Barnaiðjuþjálfun

Iðjuþjálfun er frekar ung fræðigrein og á Íslandi hóf fyrsti iðjuþjálfinn störf á Kleppsspítala árið 1945. Upphaf iðjuþjálfunar má rekja til Bandaríkjanna í byrjun þessarar aldar. Hún er nú útbreidd starfgrein víðast hvar í hinum vestræna heimi. Iðjuþjálfun barna hefur verið stunduð hér á landi um árabil og er barnaiðjuþjálfun eitt af sérsviðum innan iðjuþjálfunar. Árið 1976 var Iðjuþjálfafélag Íslands stofnað og voru félagsmenn þá níu en nú starfa um það bil 100 iðjuþjálfar hér á landi. Nú í vor mun fyrsti árgangur iðjuþjálfa útskrifast frá Háskóla Íslands á Akureyri en áður var eingöngu hægt að læra iðjuþjálfun erlendis.

Iðjuþjálfar vinna með börnum sem eiga í erfiðleikum með athafnir daglegs lífs. Oftast er um að ræða börn og ungmenni sem eru með frávik í skyn- og hreyfiþroska, börn sem eiga í erfiðleikum með vitræna þætti og atferli eða börn sem skortir færni vegna hreyfihömlunar og þurfa á hjálpartækjum að halda. Læknar, og þá oftast barnalæknar, vísa börnum í iðjuþjálfun. Ástæður þess að börnum er vísað í iðjuþjálfun geta verið margar, en oftast eru það áhyggjur foreldra eða fagmanna, sem valda því að leitað er til iðjuþjálfa. Markmið iðjuþjálfunar er að ýta undir skyn- og hreyfiþroska barna og auka færni þeirra við nám og leik. Til að meta færni þeirra eru notuð próf- og matstæki sem sýna sterkar og veikar hliðar. Oftast eru notaðir staðlaðir kvarðar eða önnur formleg matstæki til að meta frammistöðuna. Í þessu sambandi er sérstaklega horft á þætti sem skipta máli varðandi þroska, en það eru skynhreyfiþættir, vitsmuna- og sálfélagslegir þættir. Einnig er metin hreyfifærni og líkamsbeiting, skynúrvinnsla, verkgeta, aðferðir við lausn verkefna, virkni og atferli. Einnig er mikilvægt að kanna aðstæður barna heima og í skólanum og fylgjast með þeim takast á við daglega iðju. Í flestum tilvikum ræðir iðjuþjálfinn við foreldra og fagmenn sem málinu tengjast og lagðir eru spurningalistar fyrir foreldra um færni barna við daglega iðju.

Til að mat iðjuþjálfans skili árangri er nauðsynlegt að hann skili niðurstöðum með skýrum hætti til þeirra sem barninu tengjast. Niðurstöður eru svo notaðar til að ákveða markmið og leiðir til að ná þeim markmiðum.

Algeng matstæki sem iðjuþjálfi notar

MAP (Miller Assessment for Preschoolers) er staðalbundið próf ætlað börnum á aldrinum 2 ára og 9 mánaða til 5 ára og 8 mánaða. Markmið prófsins er að greina þau börn sem sem víkja frá eðlilegum þroska og líklegt er að muni eiga í erfiðleikum í skóla (Miller 1988). Auk þess gefur prófið víðtækar upplýsingar um ýmsa þroskaþætti, sérstaklega skynjun, skynúrvinnslu og hreyfiþroska. Það skiptist í eftirtalda hluta.

Skynjun og hreyfingar:

  • Grunnþættir skynjunar og hreyfinga: m.a. hreyfi- og stöðuskyn, snertiskyn, líkamsstaða, jafnvægi og stöðugleiki.
  • Samhæfing skynjunar og hreyfinga: m.a. mýkt og flæði hreyfinga, víxlhreyfingar, munn- og tunguhreyfingar og framburður.

Vitrænir þættir:

  • Málþættir: minni, röðun og skilningur.
  • Sjónrænir þættir: sjónminni, röðun og það að greina mynd frá bakgrunni.

