Bakvísandi barnabílstóll – öruggasti kosturinn

Engum blandast hugur um nauðsyn þess að börn noti viðurkenndan öryggisbúnað í bílum – enda hafa fjölmörg dæmi sannað að slíkur búnaður bjargar mannslífum. Hér á landi hefur mikill meirihluti foreldra og annarra forráðamanna barna, reynt að tryggja öryggi barna sinna eins vel og nokkur kostur er með því að nota viðurkenndan öryggisbúnað fyrir börn í bílum. Um það vitnar nýleg könnun Umferðarráðs og SVFÍ þar sem kannaður var öryggisbúnaður barna í bílum framan við leikskóla. Í alltof mörgum tilfellum voru börnin eingöngu spennt í öryggisbelti bílsins sem hentar litlum börnum alls ekki og veitir þeim litla vörn.

Við sem vinnum að umferðarslysaforvörnum, leggjum alla áherslu á að ná til þeirra sem engan öryggisbúnað nota fyrir börn sín svo koma megi í veg fyrir slys. Það gerum við best með hlutlausum og faglegum upplýsingum sem byggðar eru á rannsóknum og reynslu – bæði hér á landi sem erlendis. Rangar og órökstuddar fullyrðingar um öryggisbúnað barna eru að sama skapi beinlínis hættulegar og síst til þess fallnar að auka enn frekar öryggi barna í bílum. Því hefur meðal annars verið haldið fram að það sé beinlínis hættulegt að staðsetja barnabílstól í framsæti bíls – án tillits til hvort öryggispúði er í mælaborði eða ekki. Þarna gætir mikils misskilnings sem skrifast á þekkingarleysi þeirra sem um fjalla. Bakvísandi barnabílstólar (stólar sem snúa öfugt miðað við akstursstefnu) eru öruggustu barnabílstólar sem völ er á í heiminum í dag. Þeir eru flestir með svokallaðri T-merkingu sem stendur fyrir sænskar prófunarreglur og þýðir að þeir eru sérstaklega styrktir gegn höggum sem koma frá hlið. Í bakvísandi stólum þrýstist barnið inn í stólinn við högg framan á bílinn eða á hlið hans en í framvísandi stólum kastast höfuð barnsins fram en við það myndast mikið álag á efstu hryggjaliði og háls og höfuð barnsins. Þess má geta að höfuð 9 mánaða barns er 25% af líkamsþyngd þess á meðan höfuð fullorðinna er 6% af líkamsþyngd.

Margra ára vísindalegar rannsóknir færustu sérfræðinga á sviði umferðaröryggismála víðsvegar í heiminum hafa sýnt fram á að framsætið er alveg jafn öruggt fyrir bakvísandi stóla og önnur sæti í bílnum svo fremi að öryggispúði sé ekki í mælaborði fyrir framan. Um það vitnar reynsla Svía (sem eru fremstir þjóða í umferðaröryggismálum). Í Svíþjóð hafa flest börn setið í bakvísandi stólum í framsætum bíla síðustu tuttugu árin með afar góðum árangri sem sýnir sig í því að á hverja 100 þúsund íbúa í Svíþjóð deyr eitt barn sem farþegi í bíl á meðan sú tala er 2.5 börn á Íslandi.

Allir þeir sem vinna faglega og öfgalaust að umferðaröryggismálum hér á landi eru sammála um að þegar um er að ræða hina svokölluðu „beltastóla” þ.e. stóla sem bílbelti bílsins heldur bæði barni og stól, sé best að staðsetja hann í aftursætum. Vátryggingafélag Íslands leigir út einna öruggustu barnabílstóla sem völ er á í heiminum í dag fyrir börn á öllum aldri, m.a. tvær tegundir sem snúa baki í akstursstefnu og eru hannaðir til að vera hvar sem er í bílnum – bæði í framsæti og aftursætum. Einn þeirra þriggja stóla sem VÍS leigir út er svokallaður „beltisstóll” og ætlaður elstu börnunum. Stólarnir fyrir yngri börnin (0-6 mánaða og 6 mánaða til 3 ára) snúa baki í akstursstefnu og eru mjög gjarnan notaðir í framsæti bíla – enda mjög hentug staðsetning þar sem oft er annað foreldrið eitt á ferð með barni sínu og getur þá fylgst með barninu.

Frá upphafi hafa tæplega tíu þúsund börn notað barnabílstóla VÍS – þar af nálægt helmingur þeirra bakvísandi stóla sem gjarnan eru staðsettir í framsæti. Það er skemmst frá því að segja að ekkert barn, sem setið hefur í bakvísandi stól frá VÍS í umferðaróhappi, hefur slasast og reyndar er okkur ekki kunnugt um að neitt barn hafi yfir höfuð slasast (utan smá skráma) í barnabílstól frá VÍS í árekstri. Sú reynsla kemur heim og saman við reynslu Svía, þar sem slíkir stólar eru mjög algengir, en þar hafa örfá börn slasast alvarlega í bakvísandi stól sem staðsettur hefur verið í framsæti og þá í svo alvarlegum slysum að ekkert gat bjargað. Misskilningurinn, sem felst í þeirri óæskilegu umræðu sem átt hefur sér stað um þessi mál, er e.t.v. fólginn í því að þar voru til umræðu rannsóknir á framvísandi stólum fyrir eldri börn, svokölluðum „beltastólum”. Aldrei hefur farið á milli mála að slíkir stólar eru betur staðsettir og öruggastir í aftursætum bíla – ekki framsætum. Um það blandast engum hugur. Í þeim rannsóknum sem vitnað er til voru bakvísandi stólar EKKI prófaðir og þess vegna afar ófaglegt og villandi að alhæfa að framsætið sé hættulegt fyrir staðsetningu barnabílstóla. Bakvísandi barnabílstólar eru öruggasti kosturinn sem völ er á fyrir börn að þriggja ára aldri (að 18 kg) og þá gildir einu hvort stólinn er staðsettur í fram- eða aftursæti en auðvitað með því skilyrði að öryggispúði sé ekki í mælaborðinu fyrir framan. Það er sko&eth ;un okkar, sem vinnum að öryggismálum barna í bílum, að nauðsynlegt sé að fjalla um þau mál af fagþekkingu, hlutleysi og án allra öfga.

Markmið okkar hlýtur að vera að reyna að hafa þau áhrif á foreldra og forráðamenn barna að ÖLL börn sitji í viðurkenndum öryggisbúnaði í bílum sem hæfir aldri þeirra og þyngd. Ónákvæm og villandi umræða vekur aðeins ótta og öryggisleysi og er síst til þess fallin að bæta öryggi yngstu farþeganna.

Heimasíða Vátryggingafélags Íslands