Barnahús

1. Tildrög stofnunar Barnahúss

Barnahús hóf starfsemi sína í nóvember 1998. Tildrög stofnunarinnar má rekja til könnunar sem Barnaverndarstofa gerði á nýgengi kynferðisbrota gegn börnum hér á landi og afdrifum málanna í barnaverndar- og réttarvörslukerfinu. Könnunin leiddi í ljós að barnaverndarnefndir fengu um 110-130 tilkynningar á ári vegna gruns um kynferðisbrot gegn börnum á árunum 1991-1996. Í ljós kom að úrbóta var þörf í vinnslu málanna. Þess voru dæmi að börn þurftu að margendurtaka sögu sína vegna þess að barnaverndarkönnun, lögreglurannsókn, læknisskoðun og sálfræðimeðferð fóru fram á ólíkum stöðum og oft án samhæfingar milli þeirra sem að málinu komu. Þetta hafði í för með sér mikið álag fyrir barnið auk þess sem framburði þess í hugsanlegu sakamáli var spillt með síendurteknum viðtölum.

Barnaverndarstofu var falið að finna leiðir til úrbóta og réðst hún sem fyrr segir í stofunun Barnahúss í nóvember 1998. Barnahús er byggt á amerískri fyrirmynd (slíkar stofnanir eru nú til í flestum fylkjum Bandaríkjanna og heita Children’s Assessment Centers). Barnahús er til húsa í grónu íbúðarhverfi í Reykjavík.

2. Hugmyndafræðin að baki Barnahúss

Hugmyndafræðin að baki starfsemi Barnahúss er einkum tvíþætt; að koma í veg fyrir endurtekið áfall hjá barninu og að reyna að upplýsa málið eins vel og unnt er. Skýrslutökur af börnum sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi hafa notið sífellt meiri athygli. Oft er barnið eitt til frásagnar um kynferðisofbeldið og því mjög mikilvægt að frásögnin sé nákvæm og réttmæt. Framburður barnsins er oft grundvöllur að framhaldi og lyktum málsins. Rannsóknir hafa sýnt að læknisfræðileg sönnunargögn finnast einungis í 5-10% þeirra tilvika þar sem óyggjandi þykir að kynferðislegt ofbeldi hafi átt sér stað. Það er því mikilvægt að rétt sé staðið að skýrslutökunni og að stuðst sé við bestu fáanlegu þekkingu við framkvæmd þess.

Til þess að koma í veg fyrir endurtekin áföll hjá barninu er mikilvægt að það fái alla þjónustu á einum stað. Rannsóknir hafa sýnt að það getur verið barninu þungbært að fara á milli ólíkra stofnana og endurtaka sögu sína við marga viðmælendur. Því ber að tryggja að barnið þurfi einungis að lýsa reynslu sinni fyrir fáum viðmælendum og að sá sem taki skýrslu af barninu hafi til þess nægilega þekkingu og reynslu. Með tilkomu Barnahúss hafa þeir sem vinna við rannsókn og úrlausn kynferðisbrota gegn börnum aðgang að sérfræðingi á sviði skýrslutaka.

Meginmarkmið með starfssemi Barnahúss eru eftirfarandi:

 • að samhæfa eins og unnt er hlutverk barnaverndar- og félagsmálayfirvalda, saksóknara og lækna við rannsókn kynferðisbrota gegn börnum
 • að efla samstarf ofangreindra stofnana og embætta til að gera vinnubrögðin markvissari og skilvirkari
 • að forða börnum sem sætt hafa kynferðisofbeldi frá því að þurfa að endurupplifa erfiða lífsreynslu með ítrekuðum viðtölum við mismunandi viðmælendur á mörgum stofnunum
 • að koma börnunum til hjálpar með sérhæfðri greiningu og meðferð þegar þess gerist þörf
 • að safna á einum stað þverfaglegri þekkingu mismunandi stofnana og sérfræðinga við rannsókn og meðferð mála og miðla henni til þeirra sem þurfa á henni að halda.

Þjónusta sú sem veitt er í Barnahúsi er í meginatriðum þessi:

  • leiðbeiningar til barnaverndarnefnda, kennara, leikskólakennara, heilbrigðisstarfsfólks og annarra sem þarfnast upplýsinga vegna gruns um kynferðisbrot
  • könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir ef grunur leikur á að barn hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni annars barns eða ungmennis undir 15 ára aldri eða ef grunur um kynferðisofbeldi hefur vaknað af öðrum ástæðum en þeim að barnið hafi sagt frá (ss. kynferðislegur leikur barns, teikningar eða óeðlilegur, kynferðislegur áhugi eða þekking)
  • aðstoð við skýrslutökur fyrir dómi vegna lögreglurannsóknar
  • læknisskoðun (barnalæknir og kvensjúkdómalæknir)
  • sérhæfð greining og meðferð fyrir börn sem sætt hafa kynferðisofbeldi auk ráðgjafar fyrir foreldra barnanna
  • Barnahús þjónar öllu landinu og sérfræðingar þess veita börnum meðferð í heimahéraði þeirra ef þess er óskað.

   3. Þegar grunur um kynferðisbrot vaknar

    

Samkvæmt barnaverndarlögum ber hverjum þeim sem verður þess vís að barni sé misboðið að tilkynna það barnaverndarnefnd þar sem barnið er dvalfast. Barnaverndarnefnd ber þá að kanna réttmæti tilkynningarinnar og gera nauðsynlegar ráðstafanir barninu til hjálpar. Þegar barnaverndarnefnd fær tilkynningu um kynferðisbrot leitast hún við að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barnsins, t.d. frá skóla, leikskóla og heilsugæslu eða öðrum þeim sem kunna að geta veitt upplýsingar um barnið. Starfsmenn Barnhúss ráðleggja barnaverndarnefndum ávallt að óska eftir lögreglurannsókn ef grunur leikur á að barnið sé þolandi refsiverðrar háttsemi. Nefndin óskar jafnframt eftir lögreglurannsókn ef grunur hefur vaknað með þeim hætti að barnið hafi greint frá kynferðisofbeldinu og gerandinn er sakhæfur (þ.e.a.s. 15 ára eða eldri).

Barnaverndarnefnd heldur vinnslu málsins áfram og leggur m.a. áherslu á að tryggj a öryggi barnsins. Lögreglan tekur skýrslu af meintum geranda og öðrum sem geta veitt upplýsingar um málið. Að því loknu leitar lögreglan atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af barninu. Dómarin getur kvatt kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutökuna (sjá nánar um tilhögun skýrslutökunnar í reglugerð nr. 321/1999). Dómarinn hefur sjálfdæmi um hvar skýrslutakan fer fram og hver framkvæmir hana. Algengast er að dómari kveðji sér til aðstoðar sérfræðing Barnahúss og nýti jafnframt aðstöðuna sem þar er fyrir hendi.

Skýrslutakan fer sem fyrr segir fram undir stjórn dómara. Viðstaddir skýrslutökuna eru: Fulltrúi ákæruvaldsins, verjandi sakborningsins (og etv. sakborningurinn sjálfur), réttargæslumaður meints brotaþola, starfsmaður barnaverndarnefndar og rannsóknarlögreglumaður/menn. Sú aðferð sem sérfræðingurinn beitir við skýrsutökuna hefur verið í þróun í Bandaríkjunum síðan 1987. Niðurstöður rannsókna á sefnæmi, minni og fleiri atriðum og tengsl þessara þátta við aldur barnsins hafa verið notaðar til að þróa þá tækni sem beitt er við skýrslutökuna. Sérfræðingar Barnahúss hafa sótt þjálfun í skýrslutökum af börnum til Bandaríkjanna.

