Áverkar – Höfuð

Höfuðkúpubrot
Erfitt er að greina höfuðkúpubrot nema með röntgenmynd.

Hvað sérðu?
· Blæðing úr eyrum/nefi.
· Mar aftan við eyrun nokkrum tímum eftir slysið.
· Misstór sjáöldu.
· Tær vatnskenndur mænuvökvi lekur úr eyra eða nefi.
· Glóðarauga báðum megin nokkrum tímum eftir slysið.

Hvað gerirðu?
· Hringdu í Neyðarlínu (1-1-2).
· Fylgstu vel með meðvitund, öndun og blóðrás.
· Stöðvaðu blæðingu með því að þrýsta á sárabarmana umhverfis sárið með hreinni grisju.
· Skorðaðu höfuð og háls.

Heilaáverkar
Þegar mikið högg kemur á höfuðið, kastast heilinn til inni í höfuðkúpunni. Við heilahristing koma fram væg einkenni heilaáverka en alvarlegri einkenni geta bent til heilablæðingar.

Hvað sérðu?
· Breyting á meðvitund.
· Höfuðverkur.
· Ógleði og uppköst .
· Máttleysi, jafnvægisleysi eða lömun.
· Sjóntruflanir.
· Misstór sjáöldur.
· Krampi.

Hvað gerirðu?
· Fylgstu með meðvitund, öndun og blóðrás.
· Stöðvaðu ytri blæðingu.
· Skorðaðu höfuð og háls, hækkaðu aðeins undir höfði ef ekki er grunur um hálsáverka.
· Verði einkenna höfuðáverka vart innan tveggja sólarhringa eftir höggið skaltu leita læknishjálpar.

Börn og höfuðáverkar
Höfuðáverkar eru algengir hjá börnum. Líkur á höfuðáverkum eru meiri hjá börnum en fullorðnum jafnvel við minniháttar slys. Höfuð barna eru hlutfallslega stór og þung miðað við aðra líkamshluta. Þegar barn dettur lendir höfuð þess oftast fyrst og tekur höggið. Ekki bætir úr skák að lítil börn bera sjaldnast fyrir sig hendur þegar þau detta.

Ef höfuðið verður fyrir þungu höggi eða miklum hristingi getur blætt undir höfuðkúpuna. Það skapar þrýsting og þá er hætta á því að heilinn skaðist. Þó að flestir höfuðáverkar séu minniháttar þarf að huga að hættumerkjum.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands