig er hægt að fá upplýsingar hjá Krabbameinsráðgjöfinni í síma 800 40 40 og hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í síma 540 19 19. Konur sem hafa einkenni frá brjóstum geta snúið sér til Leitarstöðvarinnar. Samhjálp kvenna, hópur til stuðnings konum sem greinast með brjóstakrabbamein, starfar innan vébanda Krabbameinsfélagsins. Síminn er 898 1712.
Bæklingar með frekara fræðsluefni liggja frammi hjá Krabbameinsfélaginu, á öllum heilsugæslustöðvum, í apótekum og víðar. Þú ættir líka að kynna þér „Heilsuboðorðin“ frá Krabbameinsfélaginu og upplýsingar um sjö hættumerki krabbameins.

Leiðir til betri heilsu

Láttu þér umhugað um velferð þína og fjölskyldu þinnar. Þú getur minnkað líkurnar á að fá krabbamein og aukið batahorfur með því að fylgja eftirfarandi ráðum.
• Reyktu ekki og forðastu að anda að þér tóbaksreyk.
• Stundaðu líkamsrækt, vandaðu fæðuval og neyttu áfengis einungis í hófi.
• Verndaðu sjálfa þig og fjölskyldu þína, einkum börnin, fyrir sólbruna. Þú getur orðið brún án þess að brenna, ef þú gefur þér tíma til þess. Skoðaðu húðina reglulega og láttu lækni líta á allar breytingar.
• Farðu reglulega í leghálskrabbameinsleit eftir tvítugt og brjóstamyndatöku eftir fertugt. Mundu eftir að skoða brjóstin mánaðarlega.
• Vertu vakandi fyrir breytingum á heilsufari þínu.

 

BERÐ ÞÚ HEILSU ÞÍNA FYRIR BRJÓSTI?

Þessi grein er fengin af vef Krabbameinsfélagsins, www.krabb.is