Áverkar á kvið

Áverkar á kvið geta verið af ýmsum toga. Högg á kvið getur valdið mari á undirliggjandi líffæri eða blæðingum. Slíkur áverki kallast lokaður áverki. Ef stungið er á kvið er talað um opinn áverka og þá eru líkur á að kviðarlíffærin verði fyrir skaða.

Innvortis blæðingar eru algengar eftir áverka/slys, jafnvel þó að í fyrstu komi engin einkenni fram. Allir sem lenda í hörðum árekstri eða bílveltu, þar sem teljandi skemmdir verða á ökutæki, verða fyrir bíl eða falla niður úr nokkurra metra hæð, eiga að fara í læknisskoðun. Í upphafi getur verið að sá slasaði sýni engin merki alvarlegs áverka, jafnvel ekki við ítarlega læknisskoðun. Að nokkrum tíma liðnum getur blæðing náð því marki að einkennin komi fram og þá getur sá slasaði verið í lífshættu. Ef viðkomandi er staddur á sjúkrahúsi getur verið mögulegt að meðhöndla hann, en sé hann í mikilli fjarlægð er voðinn vís.

 

Útiliggjandi líffæri

Hvað gerirðu?
• Leggðu dauðhreinsaðar umbúðir eða hreinan klút yfir útiliggjandi líffæri.
• Helltu hreinu vatni yfir umbúðirnar til að fyrirbyggja ofþornun. Settu svo þurrar umbúðir yfir röku umbúðirnar.
• Leitaðu læknishjálpar.

Varúð: Ekki
• Reyna að koma útiliggjandi líffærum aftur inn í kviðarholið. Það gæti orsakað sýkingu eða skaddað garnirnar.
• Búa um sárið með einhverju sem gæti grotnað sundur ef það blotnar.
• Vefja þétt um líffærin.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands