Barn tekið með keisaraskurði

Hvað er keisaraskurður?

Þó algengast sé að fæðingar gangi eðlilega fyrir sig, er keisaraskurður jafn eðlileg aðferð og venjuleg fæðing, þegar lífi og heilbrigði barns og móður er hætta búin. Ekki er hægt að ákveða fyrirfram að taka barnið með keisaraskurði. Til hans er aldrei gripið nema ástæða sé til þess. Í þessu sambandi er vert að geta þess að það er alger misskilningur að ef keisaraskurði hefur einu sinni verið beitt, verði að beita honum framvegis.

Hvað gerist við keisaraskurð?

Keisaraskurður

Keisaraskurður er gerður annaðhvort langsum frá lífbeininu til nafla eða þvert yfir kviðinn rétt fyrir ofan lífbeinið, sá skurður er stundum kallaður bikini-skurður. Það er alltaf skorið þvert yfir kviðinn (bikini-skurður) ef ekki hefur verið skorið áður. Legið er skorið upp fljótt og örugglega. Það líða ekki nema nokkrar mínútur frá því að deyfingin tekur að hafa áhrif þar til barnið er komið í heiminn. Síðan þarf að sauma saman skurðinn, bæði á leginu, himnunum kringum leg og þvagblöðru, vöðvalagið og húðina.

Deyfingin

Núorðið er oftast notuð mænurótardeyfing við keisaraskurði. Frá deyfingu, og þar til barnið er tekið, líða um það bil 30 mínútur.

Kosturinn við mænudeyfinguna er sá að móðirin er vakandi þegar barnið fæðist – og faðirinn eða annar aðstandandi getur líka verið viðstaddur meðan á aðgerðinni stendur. Slíkt hefur ríkt tilfinningagildi fyrir marga.

Það er líka kostur að deyfingin hefur lítil sem engin áhrif á barnið. Deyfing af þessu tagi er oftast notuð þegar keisaraskurðurinn er fyrirfram ákveðinn eða þegar gera þarf bráðakeisaraskurð og líf barns eða móður er ekki í bráðri hættu.

Svæfing er notuð ef ekki vinnst tími til að mænudeyfa og talið er að líf barns eða móður sé í hættu. Þegar svæfing er notuð við keisaraskurð fær faðirinn eða aðstandandi ekki að vera viðstaddur.

Við svæfingu fer deyfilyfið að hafa áhrif á barnið eftir smátíma. Þess vegna verður að vinna hratt og örugglega til að ná barninu sem fyrst.

Barnið eftir keisaraskurð

Ef barnið er heilbrigt og sýnir eðlileg viðbrögð ætti það að geta fengið sömu meðferð og börn sem fæðast á eðlilegan hátt. Ef barn er tekið með keisaraskurði áður en hríðar hefjast hefur það þó ekki fengið sömu aðlögun að lífinu utan móðurkviðar og sum börn sem þannig fæðast eru dálitla stund að jafna sig. Á Landspítalanum eru þær reglur að barn sem fæðist með keisaraskurði fer í hitakassa á sængurkvennagangi þar sem fylgst er með öndun, hita, hjartslætti og blóðsykri barnsins í 2-3 klst. eftir fæðinguna.

Áhætta og fylgikvillar

Áhættan fyrir barn og móður er lítil við keisaraskurð en hafa verður hugfast að þetta er samt sem áður skurðaðgerð. Flestar sængurkonur hafa þó fljótlega fótaferð og eftir að hafa jafnað sig er ekkert nema örið á kviðnum sem minnir á að barnið hafi verið tekið með keisaraskurði.

Algengustu fylgikvillar eftir keisaraskurði eru:

 • sýking í skurðsárinu
 • blöðrubólga
 • móðurlífssýking
 • höfuðverkur eftir mænudeyfingu
 • þörf á blóðgjöf.

Alvarlegir fylgikvillar eftir keisaraskurði eru afar sjaldgæfir hérlendis, en þeir helstu eru:

 • óstöðvandi blóðmissir þannig að taka þurfi legið
 • skemmdir á legi eða þvagblöðru
 • legvatnsflakk inn í blóðrás móður
 • blóðtappi.

Hvort er betra að fæða barnið eðlilega eða taka það með keisaraskurði?

Í flestum tilvikum er bæði móður og barni betur borgið við eðlilega fæðingu. Þó kemur í vaxandi mæli fram sú krafa að konur fái að velja um hvort þær fæða á eðlilegan hátt eða með keisaraskurði, en um þetta eru ekki allir á eitt sáttir. Keisaraskurðinum fylgja vissulega ýmsar áhættur en eðlileg fæðing er ekki heldur með öllu laus við fylgikvilla. Fylgikvillar geta t.d. verið sköddun á spöng eða hringvöðvanum í endaþarminum eða þá kynlífsröskun. Slíkir fylgikvillar koma ekki eftir keisaraskurði.

