Beinhimnubólga

Hver eru einkenni beinhimnubólgu?

Beinhimnubólga einkennist af verkjum framanvert á fótlegg, sem eru tilkomnir vegna aukins álags og hverfa við hvíld.

Hvað er beinhimnubólga?

Beinhimnubólga er í raun ekki einn sjúkdómur, heldur samheiti yfir ákveðin einkenni. Um er að ræða þrjá mismunandi alvarlega sjúkdóma sem allir hafa þó svipuð einkenni og orsök. Einkennin lýsa sér sem verkir framanvert á fótlegg og eru tilkomin vegna álags, oftast líkamsþjálfunar, svo sem eftir hlaup og koma gjarnan fyrst eftir að einstaklingur byrjar aftur eftir að hafa tekið sér hvíld í einhvern tíma eða þegar álag við þjálfun er aukið.

Þeir þrír sjúkdómar sem í daglegu tali ganga undir samheitinu beinhimnubólga eru:

Álagsbrot

Einkennin eru verkir framan á leggnum sem eru orsakaðir af sprungum sem myndast í leggbeinið vegna nýtilkomins álags. Verkirnir byrja þá oftast 2 – 3 vikum eftir að einstaklingurinn byrjar líkamsþjálfun og eru yfir leggbeininu, oft nálægt miðjum leggnum. Þessi brot er oft erfitt að greina því þau sjást illa á röntgenmyndum.

Beinhimnubólga

Er einnig tilkomin vegna aukins álags á fótinn, oft tengt því að einstaklingur byrjar á líkamsþjálfun eftir hvíldartímabil. Verkirnir liggja yfir sköflungsbeininu fyrir neðan miðju og eru vegna bólgu í beinhimnunni og aðliggjandi sinum. Bæði beinið og sinarnar eru oft aumar viðkomu.

Anterior compartment syndrome (ACS)

Vöðvunum sem tilheyra leggnum er skipt í 4 hópa sem umluktir eru bandvefshimnu sem gefur lítið eftir. Í hólfinu sem liggur framan- og utanvert á leggnum er lítið pláss og himnan gefur lítið eftir. Þarna liggja þeir vöðvar sem við notum við göngu og hlaup ásamt fleiri hreyfingum og við aukið álag þenjast þeir út. Himnan gefur hinsvegar lítið sem ekkert eftir og því eykst þrýstingur í hólfinu. Hann eykst við alla þjálfun en fellur við eðlilegar aðstæður aftur eftir um 5 mínútna hvíld. Þegar þrýstingur er hinsvegar orðinn mjög mikill og það tekur meira en 20 mínútur fyrir hann að falla, fer einstaklingurinn að finna fyrir verkjum í fætinum. Þetta er ástand sem algengast er að sjá hjá keppnisfólki. Á byrjunarstigi finnur einstaklingurinn fyrir verkjum við og fyrst á eftir álag, sem hverfur svo við hvíld. Hvað veldur þessum sjúkdómi er ekki að fullu vitað, en uppi eru tilgátur um að þegar þrýstingur í hólfinu eykst minnkar blóðflæðið og þar með súrefnisstreymi til vöðvanna. Þessum sjúkdómi er aftur skipt í bráða fasa og langvinnan fasa.

Langvinni fasinn einkennist af því að verkir aukast við æfingar og leggurinn getur bólgnað upp, en einkenni hverfa eftir 20 – 30 mínútna hvíld. Ef einstaklingur tekur ekki hvíld, versnar ástandið og lengri tíma tekur fyrir blóðflæði að komast í eðlilegt form og um leið aukast líkurnar á að bráðaástand verði. Hér er hvíld mikilvæg til lækninga, ef ástandið lagast ekki með 2 – 3 mánaða hvíld, er í sumum tilfellum framkvæmd aðgerð þar sem losað er um bandvefshimnuna og þar með hafa vöðvarnir meira pláss og það léttir á þrýstingnum.

Bráðafasinn er í raun þegar langvinni fasinn versnar skyndilega. Þrýstingurinn í vöðvahólfinu eykst það mikið að vöðvarnir fá ekkert súrefni og drep kemur í vefina. Þessu fylgja miklir verkir og skurðaðgerð þarf til að létta á þrýstingnum og koma í veg fyrir að frekari skemmdir verði.

Hvernig er best að fyrirbyggja beinhimnubólgu?

Mikilvægt er að hita vöðvana vel upp fyrir líkamsþjálfun, byrja þjálfunina rólega og auka hana smám saman á nokkrum mínútum.

Nauðsynlegt er að vera í góðum skófatnaði. Til að tryggja að skófatnaður henti einstaklingnum, er mikilvægt að fara í svokallaða hlaupagreiningu, en þar er viðeigandi tækjabúnaður notaður til að meta hvaða tegund af skóm hentar hverjum og einum.

Íþróttaskór slitna við notkun og tapa gæðum og því er mikilvægt að endurnýja þá reglulega. Það fer að sjálfsögðu eftir notkun hversu oft þarf að skipta, en miðað er við um 700 – 800 km notkun.

Huga þarf að undirlagi og ekki er gott að auka vegalengd eða álag um meira en 10% á viku.

Hvernig greinir læknir beinhimnubólgu?

Beinhimnubólgu má greina út frá sjúkrasögu og skoðun á sjúklingi. Nauðsynlegt er fyrir lækni að vita hvenær verkurinn byrjaði, hvernig hann lýsir sér, hvað gerir hann verri og hvað linar verkinn og hvar á leggnum verkurinn er. Með skoðun á báðum fótum má svo fá enn nákvæmari mynd af því hver orsök verkjanna er.

Til að greina hvort um aukinn þrýsting er að ræða í framhólfinu þar sérhæfðan tækjabúnað.

Batahorfur

Batahorfur eru góðar, en það er fyrst og fremst hvíld sem hjálpar við að ná bata.

Hver er meðferðin?

Meðferð við beinhimnubólgu er fyrst og fremst fólgin í hvíld svo vöðvarnir nái að jafna sig. Lágmarks hvíldartími er 2 – 4 vikur, en er að sjálfsögðu háð því hversu slæmt ástandið er orðið. Gott er að nota ísbakstra á svæðið þar sem verkurinn er verstur í 20 mínútur, tvisvar á dag og einnig er ráðlagt að nota þau bólgueyðandi lyf sem fást án lyfseðils í apótekum.

Ef um álagsbrot er að ræða þarf algera hvíld í 4 – 6 vikur, en þá er óhætt að byrja rólega þjálfun.

Ef verkurinn lagast ekki við hvíld er rétt að hafa samband við lækni.