Benzodiazepin

Talsvert ber á misnotkun benzodiazepina hjá þeim misnotendum, er sækjast eftir að misnota róandi efni.

Auk þeirrar höfuðverkunar, að magna áhrif gamma aminosmjörsýru (GABA) í heilanum, hafa benzodiazepinin þá aukaverkun, að þau draga úr virkni NORADRENALINS og 5-HYDROXYTRYPTAMINS í septo-hippocampal kerfinu og ef til vill öðrum hlutum limbiska kerfisins. Þá eru einnig fyrir hendi vísbendingar um að þau kunni að valda aukningu á virkni innlægra ópíaða.

Sérstaka viðtaka, næma fyrir benzodiazepinum, er að finna í heila spendýra. Þeir finnast dreift um heilann þótt benzodiazepinin hafi fyrst og fremst áhrif á svæði, er liggja aftan við cortex, svo sem amygdalkjarnann og hippocampus, en það eru hlutar af limbiska kerfinu. Benzodiazepin hafa óbein áhrif um þessa viðtaka með því að auka áhrifin af gamma-aminosmjörsýru (Gamma Amino Butiric Acid (GABA)), en hún er hamlandi boðefni. Tilgátur eru uppi um það, að í heilanum finnist náttúrulegt efni, er líkist benzodiazepinum, og benzodiazepinin líki eftir áhrifum þess.

Stórir skammtar af benzodiazepinum, teknir yfir löng tímabil, geta gert neytandann háðan efninu. Sýnt hefur verið fram á, að einnig venjulegir lækningaskammtar geta gert neytendur háða efninu og að ákveðið mynstur fráhvarfseinkenna getur komið fram þegar neyslu þeirra er hætt.

Helstu einkennin, sem mynda þetta fráhvarfsmynstur, koma fram vegna aukins næmis skynjunar. Þau eru t.d. aukið heyrnarnæmi (hyperacusis), ljósfælni (photphobia), paraesthesia, aukið lyktnæmi (hyperosmia), ofurnæmi fyrir snertingu og sársauka, truflanir frá meltingarvegi, höfuðverkur, vöðvakrampar, svimi og svefntruflanir.

Fráhvarfseinkenni geta komið í kjölfar meðferðar, sem aðeins hefur staðið yfir í 4-6 vikur. Sum benzodiazepin, og virk umbrotsefni þeirra, skiljast hægt úr líkamanum. Þau geta því safnast þar fyrir og valdið óþægilegum einkennum, t.d. sleni, ataxiu, dysarthriu, truflaðri samhæfingu vöðva, tvísýni, svima, vöðvaslappleika, lélegri einbeitingu, skertu minni og truflaðri áttun. Rétt er að hafa þetta í huga þegar læknar standa frammi fyrir því að framlengja meðferð sjúklings sem er að taka benzodiazepini, og einnig það, að því hefur verið haldið fram, að benzodiazepin verði áhrifalaus til meðferðar kvíða eftir að þau hafa verið gefin samfleytt í 1-4 mánuði.

Benzodiazepinefni safnast helst fyrir í líkamanum þegar þau umbreytast í N-desmethyldiazepam, sem sjálft verkar sem róandi lyf. Það hefur helmingunartíma, sem er lengri en 100 klst.

N-DESMETHYLDIAZEPAM er umbrotsefni: diazepams, clorazepats, medazepams, prazepams, ketezolams og að nokkru leyti chlordiazepoxids. Fleiri benzodiazepin geta af sér langverkandi umbrotsefni. Þannig breytist CLOBAZEPAM í N-desmethyl-clobazepam. Þegar clobazepam er gefið lengi safnast N-desmethyl-clobazepam fyrir í líkamanum og nær innan mánaðar meiri þéttni í plasma og líkamsvefjum en móðurefnið.

NITRAZEPAM hefur einnig tilhneigingu til þess að safnast fyrir í líkamanum, en helmingunartími þess er um 30 klukkustundir.

Skammverkandi benzodiazepin, svo sem LORAZEPAM, OXAZEPAM og TEMAZEPAM, hafa stuttan helmingunartíma, 5-24 klukkustundir. Þau hafa ekki mikla tilhneigingu til þess að safnast fyrir í líkamanum þótt komið geti fyrir að þau geri það einkum hjá gömlu fólki.

Helmingunartími TRIAZOLAMS er styttri en 4 klukkustundir.

Þrátt fyrir stuttan helmingunartíma fylgja ýmis vandamál notkun skammverkandi benzodiazepina. Þeim hættir t.d. til að valda svefnleysi sem fráhvarfseinkenni þegar gjöf þeirra er hætt, þótt aðeins hafi verið gefinn einn skammtur að kvöldi í tvær vikur. Þá virðast fráhvarfseinkenni eftir langtíma gjöf skammverkandi benzodiazepina verða meiri og standa í nokkuð réttu hlutfalli við það, hversu hratt lyfin, og virk umbrotsefni þeirra, umbreytast í líkamanum og skiljast út úr honum.

Áður var nefnt, að benzodiazepin geta truflað ýmsa heilastarfsemi, m.a. minni, þótt þau séu aðeins gefin í litlum skömmtum. Fyrst og fremst trufla þau skammtímaminni, en geta þó truflað langtímaminni ef þau eru tekin stöðugt í langan tíma. Minnið truflast þá frá þeim tíma, sem byrjað var að taka lyfið, og áfram, jafnvel þótt benzodiazepin-lyfið hafi ekki merkjanlega slævt meðvitund neytandans.

Minnistruflanir eru algengari eftir neyslu DÍAZEPAMS, NÍTRAZEPAMS, og TRÍAZOLAMS, en Klórdíazepoxíds og Oxazepams.

Þol fyrir áhrifum benzodiazepinanna á taugafrumur myndast. Þetta gildir þó fyrst og fremst um róandi og svæfandi áhrif, en síður um kvíðadeyfandi áhrif. Metaboliskt þol kemur ekki fram.

Fráhvarfseinkennum eftir neyslu benzodiazepina er lýst hér að framan. Þau koma fram innan tveggja til þriggja daga, þegar skammverkandi benzodiazepin eiga í hlut, en innan sjö daga eftir að neyslu langverkandi benzodiazepina er hætt. Þau standa yfirleitt yfir í tvær vikur, en geta staðið yfir tvo mánuði eða lengur.

Fráhvarfseinkenni eru talin koma fram hjá 15-45% þeirra, sem notað hafa benzodiazepin lengi, jafnvel þótt efnin séu tröppuð niður. Þá er hætta á, að þau kvíðaeinkenni, sem verið var að meðhöndla með lyfjunum, komi til baka í fráhvarfinu. Oft verður einnig aukning á REM svefni síðasta þriðjung svefntímans, jafnvel eftir aðeins fárra sólarhringa meðferð með skammverkandi benzodiazepinum. Venjulega fylgja því ruglingslegir draumar og sjúklingarnir hrökkva gjarnan upp af svefni. Þá geta einnig komið fram erfiðleikar við að ná svefni eftir að hætt hefur verið neyslu svefnlyfja úr flokki benzodiazepina, jafnvel þótt þau hafi aðeins verið notuð um stuttan tíma.