Barnavernd og heilbrigðisstarfsmenn

Barnaverndarstarf er viðkvæmur málaflokkur.  Óvíða eru opinberir aðilar að fjalla um eins viðkvæm mál og miklu skiptir að stuðningur og ákvarðanir sem barnaverndaryfirvöld taka skili sér til barnsins.

Algengast er að barnaverndarnefndir heyri um börn sem talin eru búa við erfiðar heimilisaðstæður vegna þess að tilkynning berst frá einhverjum sem þekkir til barnsins.  Tilkynningarskylda til barnaverndarnefnda er skýr í barnaverndarlögum og sérstaklega tekið fram að hún gangi framar þagnarskyldu starfsmanna sem sinna börnum.

Árið 2001 bárust barnaverndarnefndum 4075 tilkynningar.  Um 5% þeirra komu frá starfsfólki heilbrigðisstofnana.  Oft vakna spurningar um hvort heilbrigðisstarfsfólk verði ekki í starfi sínu vart við tilvik þar sem grunur vaknar um vanrækslu eða ofbeldi gegn barni.

Í síðustu viku birtust á heimasíðu landlæknis verklagsreglur um tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsfólks til barnaverndarnefndar, unnar af starfshópi frá Landspítala–háskólasjúkrahúsi, barnavernd Reykjavíkur og Barnaverndarstofu.  Markmiðið með reglunum er að vekja athygli heilbrigðisstarfsmanna á tilkynningarskyldunni og að veita ákveðnar leiðbeiningar um hvað skoða ber sérstaklega og meta þegar grunur vaknar um atriði sem tilkynna á um.  Er t.d. ósamræmi milli þeirra áverka sem sjást á barninu og þeirrar sögu sem sögð er um tilurð áverkans?  Finnast við læknisskoðun merki um fyrri áverka sem ekki hafa verið meðhöndluð?  Er foreldri barnsins í þannig ástandi að það sé ekki fært um að sinna þörfum þess nú, t.d. vegna vímuefnaneyslu?

Sl. sumar tóku gildi lög ný barnaverndarlög nr. 80/2002.  Ákvæði þeirra um tilkynningarskylduna eru að mestu óbreytt.  Þar er að finna nýtt ákvæði um skyldu til að tilkynna um þungaðar konur sem stofna lífi og heilsu ófædds barns síns í hættu, t.d. með vímuefnaneyslu eða vegna geðsjúkdóms.  Þá er ákvæði um að heilbrigðisstarfsmönnum sé skylt að veita barnaverndarnefndum upplýsingar um barnið og foreldra þess til að nefndin geti metið hvernig best er að styðja barnið og fjölskylduna.

Miklu skiptir að barnaverndarnefndir eigi gott samstarf við alla sem koma að málefnum barna.  Verklagsreglurnar er einn liður í þessu samstarfi.

Anni G. Haugen, Barnaverndarstofu

 

Frá Landlæknisembættinu