Í ágúst sl. tók héraðsdómur Reykjaness í notkun fjarfundabúnað sem tengdur er Barnahúsi. Skýrslutökur fara þá þannig fram að barnið og aðstandandi þess kemur í Barnahús en þeir sem að ofan eru taldir sitja í dómssal í héraðsdómi Reykjaness. Með þessu fyrirkomulagi verður barnið enn minna vart við þau umsvif sem óhjákvæmilega fylgja skýrslutöku fyrir dómi.

Að skýrslutökunni lokinni er fyrsta meðferðarviðtal bókað auk þess sem fundinn er tími fyrir læknisskoðun. Í húsinu er fullkomin aðstaða til læknisskoðana. Þóra Fischer kvensjúkdómalæknir og Jón R. Kristinsson barnalæknir hafa fasta viðveru í Barnahúsi. Þeim til aðstoðar er Kristín Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þau hafa áralanga reynslu í því að skoða börn sem sætt hafa kynferðisofbeldi.

Sérfræðingar Barnahúss veita börnum sem þangað er vísað allt að 14 meðferðarviðtöl. Í fyrstu viðtölum er þörf barnsins fyrir meðferð metin og kannað hvort barnið hafi hegðunartruflanir eða önnur einkenni sem þarfnast meðferðar. Barnið fær jafnframt almenna fræðslu og upplýsingar um framvindu málsins í réttarvörslukerfinu ef það hefur aldur og þroska til þess. Mikilvægt er að barnið og forráðamenn þess hafi raunhæfar væntingar til málalykta en algengt er að börn séu þess fullviss að meintur gerandi fái fangelsisdóm þótt það sé sem kunnugt er, ekki alltaf raunin.

Ef höfðað er mál á hendur meintum geranda er venjan að sérfræðingur sá sem hefur barnið til meðferðar beri vitni fyrir dómi. Algengt er jafnframt að saksóknari óski eftir skriflegri greinargerð frá sérfræðingnum um meðferðina og líðan barnsins.

Barnahúsi berast oft mál sem varða kynferðislega leiki barna á sama aldri, en slíkir leikir geta vakið grunsemdir um að barnið sem á frumkvæðið hafi lært hegðunina af einhverjum fullorðnum og sé því sjálft þolandi. Ekki eru efni til að óska eftir lögreglurannsókn í slíkum málum enda kemur oftast á daginn að leikirnir eru innan þeirra marka sem telst eðlilegt. Ekki er óskað eftir lögreglurannsókn ef gerandinn er ósakhæfur fyrir æsku sakir (undir 15 ára aldri). Í þessum málum fer fram könnunarviðtal fyrir barnaverndarnefnd og er sömu tækni beitt í slíkum viðtölum.

4. Tölulegar upplýsingar

Samtals hefur málum 452 barna verið vísað í Barnahús frá því að starfssemi þess hófst í nóvember 1998. Málum 408 barna hefur verið vísað í Barnahús vegna könnunar barnaverndarnefndar (53%) eða lögreglurannsóknar (47%). Af þeim börnum sem fengið hafa þjónustu í Barnahúsi hafa 22% farið í læknisskoðun.

Af börnunum 452 hafa 44 notið annarrar þjónustu en hinnar hefðbundnu. Sérfræðingar Barnahúss hafa t.d. í seinni tíð fengið beiðnir um að aðstoða dómara við skýrslutökur af börnum í málum sem varða líkamlegt ofbeldi og einnig í málum þar sem börn hafa orðið vitni að ofbeldi.

Fjölmargir dómar hafa fallið í málum sem Barnahús hefur komið að, bæði í undirrétti og Hæstarétti. Hægt er að nálgast hæstaréttardóma á heimasíðu Hæstaréttar (haestirettur.is) en á síðunni er ágæt leitarvél.

5. Starfsmenn Barnahúss

Vigdís Erlendsdóttir hjúkrunar- og sálfræðingur er forstöðumaður Barnahúss. Auk hennar starfa í húsinu Ragna Björg Guðbrandsdóttir MSW, Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir BA-sálfr., ritari.

Nánari upplýsingar um Barnahús er að finna á heimasíðu Barnaverndarstofu bvs.is.