Beinbrot

Beinbrot merkir brot eða sprungu í beini og beinbrot skiptast í tvo flokka:
• Lokað brot: Húðin er heil og engin sár nærri brotstaðnum.
• Opið brot: Húðin hefur skaddast eða rofnað.

Hætta er á því að brotin bein rjúfi eða klemmi stóru æðar útlimanna en þær liggja víða nærri beinum. Vefir handleggja og fóta geta ekki lifað án stöðugs blóðstreymis í meira en tvær til þrjár klukkustundir. Ef grunur er um að stór æð hafi farið í sundur þarf að leita tafarlaust til læknis.

Hvað sérðu?
Erfitt getur verið að sjá hvort um beinbrot er að ræða. Áverkasagan getur vakið grun um beinbrot. Hinn slasaði gæti líka hafa heyrt eða fundið þegar beinið brotnaði. Ef þú ert í vafa skaltu meðhöndla þann slasaða eins og um brot sé að ræða. Notaðu skammstöfunina BOVA til að meta áverkann.
• Bólga af völdum blæðingar inn í vefi gerir fljótt vart við sig eftir beinbrot.
• Opið sár gæti verið merki um beinbrot.
• Verkur á áverkastað. Góð aðferð við að kanna hvort um beinbrot sé að ræða er að renna fingrum varlega eftir beininu. Kvörtun um sársauka eða eymsli getur verið merki um beinbrot.
• Aflögun er ekki alltaf sýnileg. Reyndu að bera skaddaða líkamshlutann saman við hinn óskaddaða.

Önnur einkenni eru meðal annars:
• Minnkuð hreyfigeta. Ef hreyfing veldur sársauka neitar hinn slasaði líklega að hreyfa skaddaða líkamshlutann. Stundum veldur brot hinsvegar litlum eða engum sársauka og sá brotni getur hreyft sig án vankvæða. Ekki hreyfa hinn skaddaða útlim til að kanna hvort hann sé brotinn.
• Þeim brotna gæti fundist eins og beinendarnir skrapist saman.

Hvað gerirðu ef þú ert fjarri byggð?
• Fjarlægja varlega fatnað af áverkasvæðinu. Klipptu föt ef nauðsyn krefur.
• Horfðu (á útliminn), hlustaðu (á sjúklinginn) og þreifaðu (eftir aflögun) þegar þú ætlar að skoða útlim.
• Horfðu á áverkastaðinn. Bólga og mar, sem þýðir að blætt hafi inn í vefinn, gæti ýmist stafað frá skemmdum á beininu eða nálægum vöðvum og æðum. Stytting útlims eða mikil aflögun (sveigja), aflögun við liðamót og snúningur í andstöðu við hinn útliminn eru allt merki um beináverka. Skurður eða jafnvel lítið gat nærri beinbrotinu telst til opinna brota.
• Hlustaðu á sjúklinginn.
• Þreifaðu áverkasvæðið. Sé brotið ekki sýnilegt skaltu þreifa varlega á beininu eftir aflögun, verkjum og bólgu.
• Kannaðu blóðstreymi og taugar. Notaðu skammstöfunina BTH (blóðrás, tilfinning, hreyfigeta) til að minna þig á hvað gera skal.
• Blóðrás. Þreifaðu úlnliðspúlsinn (þumalfingursmegin á úlnliðnum) þegar um handleggsáverka er að ræða en sköflungspúlsinn (milli innanverðs ökklabeinsins og hásinar) ef um áverka á fæti er að ræða. Veikur eða enginn púls er glöggt merki þess að læknisaðgerðar sé tafarlaust þörf.
• Tilfinning. Snertu eða kreistu varlega tær hins slasaða eða fingur og spurðu hann hvernig tilfinningin sé. Skyntap er merki um tauga- eða mænuskaða.
• Hreyfing. Kannaðu hvort um tauga- eða sinaskaða sé að ræða með því að biðja hinn slasaða að hreyfa tær sínar eða fingur ef ekki eru á þeim neinir áverkar.
• Takmarkaðu hreyfingu útlims.
• Hringdu eftir aðstoð.
• Ef þú þarft að flytja viðkomandi um langan veg skaltu spelka brotið (sjá nánar í umfjöllun um spelkun).

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands