Astmalyf

Astmalyf

Við astma eru notuð ýmis lyf og hafa þau mismunandi áhrif á lungnaberkjurnar. Þau eiga það sameiginlegt að víkka út eða draga úr spennu eða bólgu í lungnaberkjunum þannig að loft hafi greiðari aðgang að og frá lungunum. Þessum lyfjum er raðað eftir eiginleikum þeirra.

Berkjuvíkkandi lyf

Streituhormónið adrenalín víkkar út berkjur og örvar hjartslátt með því að setjast á sérstaka viðtaka í frumum þessara líffæra. Ýmis önnur efni eða lyf geta sest á þessa viðtaka og valdið sams konar örvun. Það hefur komið í ljós að viðtakarnir í hjarta og lungum eru ekki eins og hafa þeir verið nefndir beta-1 og beta-2 viðtakar. Beta-1 viðtakar örva hjartslátt og beta-2 viðtakar valda útvíkkun á lungnaberkjunum og auðvelda öndunina. Reynt hefur verið að búa til astmalyf sem eingöngu örva beta-2 viðtaka til að komast hjá áhrifum á hjartað með beta-1 örvun. Þetta hefur tekist nú síðustu árin og eru þessi lyf notuð bæði í astmakasti og til að koma í veg fyrir astmakast. Þessi lyf geta haft veruleg áhrif á hjartað ef þau eru notuð í óhófi og of stórir skammtar af þeim geta verið hættulegir.

Barksterar (bólgueyðandi)

Nú síðustu ár hafa barksterar sem innúðalyf verið notaðir með góðum árangri til að koma í veg fyrir astma. Þessi lyf minnka bólgu í slímhúð lungnaberkjanna og gera þar með öndunina léttari. Algeng aukaverkun er sveppasýking í munni og hálsi ásamt hæsi. Því er ráðlegt að skola munn og háls með vatni eftir notkun þessarra lyfja.

Teófýllínlyf

Þessi lyf eru bæði notuð í astmakasti (stungulyf) og til að koma í veg fyrir astmakast. Lyfin slaka á vöðvum berkjugreinanna og víkka þannig lungnaberkjurnar og gera þar með öndun auðveldari. Þar sem bilið milli þess skammts sem talinn er lækna og þess skammts sem veldur hættulegum aukaverkunum er frekar stutt, þarf stundum að mæla magn lyfsins í blóði til að ákveða skammtastærð.

Lomudal

Þetta lyf er notað til að koma í veg fyrir astmaköst ef astminn stafar af ofnæmi. Það hindrar myndun histamíns sem kemur af stað ofnæmissvörun. Lyfið er gagnslaust í astmaköstum.

Atrovent

Þetta er lyf af flokki andkólinergra lyfja sem víkka berkjur og eru einkum notuð af þeim sem eru með langvinna lungnasjúkdóma svo sem berkjubólgu. Lyfið þolist yfirleitt mjög vel en getur valdið munnþurrki og særindum í hálsi.