Barnið og sorgin

Hann Jónas er 7 ára fjörugur strákur. En síðustu daga hefur hann verið eitthvað svo skrýtinn, húkir bara úti í horni í kennslustofunni fölur og fár. Þegar kennarinn hans spyr hann hvað sé að segir Jónas að honum sé svo illt í maganum – eins og hann geti ekki andað og honum sé mál að gubba. Kennarinn veit að besti vinur Jónasar flutti til Danmerkur fyrir viku síðan og hann grunar að e.t.v. eigi flutningurinn einhvern þátt í þessari undarlegu magapínu sem hrjáir drenginn. Svo hann tekur Jónas með sér afsíðis til að spjalla. Hann víkur talinu að Gumma, vini Jónasar og þegar kennarinn spyr Jónas hvort hann sakni Gumma roðnar Jónas og augun dökkna og verða rök – já svo sannarlega saknar hann Gumma. Hann hefur ekkert leikið sér síðan Gummi fór. Og hann ætlar aldrei að leika sér aftur því hann á ekki lengur neinn vin.

 

Missir:

 

Að missa er partur af lífinu. Það missa allir eitthvað einhvern tímann. En það er misjafnt hversu snemma og hversu mikið. Börn bregðast oft á tíðum öðruvísi við en fullorðnir en það þýðir ekki að missir þeirra sé ekki jafnerfiður þeim og hinum fullorðnu.

Sorgarferlið:

 

Allir sem missa fara í gegn um ákveðið ferli. Sorgarferli. Upplifun sorgar byggist á því hver við erum, hvern við misstum og hversu mikið í okkar daglega lífi breytist við þann missi. Sorgin er eðlilegt viðbragð við missi og hver og einn upplifir hana á persónulegan hátt. Dauði þeirra sem við umgöngumst mest og hafa tekið mestan þátt í lífi okkar snertir okkur dýpst. Maki, foreldrar, börn, systkin og góðir vinir þekkja okkur best og deila minningum okkar og því er dauði þeirra erfiðastur.

Oftast tengir fólk sorgina eingöngu tilfinningalega eða sálræna þættinum en flestir sem syrgja upplifa einnig líkamleg einkenni og hegða sér oft á annan hátt en þeim er eiginlegt. Og viðbrögðin koma ekki endilega strax heldur geta þau komið fram eða viðhaldist mánuðum eða jafnvel árum eftir að fólk missti einhvern náinn sér.

Fyrstu tilfinningalegu viðbrögð við missi einkennast af sjokki, en einnig getur fólk fundið til léttis ef hinn látni er mikið þjáð eða langveik manneskja.

Fyrstu líkamlegu viðbrögð einkennast af dofa, andþyngslum og tómleikatilfinningu og fólk sýnir hegðun eins og afneitun, vantrú, grát og deyfð.

Eftir að fyrsta áfallið er liðið hjá ná tilfinningarnar völdum og þá geta komið fram tilfinningaleg viðbrögð eins og reiði, hræðsla, samviskubit, ofsakvíði, einmanaleiki, eða þunglyndi, líkamleg viðbrögð eins og brjósverkur, úthaldsleysi, höfuðverkur, þreyta, streita og minnkuð mótstaða við veikindum og óvenjuleg hegðun eins og ofurvinnusemi, ofurviðkvæmni, svefnleysi, einangrun, og þörf fyrir að rifja endurtekið upp hvernig dauðann bar að.

Þegar frá líður og fólk fer að jafna sig tekur við aðlögunartími þar sem fólk reynir að byggja upp líf sitt að nýju án þess látna með því að taka ábyrgð, horfa fram á veg og skoða nýja möguleika.

Ef fólki tekst að vinna vel úr sorginni verður útkoman persónulegur þroski.

Það gengur þó ekki alltaf svo vel að vinna úr sorginni og getur sorgin þá orðið sjúkleg þannig að leiðsögn og umönnun fagfólks þurfi til að hjálpa einstaklingum að vinna úr henni.

Sorg eftir aldri:

Sorgarviðbrögð barna og skilningur þeirra á lífi og dauða fara að mestu eftir aldri þeirra.

Börn á aldrinum 0-3 ára upplifa dauðann sem missi, aðskilnað eða að vera yfirgefin. Talið er að jafnvel ungabörn finni til sorgar þegar einhver sem verið hefur til staðar fyrir þau hverfur úr lífi þeirra. Þau hafa hins vegar ekki skilning á endanleika dauðans.

3-6 ára börn eru þess fullviss að allt sé tímabundið og hægt að breyta öllu á betri vegu. Hugsun þeirra er draumórafull og þau ímynda sér að hugsanir þeirra og langanir geti orsakað það sem hugur þeirra stendur til. Þau geta t.a.m. álitið sig eiga sök á dauða systkinis af því þau voru afbrýðissöm en einnig getur þessu verið öfugt farið, þ.e. að þau geti lífgað einhvern við með því að vera sérlega góð eða óska þess nógu heitt.

Á aldirnum 6-8 ára byrja börn að skilja endanleika dauðans. Þau sjá hann hins vegar mest sem afleiðingu einhverskonar slysa eða vegna öldrunar. Oft hafa þau mikinn áhuga á atburðarrásinni sem leiddi til dauða og velta fyrir sér hvað taki við eftir að fólk deyr.

Eftir 9 ára aldur gera börn sér grein fyrir því að dauðinn táknar endalok og ekki er hægt að snúa frá honum. Þau gera sér grein fyrir því að allir deyja, líka þau sjálf. Á þessum aldri fara börn að sýna fullorðinslegri viðbrögð við missi og sorg.

Þegar barn verður fyrir áfalli eða sorg.

 

Það eru ekki einungis dauðsföll sem koma róti á sálarlíf barna, þótt vitaskuld sé slík sorg mjög afgerandi. Að missa vini vegna flutninga, skilnaður foreldra eða missir gæludýrs er barninu mikið áfall. Margt í lífi barna, sem okkur finnst e.t.v. heldur léttvægt, getur einnig valdið börnum sorg. Bara það að þurfa að flytja milli hverfa getur verið heilmikið áfall fyrir viðkvæmt barn.

Börn sem verða fyrir áföllum og sorg sýna ekki alltaf dæmigerð sorgarviðbrögð þar sem þeirra sorg er svo einstök og tengist svo mjög þroska þeirra. Ungt barn sem upplifir missi þarf að endurvinna sorgina í hverju þroskaferli fyrir sig. Þess vegna tekur sorgin sig upp aftur og aftur alveg fram á fullorðinsár.< /p>

Sorg barna er því mjög vandmeðfarin og krefst þess að við hin fullorðnu séum undir það búin að hún brjótist fram þegar barnið fæst við krefjandi þroskaverkefni eins og að byrja í skóla og á unglingsárum. Við verðum líka að vera viðbúin því að allar breytingar á högum barna geti hrundið af stað sorgarviðbrögðum og úrvinnslu sorgar.

Algengt er að börn sem orðið hafa fyrir sorg eða áföllum sýni óeðlilega hegðun dragist aftur úr í námi og þroska og sýni ýmisleg líkamleg einkenni og frávik. Öll endurspegla þessi atriði mikla streitu – en það er einmitt afleiðing sorgarinnar – gífurleg streita.


Líkamleg einkenni sorgar:

· Dofi – það er yfirleitt fyrsta viðbragð við áfalli – barnið dofnar upp, finnst það ekki geta hreyft sig og öll hugsun virðist stöðvast.

· Andþyngsli – barninu finnst eins og hálsinn herpist saman og það geti ekki náð andanum almennilega nema með stunum og andvörpum.

· Svefntruflanir – barnið á erfitt með að sofna og vaknar oft upp á nóttinni, þá jafnvel grátandi eða ofsahrætt.

· Þreyta – svefnerfiðleikar taka sinn toll og sorgin er orkufrek þannig að barnið getur virst síþreytt.

· Breyting á matarlyst – barnið er algerlega lystarlaust eða dettur í sælgæti og snakk þótt það hafi ekki lyst á mat.

· Magaverkur – barninu finnst vera hnútur í maganum og finnst jafnvel að það þurfi að kasta upp.

· Höfuðverkur – barnið kvartar um verki í höfðinu oft framan til og til hliðanna en einnig getur verkurinn lýst sér sem þungi og ljósfælni.

· Næturþvaglát – barnið getur farið að pissa undir aftur eftir að hafa verið hætt því í langan tíma.

· Verkir – barnið getur fundið til verkja hér og þar um líkamann eða verið ,,alverkja“.

 

Tilfinningaleg einkenni sorgar:

· Mikið tilfinningalegt uppnám eins og reiði og pirringur án sýnilegs tilefnis.

· Aðskilnaðarkvíði – barninu líður illa þegar foreldrarnir (eða þeir sem annast það) verða að skiljast við það vegna vinnu og skóla.

