Bahá´íar

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Bahá´íar

Bahá’is

Bahá’ítrúin (borið fram bahæ) er upprunnin í Íran (gömlu Persíu) í kringum 1844. Inntak trúarinnar er að Guð hefur skapað manninn til þekkingar og tilbeiðslu á sér. Sál mannsins fer til annars heims eftir dauðann, þar sem hún heldur áfram að þroskast og færast nær fullkomnun – það er Guði. Litið er á tilvist mannsins á jörðinni sem stutta viðkomu, einskonar millistig þar sem honum ber að þroska sína andlegu eiginleika, sem er nauðsynlegt bæði fyrir þetta líf og hið komandi. Bahá’ítrúin hefur borist víða um heim en fjöldi bahá’ía hér á landi er um 400.

Helgisiðir

Helgisiðir bahá’ía felast meðal annars í því að öllum bahá’íum á aldrinum 15-70 ára er ætlað að lesa í helgum ritum trúar þeirra kvölds og morgna, segja hið helgasta nafn Alláh-u-Abhá 95 sinnum, en það merkir Guð er hinn aldýrðlegi. Flestir bahá’íar eiga bænabækur. Þeir stunda ríkt bænalíf, fara með skyldubæn hvern einasta dag svo og opinberaðar bænir trúarinnar. Sjúklingar eru undanskyldir bænahaldi.

Börn eru ekki skírð en allt til 15 ára aldurs er litið á þau sem safnaðarmeðlimi. Við þann aldur staðfesta þau trú sína.

Helgidagar þar sem bahá’íar taka frí frá störfum eru níu á ári. Mánuðirnir eru 19 og í hverjum mánuði eru 19 dagar. Við upphaf hvers mánaðar eru samkomur sem kallast nítjándagahátíð en á þeim dögum koma bahá’íar saman til helgistundar, samveru og samráðs.

Nýárshátíð er að jafndægri að vori, 21. mars. Í tengslum við þá hátíð fasta bahá’íar á aldrinum 15-70 ára í 19 daga frá 2. – 20. mars ár hvert. Á þessum tíma á hvorki að neyta matar né drykkjar frá kl. 6 að morgni til kl. 18 að kveldi. Undanþegnir föstunni eru sjúkir, mæður með börn á brjósti, ófrískar konur, konur með blæðingar, þeir sem vinna erfiðisvinnu og undir vissum kringumstæðum þeir sem eru á ferðalagi.

Lífshættir

Fæðuvenjur
Það ríkja engin sérstök boð eða bönn meðal bahá’ía hvað varðar fæðutegundir. Lögð er þó áhersla á hollustu grænmetis og ávaxta.

Föstur
Bahá’íar á aldrinum 15-70 ára fasta í 19 daga frá 2. – 20. mars ár hvert. Sjá Helgisiðir.

Hreinlæti
Mikil áhersla er lögð á hreinlæti. Bahá’íum er uppálagt að þvo sér reglulega, klæðast hreinum fötum og nota ilmvötn. Þeir mega hvorki drekka né baða sig úr óhreinu vatni og þá borða þeir ekki af sömu diskum og aðrir vegna smithættu.

Hreyfing
Bahá’íar eru hvattir til að hreyfa sig reglulega.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Bahá’íar neyta ekki áfengis eða vímuefna en hins vegar má nota áfengi og vímuefni sem hluta af læknismeðferð.

Reykingar
Bahá’íar eru hvattir til að halda sig frá reykingum vegna skaðsemi þeirra. Reykingar eru þó ekki bannaðar.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Fjölskyldan og fjölskyldubönd hafa mikla þýðingu fyrir bahá’ía.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Bahá’íar líta á líkamann sem musteri sálarinnar og því er þeim uppálagt að rækta heilsu sína. Ef bahá’íar veikjast er þeim skylt að snúa sér til færustu lækna. Í flestum tilvikum væri um að ræða hefðbundna læknismeðferð en bahá’íar viðurkenna einnig tilvist óhefðbundinna lækninga. Mæla þeir frekar með notkun ósamsettra lyfja en samsettra.

Orsakir sjúkdóma
Bahá’iar líta svo á að sjúkdómar séu afleiðing rangs lífsmynsturs, rangs mataræðis, ófullnægjandi hreinlætis, vegna smits eða af erfðafræðilegum ástæðum.

Getnaðarvarnir
Aðeins getnaðarvarnir sem hindra getnað eru leyfilegar. Hver og einn verður að ákveða með sjálfum sér hvað skal gera í þeim tilfellum þar sem ekki er vísindalega vitað hvort getnaðarvörnin grípi inn í atburðarás eftir getnað. Allt frá getnaði er litið á fóstrið sem einstakling með sál.

Fóstureyðingar
Bahá’íar eru á móti fóstureyðingum nema góð læknisfræðileg rök liggi að baki, t.d. ef líf móðurinnar er í hættu.

Meðganga
Á meðgöngu ber móður að fara vel með sig og er hún hvött til að biðja fyrir barninu.

Líffæraflutningar
Bahá’ íar eru ekki á móti líffæraflutningum.

Verkjameðferð
Bahá’íar eru ekki á móti verkjameðferð.

Blóðgjafir
Báhá’íar eru ekki á móti blóðgjöfum.

Krufningar
Trúarsamfélagið er ekki á móti krufningum en leggur áherslu &aacut e; að umgangast verði líkið með virðingu.

Snerting

Ekkert sérstakt er í trúarritum bahá’ía sem lýtur að snertingu. Þar sem bahá’íar koma frá mismunandi menningarsamfélögum má ætla, að það sem gildir fyrir íslenska bahá’ía varðandi snertingu gildi ekki endilega fyrir bahá’ía með annan menningarbakgrunn.

Samskipti

Sjúklingurinn kann að óska eftir því að lesið sé úr helgum ritum bahá’ía geti hann það ekki sjálfur.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Engar sérstakar óskir eru varðandi umönnun sjúklinga fram yfir það sem almennt gerist á heilbrigðisstofnunum. Gera þarf þó ráð fyrir að fjölskylda deyjandi sjúklings geti verið hjá honum eftir því sem kostur er.

Viðhorf bahá’ía til dauðans er að sálin flyst yfir á annað tilverustig þar sem hún heldur áfram að þroskast.

Bahá’íar gera gjarnan erfðaskrá, þar sem þeir taka m.a. fram hvernig standa eigi að útförinni. Óski sjúklingur þess, vitja fulltrúar svæðis- eða þjóðarráðs bahá’ía hans og aðstoða eftir þörfum.

Umhverfi

Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við bahá’ía sem lýtur að umhverfi.

Útför og greftrun

Svæðis- eða þjóðarráð bahá’ía sjá um útförina í samstarfi við útfararþjónustur. Athöfnin getur farið fram í heimahúsum, safnaðarhúsum eða kirkjum. Við útförina er farið með sérstaka greftrunarbæn. Bálför er bönnuð með öllu og á það einnig við um fóstur. Þær reglur gilda hjá bahá’íum að lík er ekki flutt í meira en einnar klukkustundar fjarlægð frá dánarstað.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda