Barnaexem

 • Hvað er barnaexem?

 • Barnaexem eða astmaexem er langvinnur húðkvilli sem veldur kláða. Einkennin eru mismikil, þ.e. börnin eru einkennalaus í lengri tíma en svo geta einkennin blossað upp allt í einu.
 • Einstaklingar sem þjást af kvillanum eru með þurra húð, mikinn kláða og eiga á hættu að aðrir ofnæmiskvillar (atópískir kvillar) fylgi í kjölfarið (astmi og ofnæmi).
 • Kvillinn eldist af mörgum, en aðrir þjást af honum meira og minna alla ævi.

 

 • Af hverju fær barnið barnaexem?

 • Orsökin er óljós en vitað er að hjá þremur af hverjum fjórum þeirra sem þjást af kvillanum er fjölskyldusaga um barnaexem, astma og/eða ofnæmi. Börn með barnaexem eru oft með astmakenndan bronkítis, astma eða einhvern annan ofnæmissjúkdóm.
 • Sjúkdómurinn birtist yfirleitt áður en barnið nær 5 ára aldri og yfirleitt koma einkennin fram þegar barnið er 2-6 mánaða gamalt. Tíðni sjúkdómsins eykst jafnt og þétt á Vesturlöndum.

 

 • Hvað einkennir barnaexem?

 • Hjá kornabörnum getur barnaexem lýst sér sem rauð útbrot í kinnum samfara kláða. Útbrotin breiðast út um andlitið, niður á háls og á bleiusvæðið og stundum sjást einnig útbrot á utanverðum hand- og fótleggjum. Kláði, sérstaklega að nóttu til, veldur óþægindum hjá barninu sem getur orðið pirrað og önugt. Exemið er yfirleitt þurrt en ef sýking kemst í það verður það vessandi. Það er hættumerki og leita skal strax til læknis/húðsjúkdómalæknis.
 • Við 1½ – 2 ára aldur fara útbrotin að taka á sig einkennandi sjúkdómsmynd. Útbrotin eru þá aðallega bundin við liðamót þ.e. í hnésbótum og olnbogabótum, við úlnliði, ökkla og á hálsi. Mikill kláði er í útbrotunum og þar sem barnið klórar sér mikið á þessum svæðum verður húðin þykkari þar.
 • Sjúkdómseinkenni á fullorðinsárum eru frábrugðin einkennum barnaexems. Exemið er þurrt og húðin undir er þykknuð. Staðsetning er einkum á efri hluta líkamans. Sýking í exeminu af völdum húðbaktería er algeng.
 • Algengt er að þessir sjúklingar verði dökkir í kringum augu, fái bauga og hafi tilhneigingu til að fá rifur hjá eyrnasneplum, kláða undan svita og ullarfötum.

 

 • Áhættuhópar:

 • börn sem eiga foreldri eða systkini með einhvers konar ofnæmissjúkdóma (ofnæmi, astma eða barnaexem)
 • börn sem hafa mælst með hækkað IgE í naflastrengsblóði við fæðingu.

 

 • Ráðleggingar:

 • ef annað verðandi foreldra er eða hefur verið með ofnæmissjúkdóm væri æskilegt að ræða það við lækni eða sérfræðing. Læknirinn getur gefið ráðleggingar um mataræði sem dregur úr hættunni á að barnið fái barnaexem
 • gott er að nota bómullarföt. Varast ber föt úr ull og gerviefnum sem barnið svitnar í og erta húð barnsins
 • gott er að þvo fötin með þvottaefni án ilmefna. Minnka ber sápunotkun og nota skal rakakrem oft á dag
 • leita skal til læknis ef exemið verður vessandi og ef litlar gulleitar blöðrur myndast. Þá getur sýking hafa komist í exemið og því er læknismeðferð nauðsynleg.

 

 • Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

 • Greiningin er yfirleitt byggð á sjúkdómseinkennunum.

 

 • Batahorfur:

 • nauðsynlegt er að vera meðvitaður um að hér er um langvinnan sjúkdóm að ræða og stöðug meðferð og eftirlit er nauðsynlegt, einnig þegar engin einkenni eru greinileg. Ef hugsað er vel um húðina getur það dregið úr frekari fylgikvillum.
 • sýking af völdum örvera getur komist í exemið og er sérstaklega slæmt að fá sýkingu með veirunni herpes simplex (frunsuveirunni) í exemið.

 

 • Hver er meðferðin og hvaða áburður er notaður?

 • Meðferðin felst í að sniðganga þau efni og annað það sem veldur útbrotum, draga úr kláða og bólgu á exemsvæðinu.
 • Með því að fylgja ráðleggingunum hér á undan er hægt að halda exeminu í skefjum hjá sumum sjúklingum. Oft þarf þó að nota bólgueyðandi áburð sem inniheldur barkstera. Slík lyfjameðferð skal vera undir ströngu lækniseftirliti og alls ekki má nota einhvern áburð sem finnst inni í skáp því það gæti verið alltof sterkur áburður fyrir viðkvæma húð barnsins.

Áburður, sem inniheldur væga barkstera gegn kláða

Hýdrókortison delta. Mildison®

Áburður, sem inniheldur meðalsterka barkstera gegn slæmum kláða

Locoid® Locoid Crelo® Emovat®


Áburður, sem inniheldur sterka barkstera
gegn enn verri kláða og notist aðeins tímabundið

Betnovat® Betoid® Cutivat®
Diproderm® Ibaril® Synalar®


Áburður, sem inniheldur mjög sterka barkstera
gegn afar slæmum kláða og aðeins tímabundið

Dermovat®
 • Í mjög svæsnum tilfellum getur verið nauðsynlegt að leggja barnið inn á sjúkrahús einkum ef húðsýking er alvarleg.