· Hræðsla um að aðrir nákomnir muni einnig deyja – barnið getur fyllst ofsahræðslu við að foreldrar þess eða systkini deyi.

· Miklar hugsanir um dauðann – barnið veltir sér mikið upp úr hvernig fólk deyi, hvað gerist þegar það deyr og hvað verði um það eftir að það er dáið.

· Námsörðugleikar – barnið á erfitt með að einbeita sér og ljúka verkefnum sem fyrir það eru lögð.

· Samviskubit – barninu getur fundist það eiga einhverja sök á dauða ástvinar vegna einhvers sem það gerði eða gerði ekki.

· Skólakvíði – barnið treystir sér illa til að stunda skólann – m.a. vegna aðskilnaðarins frá foreldrum og heimili og þess hvertu berskjaldað það er í samvistunum við skólafélagana og kennarana. Barnið vill e.t.v. helst bara vera í öryggi heimilisins.

· Óyndi (þunglyndi) – barnið virðist ekki geta glaðst yfir neinu, finnur ekki upp á neinu að gera og getur setið og horft í gaupnir sér tímunum saman. Það bregst ennfremur illa við öllum tilraunum til að ná því til félagslegs samneitis.

 

Hegðunarleg einkenni barna í sorg:

· Afturhvarfi í þroska – barnið getur farið að tala aftur barnamál, pissa í buxurnar eða skríða um gólfin.

· Tilfinningalegt ofurnæmi – minnstu atriði, eins og að sjá annað barn skammað, geta komið barninu til að gráta eða verða ofsahrætt.

· Stælar – barnið felur tilfinningar sínar bak við forherta framkomu, brúkar kjaft við kennara og aðra sem reyna að komast bak við grímuna eða stjórna því.

· Skapofsaköst – barnið bregst illa við boðum og bönnum og getur þá öskrað eða jafnvel skemmt hluti og ráðist á aðrar manneskjur.

· Áhugaleysi – barnið sýnir engan áhuga á fólki, áhugmálum eða félagslegum athöfnum sem það tók áður þátt í.

· Athyglisþörf – barnið hangir utan í foreldrum og kennurum og tekur upp á ýmsu til að fá athygli þeirra og annarra í kring um sig, t.d. m.þ.a. syngja hátt í kennslustund eða segja rosasögur af sjálfu sér.

· Hræðsla við einveru – barnið getur t.a.m. ekki verið eitt heima, jafnvel þótt það sé orðið stálpað og hafi getað verið eitt heima áður en það varð fyrir áfallinu.

· Afbrot s.s. að stela – barnið fyllist spennu við að brjóta af sér og finnur þannig tilfinningu fyrir lífinu sem því tekst e.t.v. ekki með öðru móti. Oft er þar undirliggjandi ósk um að það náist til að það fái meiri athygli.

 

Öll þessi viðbrögð geta verið eðlileg og þau geta komið upp á mismunandi tímum í þroskaferli barnsins, staðið mislengi og gengið í bylgjum.

Óeðlileg sorg:

 

Þótt ofangreind viðbrögð og hegðun séu eðlileg þegar barn hefur orðið fyrir áfalli og missi megum við ekki skella öllum útskýringum á líðan og hegðun barna á sorgina. Ef barn sem hefur orðið fyrir áfalli nær ekki að vinna úr sorg sinni festist það í sorgarferlinu og við tekur óeðlilegt ástand sem getur endað í mikilli sálrænni kreppu. Einnig getur magapínan eða andarteppan átt sér líkamlega skýringu sem ekki tengist sorginni sem þurfa læknismeðferðar við.

Sýni börn eitt eða fleiri sorgareinkenni í langan tíma eða í yfirdrifnum mæli er ástæða að ætla að þau ráði ekki við úrvinnslu sorgarinnar og þurfi faglega aðstoð.

 

Hvernig hjálpum við barni sem á bágt?

 

Orð Sigurðar Pálssonar, prests í Halllgrímskirkju, eiga vel við um viðbrögð við sorg barna:

,,…barn sem er að glíma við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill“

Það þýðir að barn sem orðið hefur fyrir áföllum og sorg þarf umfram allt öryggi, ástúð og tækifæri til að tjá tilfinningar sínar.

