Áverkar – Háls og hryggur

Höfuðáverkar eru jafnan vísbending um áverka á hrygg því að hryggnum er hætta búin ef höfuðið kastast skyndilega til.

Hvað sérðu?
• Sársauki við að hreyfa handleggi eða fætur.
• Tilfinningaleysi, dofi, máttleysi eða sviði í handleggjum eða fótum.
• Skert stjórn á þörmum og blöðru.
• Lömun á handleggjum eða fótum.
• Aflögun á hálsi og skakkt höfuð.

Hvað gerirðu ef langt er í aðstoð?
Spurðu þann slasaða:
• Ertu með verki? Við áverka á hálsi (hálsliði) leiðir sársauka út í upphandleggina, við áverka á efri hluta baksins (brjóstliði) fram í rifin og við áverka á mjóbakið niður í fæturna. Sársaukinn getur líkst „straum“.
• Getur þú hreyft fæturna? Biddu hann að þrýsta fætinum að hendinni á þér. Ef hann getur það ekki eða er mjög máttlaus gæti hann verið með áverka á hálsi eða hrygg.
• Getur þú hreyft fingurna? Geti hann það er það merki um að taugasímar séu heilir. Biddu hinn slasaða að kreista hönd þína. Sé grip hans kröftugt eru hryggmeiðsl ólíkleg.
• Ef grunur er um áverka á hálsi eða hrygg skorðaðu hinn slasaða og biddu hann að hreyfa sig ekki.
• Bíddu komu sjúkrabíls eða þyrlu því starfsfólkið þar hefur réttu þjálfunina og búnað til að flytja og meðhöndla hinn slasaða.
• Leiki grunur á því að einstaklingur sé með hryggáverka þarf hann að fara strax í hálskraga og verða skorðaður sem fyrst á bakbretti. 

Ef hjólreiðamaður er með hjálm á höfði þegar hann lendir í umferðarslysi á ekki að fjarlægja hjálminn en ef öndunarvegurinn er lokaður eða öndun óeðlileg gæti nauðsynlega þurft að fjarlægja hjálminn. Þá er best að reyna fjarlægja hjálminn varlega og halda höfðinu kyrru á meðan.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands