Augn- og eyrnalyf

Augn- og eyrnalyf

Augn- og eyrnalyf eru öll framleidd sýklafrí (dauðhreinsuð) og haldast þannig þar til búið er að opna umbúðirnar. Þess vegna er afar nauðsynlegt að fara mjög hreinlega með glös sem búið er að opna og gæta þess að óhreinindi komist ekki að lyfinu. Af þessum ástæðum á ekki að nota lyfjapakkningu sem hefur verið opin lengur en í einn mánuð. Eftir það er orðin mikil hætta á að óhreinindi hafi komist í glasið og varasamt að nota lyfið. Ráðlegt er að geyma opnuð glös við stofuhita til að minnka hitamismun milli auga/eyra og lyfs.

Aukaverkanir af þessum lyfjum eru venjulega litlar og þá aðallega bundnar við augun og eyrun. Sumir augndropar geta þó haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér, t.d. steradropar (gláka, skýjamyndun). Varast ber að nota of mikið af lyfinu í einu því þá er hætta á að það fari út í æðakerfið og hafi óæskileg áhrif á líkamann. Stórir skammtar flýta ekki fyrir bata heldur auka líkur á aukaverkunum. Sum augnlyfjanna hafa áhrif á sjónina, t.d. augnsmyrsl, en þau mynda fitubrák framan á auganu fyrst eftir að þau eru borin í. Þess vegna eru augnsmyrsl oft borin í augun fyrir nóttina en samsvarandi augndropar notaðir að degi til. Dæmi um þetta eru Isopto Fenicol dropar og Chloromycetin smyrsl. Rotvörn í augndropum getur skemmt augnlinsur. Þá skal ávallt geyma þessi lyf þar sem börn ná ekki til.