Þar að auki kvíða margar verðandi mæður svo mikið fyrir hríðarverkjunum að það háir þeim mjög í daglegu lífi. Ef svo stendur á þarf að upplýsa hina verðandi móður um aðferðir til að draga úr sársauka í fæðingu og aðrar gagnlegar ráðstafanir.

Hvenær þarf að grípa til keisaraskurðar?

Í sumum tilvikum er keisaraskurður óhjákvæmilegur til að bjarga lífi barns eða móður. Það á til dæmis við þegar:

 • Fylgjan er fyrirsæt. Þá liggur fylgjan yfir leghálsinum svo hann opnast inn í hana. Þegar fæðingin byrjar og leghálsinn fer að opnast, rofna æðarnar sem liggja inn í fylgjuna og móður og barni fer að blæða. Fyrirsæt fylgja útilokar því eðlilega fæðingu.
 • Líf barnsins er í bráðri hætti vegna yfirvofandi súrefnisskorts eða mikillar blæðingar frá móðurlífi
  Ef líf barnsins er hætt komið vegna súrefnisskorts, t.d. ef fylgjan starfar ekki eðlilega – eða vegna þess að fylgjan losnar áður en fæðing hefst eða í fæðing unni áður en barnið er fætt. Þá fær barnið ekki nóg blóðflæði og það blæðir bæði frá því og móðurinni.
 • Framfallin naflastrengur
  Ef naflastrengurinn fellur fram fyrir höfuð barnsins eða ofan í leggöngin þegar konan missir legvatnið. Þetta gerist helst ef kollur barnins er ekki skorðaður ofan í grindina.
 • Fyrir er ör á leginu sem rifnar upp.
  Það kemur fyrir að eldri ör eftir keisaraskurð rifni upp í hríðunum. Það gerist afar sjaldan en er stórhættulegt. Þess vegna eru barnshafandi konur sem átt hafa börn með keisaraskurði alltaf skoðaðar sérstaklega vel með tilliti til þessarar hættu, en það skal lögð áhersla á það að þetta hendir örsjaldan, flestar konur geta fætt börn á eðlilegan hátt þótt fyrra barn hafi verið tekið með keisaraskurði.
 • Mjaðmagrind móðurinnar er of þröng, barnið er of stórt eða situr óvenjulega.
  Ef mjaðmagrind móðurinnar er of þröng – barnið of stórt – eða liggur í óvenjulegri stellingu eins og til dæmis þversum.

Keisaraskurður kemur til greina við eftirfarandi aðstæður

Undir vissum kringumstæðum er hægt að fara fram á keisaraskurð þó að venjuleg fæðing sé möguleg:

 • ef barnið er í sitjandastöðu þegar komið er að fæðingu
 • ef barnið er talið of smátt eða veikburða til að þola venjulega fæðingu
 • ef móðirin er haldin meðgöngueitrun, með of háan blóðþrýsting eða haldin öðrum sjúkdómum
 • vegna breytinga í leginu eftir fyrri aðgerðir á móðurlífinu eða vegna vöðvahnúta
 • ef andlegt ástand konunnar hamlar eðlilegri fæðingu.

Er hægt að velja hvenær barnið er tekið með keisaraskurði?

Ef keisaraskurður er ákveðinn fyrirfram er alltaf hægt að ræða við fæðingarlækninn um að aðgerðin verði gerð á ákveðnum degi, ef þess er óskað – svo fremi sem barnið sé fullburða á þeim degi. Keisaraskurður er ekki gerður fyrir 39 vikna meðgöngu.

Ef upp koma þær aðstæður á meðgöngunni að bráð þörf sé fyrir keisaraskurð er það læknisins að ákveða hvenær barnið verður tekið með keisaraskurði. Á flestum fæðingardeildum er hægt að gera keisaraskurð með svæfingu á nokkrum mínútum.

Það er mikill munur á tíðni keisaraskurða. Hver getur ástæðan verið?

Í fæðingaryfirliti á Doktor.is kemur fram að tíðni keisaraskurða er mismunandi eftir fæðingardeildum sjúkrahúsa, frá því að vera um það bil 5%-22%.

Almennt eru fleiri keisaraskurðir gerðir á stórum fæðingardeildum. Ástæðan getur verið sú að minni fæðingardeildirnar vísa barnshafandi konum með fylgikvilla eða aðra sjúkdóma á stærri og sérhæfðari fæðingardeildirnar. Þar að auki eru oft barnadeildir tengdar við fæðingardeildir stærri sjúkrahúsanna þannig að auðvelt er að kalla til barnalækni ef þörf krefur.