Samspil ólíkra þátta:

  • Hæfni til að samtvinna ólíka þroskaþætti, skipulag og framkvæmd.

Fyrir nokkrum árum var gerð samanburðarrannsókn á MAPinu þar sem frammistaða íslenskra barna í þremur aldurshópum var borin saman við frammistöðu barnanna í bandaríska stöðlunarúrtakinu (Snæfríður Þ. Egilson, 1994) Rannsókn þessi gefur íslenskum iðjuþjálfum góð viðmið í starfi, þar eð hún auðveldar túlkun á prófþáttum.

Movement – ABC (Movement Assessment Battery for Children) er hreyfipróf ætlað börnum á aldrinum 4 til 12 ára. Það tekur á ýmsum hreyfiþáttum, svo sem samhæfingu fínhreyfinga og fingrafimi, sambeitingu sjónar og hreyfinga, og jafnvægi á hreyfingu og í kyrrstöðu. Auk tölulegra upplýsinga er þar að finna greinargóðar klínískar athuganir á gæðum við útfærslu hreyfiathafna. Sérstök áhersla er á tímasetningu hreyfiviðbragða og ögun við vinnu. (Henderson og Sudgeng, 1992). Prófið er staðalbundið.

Sænskt fínhreyfimat (Finmotorisk utveklingsstatus 1-7 år) er markbundið þroskamat sem gefur aldursviðmið fyrir færni í fínhreyfingum og við samhæfingu sjónar og handa hjá börnum allt að 7 ára aldri (Lantz og Melén). Miðað er við handbeitingu og frammistöðu við algeng fínhreyfiverkefni svo sem að klippa, teikna, lita, byggja með kubbum, þræða perlur, hneppa og hnýta.

Skóla-Færni-Athugun – School Functional Assessment (SFA) er markbundið matstæki sem nýtist við mat á þátttöku og færni 6 – 12 ára nemenda með sérþarfir. Það samanstendur af spurningalistum sem fylltir eru út af einum eða fleiri fagmönnum er þekkja vel til frammistöðu nemenda við ýmis viðfangsefni í skólanum. (Coster, Deeney, Haltiwanger og Haley, 1998) Prófið skiptist í fjögur stig

1. stig. Félagsleg þátttaka og hlutverk.
2. stig. Færni við verk.
3. stig. Færni við athafnir.
4. stig. Eiginleikar og hæfni.
Hægt er að leggja matstækið fyrir í heild eða nota valda hluta þess. Þær upplýsingar sem fást koma að góðu gagni við skipu lag og tilhögun þjónustu sem og við gerð einstaklingsnámskrár.

Óformlegar athuganir

Stundum gefa hefðbundnir kvarðar og aldursviðmið takmarkaðar upplýsingar um færni barna og vanda þeirra hverju sinni. Þetta á ekki síst við um börn sem fylgja ekki eðlilegum hreyfiþroska vegna sértækar fötlunar, til dæmis heilalömunar eða vöðvasjúkdóma. Í slíkum tilvikum nota iðjuþjálfar færnilýsingar, sem taka mið af sérkennum fötlunarinnar.

Íhlutun iðjuþjálfa

Íhlutun iðjuþjálfa getur verið þrenns konar, ráðgjöf, óbein þjálfun og bein þjálfun.

Ráðgjöf er mjög mikilvæg og á alltaf við einnig þó barn sé í beinni þjálfun. Með markvissri ráðgjöf er hægt að hjálpa foreldrum og fagfólki að skilja betur hegðun barnsins og hjálpa þeim að finna aðrar leiðir barninu til aðstoðar. Ráðgjöf getur einnig falist í því að aðlaga og breyta húsnæði sem barnið þarf að fara um, þannig að barnið eigi auðveldara að komast um og taka þátt í daglegum athöfnum.

Með óbeinni þjálfun er átt við að iðjuþjálfi leiðbeini foreldrum og fagfólki um það hvernig hægt er að örva hreyfiþroska svo að dæmi sé tekið. Iðjuþjálfi metur svo reglulega, í samvinnu við fagfólk og foreldra, hvort leiðbeiningar skila árangri og hvort breyta þurfi um áherslur.