Þótt foreldrum finnist e.t.v. erfitt og sársaukafullt að þurfa aftur og aftur að svara spurningum barnsins um hinn látna og um dauðann, verða þeir að sýna hreinskilni og svara börnum af einlægni þegar þau vilja ræða málefni lífs og dauða. Eyða þarf misskilningi, ef hann er til staðar, og gæta vel að orðalagi þegar rætt er um dauðann við börn til að þau verði ekki óöruggari en er þegar. Sé t.a.m. talað um að hinn látni hafi sofnað gæti barnið óttast að sofna af ótta við að deyja. Einnig hræðast mörg börn sjúkrahús af því einhver sem þau þekktu dó þar og sjúkrahús eru því dauðastaðir en ekki staðir til að láta sér batna.

Ekki er víst að barnið vilji ræða málin þegar hinir fullorðnu vilja það svo það er mikilvægt að vera opinn og tilbúinn þegar barnið sýnir þess merki að vilja spjalla og gefa sér þá tíma til þess.

Ekki þröngva barninu til að takast á við áfallið á forsendum hinna fullorðnu. Barnið þarf að vinna sjálft með tilfinningar sínar á eigin forsendum. Það þýðir ekki að hinir fullorðnu eigi ekki að skipta sér af barninu heldur að þeir eigi að hlúa að því með hlýjum orðum, líkamlegri og andlegri nálægð og öryggi í umhverfi og athöfnum.

Það er mikilvægt að daglegar athafnir og venjur haldist sem líkastar því sem vant er. Hafi barnið t.a.m. misst foreldri sitt er mikilvægt að það foreldri sem eftir lifir rjúki ekki strax í að ganga frá munum hins látna, selja íbúðina og flytja. Það hjálpar við úrvinnslu sorgarinnar að hafa í kring um sig hluti sem minna á hinn látna og þýðingu hans fyrir eftirlifendur.

Einnig þarf áfram að sinna hversdagslegum hlutum eins og þvottum og matreiðslu og halda reglu í matar og svefntímum þrátt fyrir sorgina.

Eigi sorgin sér aðdraganda, eins og mikil veikindi eða yfirvofandi skilnað, er mikilvægt að foreldrar ræði af hreinskilni um horfur og væntanlegar breytingar og geri barnið að þátttakanda í undirbúningnum og sorginni að svo miklu leyti sem þroski barnsins leyfir.

Börnum getur orðið mikið um að sjá fullorðið fólk gráta, sérstaklega þá sem sýna alltaf styrk eins og pabbar og afar. Því er mikilvægt að búa þau undir það, ef hægt er, að þegar einhver deyi þá verði fólk sorgmætt og gráti og það sé gott fyrir fólk að gráta. Líka fyrir pabba, afa og Tarzan.

Fullvissa þarf barnið um að fullorðna fólkið annist það þótt það sé sorgmætt og barnið þarf að finna að það haldi enn ástúð eftirlifenda.

Gleymið ekki snertingunni. Snerting er mikilvægasta tjáningarform sem við eigum og segir oft meira en 1000 orð. Barn sem er faðmað veit að það er elskað. Verið samt viðbúin því að barnið vísi snertingu frá sér meðan það er að átta sig á tilfinningum sínum. Það á sérstaklega við um unglinga – þeir vilja ekki sýna tilfinningar opinberlega og eru oft hræddir við að missa stjórn á sér.

Sorg er orkukrefjandi og því má heldur ekki gleymast að gefa börnunum hollan mat og sjá til þess að þau hvílist.

Aldrei er mikilvægara en á sorgartímum að fjölskyldur gefi sér tíma til samveru. Fjölskyldan þarf að ræða saman og vinna úr tilfinningum. Verkefni sem unnin eru í samvinnu opna oft fyrir umræður og því getur verið gott að elda saman, vera saman um að þvo upp eftir matinn, fara saman í gönguferðir eða bíltúr, spila saman á spil eða hvað það sem fólki finnst gott að gera til að dreifa athygli og skapa vellíðan.

Oft þurfa foreldrar ekki síður stuðning og leiðsögn um það hvernig þeir geti sem best hjálpað barninu að vinna úr sorginni. Hafa verður í huga að þetta er tími sorgar fyrir alla fjölskylduna og foreldrarnir eru e.t.v. ekki í stakk búnir til að hjálpa barninu vegna þess hve þeim sjálfum líður illa. Í slíkum tilvikum getur þurft að leita til fleiri aðila til að hjálpa fjölskyldunni, t.d. prests, félagsráðgjafa eða sálfræðings.

Þótt foreldrum geti virst erfitt að hafa börnin í kring um sig þegar þeir eru sjálfir yfirkomnir af sorg er varhugavert að senda börnin í fóstur þótt einungis sé um skamman tíma að ræða. Börnin eru líka í uppnámi og því er aldrei mikilvægara en einmitt á erfiðum tímum að þau hafi foreldra sína hjá sér. Betra er ef einhver vinur getur komið til fjölskyldunnar og létt undir – sinnt praktískum hlutum, svarað í símann og sinnt börnunum inni á heimilinu.

Það er algengt að þegar fólk verður fyrir áföllum og missi verði fólkið í kring um það vandræðalegt og viti ekki hvernig það á að koma fram við hina syrgjandi. Þetta getur verið barninu sérstaklega erfitt og nauðsynlegt að taka strax á því með útskýringum bæði til barnsins og þeirra sem hlut eiga að máli.

Nauðsynlegt er að foreldrar láti skólastjórnendur vita um dauðsföll í fjölskyldunni þannig að unnt sé að hefja stuðning við barnið á sama tíma og fjölskyldan tekst á við missinn. Einnig er þá hægt að undirbúa skólafélaga barnsins þannig að &th orn;að verði ekki utanveltu vegna feimni skólafélaga gagnvart sorginni.

Hvernig tekið er á áföllum í skólanum getur skipt sköpum um það hvernig barninu gengur að vinna úr sorginni. Skólar og leikskólar verða að móta sér stefnu um það hvernig takast eigi á við sorg barna innan veggja stofnunarinnar, því sorgin getur bankað upp á þegar minnst varir. Þar sem skólinn/leikskólinn tekur orðið svo stóran hluta af tíma barnsins þarf það að finna þar öryggi og skjól og vita að þeir sem þar starfa láti sér annt um líðan þess og að það geti leitað til þeirra sem þar starfa í trúnaði.

Vinna þarf þar í samstarfi við foreldra og aðstandendur barnanna og gera börnum mögulegt að vinna með tilfinningar sínar á þann hátt sem einstaklingnum líður best með. Best er ef hægt er að virkja alla sem í skólanum eru, nemendur, starfsfólk og foreldrafélag í undirbúningi fyrir áfallahjálp og sorgarúrvinnslu. Þannig vita allir hvernig bregðast skuli við þegar sorgin ber að dyrum og vita að þeir eiga sjálfir vísan stuðning og hjálp ef þeir lenda í missi og áföllum.

Þegar ætla má að líðan eða hegðun barns tengist sorg þess og missi er mikilvægt að taka sér tíma fyrir barnið, gefa því tækifæri til að tjá sig og leiða það í úrvinnslu sorgarinnar.

Oft getur börnum fundist betra að tjá sig við utanaðkomandi aðila eins og prest, skólahjúkrunarfræðing eða lækni, frekar en þá sem standa því næst og eru einnig í sorg.

 

Í upphafi erindisins sagði ég ykkur frá honum Jónasi. Kennarinn hans vissi hver var orsök vanlíðunarinnar og hann brást við eins og hann kunni best, með stillingu og samúð.

Jónas ætlaði aldrei að leika sér aftur. Þeir sátu smástund þöglir og hugsandi, kennarinn og Jónas og þungt andvarp leið frá litlu brjósti um leið og tár trítlaði niður kinn Jónasar. Kennarinn strauk honum blíðlega bakið og bað hann að segja sér hvað það var sem gerði Gumma að svona góðum vini. Þannig fékk hann Jónas til að rifja upp hvað Gummi var skemmtilegur, hvað þeir gerðu saman, öll prakkarastrikin og hvað það var gott að eiga besta vin þegar maður hafði verið skammaður eða leið eitthvað illa. Og við það að rifja upp samveruna með Gumma virtist Jónasi smám saman líða betur – í bili. Kennarinn skilur sorg hans yfir að hafa misst besta vininn og það er svo gott að hafa einhvern sem getur tekið þátt í sorginni með manni.

Því þegar upp er staðið eru það mannlegu eiginleikarnir sem gera okkur sorgmædd og eins eru það einungis mannlegu eiginleikarnir sem geta dempað sorgina.

 

Erindi þetta var flutt af Dagnýju Zoega, ljósmóður og hjúkrunarfræðingi við Heilsugæsluna Kirkjubæjarklaustri, á fræðslukvöldi um börn og sorg sem Sr. Bryndís Malla Elídóttir, prestur Prestsbakkasóknar, stóð fyrir hinn 20. mars 2003 í kapellu Jóns Steingrímssonar á Kirkjubæjarklaustri.