Ástin

„VIÐ ERUM HÆTT AÐ ELSKA HVORT ANNAГ!

Þetta er setning sem prestar og aðrir er taka á móti hjónum í viðtöl vegna hjónaerfiðleika fá oft að heyra. Mörg hjón hér á landi lenda í erfiðleikum í sínu hjónabandi á lífsleiðinni eins og tölur um hjónaskilnaði bera vitni um. Það eru ekki reyndar ekki öll hjón sem skilja þó að erfiðleikarnir banki á dyrnar. Þannig að tölur um fjölda hjónaskilnaða segja ekki alla söguna. Mörgum tekst að vinna úr sínum erfiðleikum og nota reynsluna til þess að styrkjast í hjónabandinu. Svo eru það enn aðrir sem láta reka og gera ekkert til að breyta ástandinu, en reyna að sætta sig við tilveru sem e.t.v. ekki er hægt að ætlast til að nokkur maður geti sætt sig við. Það er einhvern veginn svo miklu erfiðara að leita sér aðstoðar ef sálin brotnar en ef eitthvað í líkamanum brotnar. En þó er mikil vakning núna hjá hjónum og sambúðarfólki og fjöldinn allur hefur gert sér grein fyrir því að það er ekkert skammarlegt við það að leita sér hjálpar þegar gefur á bátinn í hjónalífinu.

„Við erum hætt að elska hvort annað“! Þessi orð fela í sér mikla sorg, fela í sér skipbrot. Parið, sem eitt sinn hittist og varð ástfangið upp fyrir haus, því pari finnst einhverra hluta vegna að ástarneistinn sé kulnaður, að ekkert sé eftir af þeim loga sem forðum brann þeirra í milli. Og þá vaknar óhjákvæmilega spurningin „hvað hefur gerst, af hverju er svo komið fyrir ástinni sem eitt sinn var?“ Svörin við þeirri spurningu eru jafn mörg og misjöfn eins og hjónin sem glíma við hana. Oftar en ekki býr löng atburðarás á bak við þessi orð um hina glötuðu ást, atburðarás sem smátt og smátt hefur brotið niður parið. Alltof margar stundir hafa horfið í annríki fábreyttra daga. Tíminn hefur liðið við óteljandi verkefni, samband hins ástfangna pars hefur umbreyst í yfirborðslega skýrslugerð vinnufélaga sem tekið hafa að sér rekstur heimilis en hafa þar fyrir utan lítil samskipti. Stundum blandast áfengisvandi í spilið, stundum fjárhagserfiðleikar, langur vinnudagur, lág laun, stress og streita. Við höfum málað okkur út í horn í þjóðfélagi sem oft er fjölskyldufjandsamlegt. Afleiðingin liggur fyrir. „Dropinn holar steininn“ segir gamalt spakmæli sem í dag gæti hljóðað einhvern veginn svona „samskiptaleysið holar hjónabandið“.

Hvernig á ástin að vera fyrir hendi þegar dagarnir líða eins og hér var lýst? Hún fær ekkert rými, enga næringu, ekkert ljós og engan yl. Hún er því dæmd til að fölna og deyja. Með henni deyja draumarnir sem parið átti, vermireiturinn sem börnin áttu. Svo á skólinn að bjarga því sem bjargað verður, að aga börnin og veita þeim skjól og styrk! Oft mætti skipta út orðunum „Við erum hætt að elska hvort annað“, og setja í þeirra stað eftirfarandi „Við gleymdum að gefa hvort öðru tíma“. Og það er of seint að leita sér lækninga þegar sjúklingurinn er látinn, þegar tíminn er hlaupinn frá okkur, þegar ástin er dauð. Gæti verið að við höfum forgangsraðað vitlaust hjá okkur Íslendingar, að hin hörðu gildi hafi rænt okkur tímanum sem við gátum nýtt til að eiga með hvort öðru og börnunum okkar? Gæti verið að það sé kominn tími til að breyta um forgangsröð? Því þarf auðvitað hvert par að svara fyrir sig. En þá spurningu þarf þjóðfélagið líka allt að takast á við, áður en dropinn holar steininn endanlega, áður en rás atburðanna tekur af okkur völdin. Margt er til ráða. Það er hægt að leita sér ráðgjafar og stuðnings áður en í óefni er komið eins og ég sagði hérna áðan. Það er nefnilega hægt að snúa við á braut erfiðleika ef báðir aðilar vilja horfast í augu við vandann. Og það er hægt að bægja hinum hörðu gildum frá í samfélaginu okkar og láta umhyggjuna fyrir hag fjölskyldunnar ráða ferðinni.