Með beinni þjálfun er átt við að barnið fari til iðjuþjálfa í tíma á æfingastöð svo að dæmi sé nefnt. Þessi aðferð hefur verið sú algengasta hér á landi og hefur hún skilað góðum árangri t.d. við að þjálfa ákveðna þætti. Ókostir við beina þjálfun er sá vandi að yfirfæra það sem barnið þjálfar á æfingastöðinni inn í daglegt líf barnsins. Þarna kemur mikilvægi ráðgjafar inn og að fylgja málunum eftir inní heimili og skóla.

Í iðjuþjálfun er lögð áhersla á þjálfun grunnþátta í þroska miðtaugakerfisins. Þessir þættir eru jafnvægis-, snerti-, og hreyfi-stöðuskyn. Þeir eru undirstaða eðlilegs skyn- og hreyfiþroska. Einnig að auka líkamsvitund svo að skipulag hreyfinga verði gott. Góð líkamsvitund er svo háð eðlilegu snerti og hreyfi-stöðuskyni. Mikil áhersla er lögð á fínhreyfifærni í iðjuþjálfun, t.d. að teikna, klippa, skrifa, hnýta slaufu og borða með hníf og gaffli. Einnig er unnið með færni við athafnir daglegs lífs eins og að klæða sig í og úr og halda röð og reglu á skóladóti, svo að dæmi sé nefnt. Í iðjuþjálfun eru allir þessir þættir þjálfaðir í gegnum leik og mikilvægt er að börnin hafi gaman af þjálfuninni. Iðjuþjálfinn leggur áherslur á að gera kröfur í samræmi við getu barnsins og að ýta undir sterkar og veikar hliðar þess. Hann bendir barninu á hvernig það geti nýtt betur sínar sterku hliðar og það styrkir sjálfsmynd barnsins. Barninu líður betur og er þannig betur tilbúið að takast á við erfið verkefni.

Með nánari tengslum iðjuþjálfa við börn á leikskólum og í grunnskólum er fyrr hægt að aðstoða börn með sérþarfir. Öll eftirfylgd frá þjálfunarstað inn í skólann verður auðveldari og markvissari og kemur það barninu til góða. Aukin samvinna sérfræðinga er mikilvæg og nýtist barninu best. Fjöldi þeirra barna sem þurfa á iðjuþjálfun að halda sýnir fram á nauðsyn þess að iðjuþjálfi verði hluti af sérfræðiþjónustu sem skólinn býður upp á fyrir leik- og grunnskólabörn. Mikilvægt er að fleiri iðjuþjálfar komi til starfa við skólana og að einn iðjuþjálfi verði staðsettur í hverjum skóla og sinni þar hinum mikla fjölda barna sem þarf á sérfræðikunnáttu iðjuþjálfa að halda. Vonandi verður þetta að veruleika hér á landi í nánustu framtíð.

Heimildaskrá

Coster, W. Deeney, Th. Haltiwanger, J. Haley,S.M. (1998). School Function Assessment. San Antonio, Texas: The Psychological Corporation.

Egilson, S.E. (1994). A crosscultural comparison of the performance of Icelandic children to the norms of U.S. children on the Miller Assessment for Preschoolers: A pilot study. Unpublished master´s thesis, San Jose State University, San Jose, CA

Henderson, S.E. og Sudgen, D.A. (1992). The Movement Assessment Battery for Children. London: The Psychological Corporation.

Lantz, C og Melén, K. (1992). Finmotoriks utvecklingsstatus 1-7 år. Stockholm: Omsorgsnämden.

Íðorð í iðjuþjálfun, hugtök og skýringar. (1996). Reykjavík: Iðjuþjálfafélag Íslands.

Þóra Leósdóttir og Snæfríður Þóra Egilsson. Reykjavík 1997. Leikur og iðja. Una bókaforlag.

Birt með góðfúslegu leyfi Félags íslenskra sérkennara.
Greinin birtist í tímariti þeirra, Glæður, vefur félagsins.