Ást og aðgát

Að verða þunguð eða ekki…..

Hugmyndin að baki þessa texta er ekki að fræða þig í smáatriðum um getnaðarvarnir. Tilgangurinn er öllu heldur sá að lýsa ýmsum aðferðum við getnaðarvarnir svo að þú getir áttað þig á þeim möguleikum sem eru í boði. Síðan er þér í sjálfsvald sett, ef til vill í samráði við lækni þinn, að velja þá aðferð sem þú kýst að nota.

Í upphafi er rétt að svara tveimur spurningum: Hvaða líffæri koma við sögu þegar frjóvgun verður og hvað á sér í raun stað þegar kona verður þunguð?

Hjá konum eru það leggöngin, legið, eggjaleiðararnir og eggjastokkarnir. Þegar stúlka er milli 10 og 16 ára aldurs byrjar hún að hafa blæðingar. Það er vísbending um að hún sé að byrja að hafa egglos og að hún geti þá orðið barnshafandi. Frá og með þeirri stundu gengur líkami hennar gegnum það sem kallast tíðahringur.
Hringurinn hefst með tíðablæðingum. Þegar tíðablæðingar eru afstaðnar byrja nokkur egg í öðrum eggjastokknum að þroskast. Um þau myndast litlar blöðrur og í þeim fer að myndast kynhormónið estrógen. Mitt á milli tveggja tíðablæðinga, þegar tíðahringurinn er um það bil hálfnaður, springur blaðran umhverfis það egg sem náð hefur mestum þroska.
Eggið losnar úr blöðrunni, berst upp í eggjaleiðarann og færist hægt og rólega í átt til legsins. Á þessu skeiði getur frjóvgun orðið.

Þar sem eggið var í eggjastokknum myndast lítil, gulleit blaðra, svokallað gulbú. Í gulbúinu myndast hormónið prógesterón sem orsakar breytingu á slímhúð legsins þannig að hún getur tekið við egginu að lokinni frjóvgun. Ef ekki verður af frjóvgun sundrast slímhúðin um það bil 14 dögum eftir egglos. Það lýsir sér með tíðablæðingum þar sem leifar slímhúðarinnar og blóð berast út um leggöngin.

Sáðfrumur myndast í eistum karlmanna. Þær berast upp eftir sáðrásinni og blandast sáðvökvanum sem kemur úr sáðblöðrunum tveimur og blöðruhálskirtlinum.
Þegar sáðlát verður hjá karlmanninum losnar sáðvökvi ásamt sáðfrumum. Í leggöngunum synda frumurnar að leghálsinum og þunnfljótandi slímið sem myndast þar auðveldar þeim að komast áfram. Þær sáðfrumur sem reynast þrautseigastar halda áfram upp legið og stefna í átt til eggjaleiðaranna. Í eggjaleiðurunum hitta þær fyrir eggfrumuna sem er á leið sinni í átt til legsins.
Aðeins ein sáðfruma getur komist gegnum hindranir eggsins. Frjóvgun verður og hið frjóvgaða egg býr um sig í slímhúð legsins. Konan er orðin þunguð og blæðingar hætta.

Sem betur fer er það oft ætlunin og verða þá allir ánægðir. Því miður getur þungun líka orðið án þess að vilji hafi verið fyrir henni. Ótímabær þungun getur leitt af sér fjölda vandamála. Viljir þú komast hjá ótímabærri þungun en samt lifa kynlífi kemstu ekki hjá því að nota einhverja þeirra aðferða til getnaðarvarnar sem lýst er hér á eftir. Ef þú ert í vafa um eitthvert atriði skaltu ráðfæra þig við lækninn þinn.

Smokkurinn

Smokkurinn er ein elsta getnaðarvörn mannsins og jafnframt sú vörn sem margt ungt fólk nýtir sér fyrst. Hann er poki úr þunnu gúmmíi sem smeygt er upp á liminn og er ætlað að safna saman sæðinu þegar sáðlát verður. Þannig er komið í veg fyrir að sæðið berist í líkama konunnar.

Smokknum er rúllað upp á stinnan liminn fyrir samfarir. Gættu vel að því að honum hafi verið komið fyrir á réttan hátt (fylgdu leiðbeiningum um notkun) og sjáðu til þess að hann haldist þar meðan á samförum stendur. Eftir að karlmaðurinn hefur haft sáðlát verður hann að grípa um smokkinn við rót limsins og hindra að smokkurinn detti af og sæðið leki úr honum. Því næst dregur hann liminn varlega úr leggöngunum, tekur smokkinn af, bindur helst hnút á hann og hendir honum. Ef smokkur er notaður á réttan hátt veitir hann um 90% öryggi. Að auki hefur hann þann kost að veita umtalsverða vörn gegn alnæmi, lekanda og öðrum kynsjúkdómum svo sem chlamydiu og kynfæravörtum. Smokkinn skal ávallt nota ásamt öðrum getnaðarvörnum þegar þörf er á vörn gegn kynsjúkdómum.
Fáanlegir eru smokkar fyrir konur – Femidom. Smokkurinn er poki úr þunnu teygjanlegu gúmmíi sen hylur leggöngin að innan við samfarir. Þessi getnaðarvörn er ekki mikið notuð hérlendis.

Smokkar fást í söluturnum, stórverslunum, bensínstöðvum og í lyfjabúðum. Þeir fást einnig á mörgum skemmti- og veitingastöðum. Auðvelt er að verða sér úti um þá og getur oft komið sér vel að hafa þá við höndina. Það á jafnt við um pilta og stúlkur og um konur og karla.

Hettan

Hettan er kringlótt skál úr gúmmíi með fjaðrandi hring í jaðrinum. Hringurinn heldur hettunni ávallt útspenntri. Ef hettunni er rétt komið fyrir hvelfist hún yfir leghálsinn og hindrar að sáðfrumurnar komist upp í legið.

Vegna þess að leggöngin og leghálsinn eru ekki eins hjá öllum konum verður að máta hvaða stærð hettunnar hver kona þarf. Læknirinn annast mátunina og síðan fær konan lyfseðil með stærðarnúmeri hettunnar. Við framvísun miðans í apóteki er tryggt að hún fær þá hettu sem passar henni.

Ef nauðsynlegt þykir sýnir læknirinn konunni hvernig koma á hettunni fyrir. Hettan er öruggust ef hún er notuð með sæðisdrepandi kremi. Það er mikill kostur að hægt er að setja upp hettuna með góðum fyrirvara fyrir samfarir. Eftir samfarir á hettan að vera óhreyfð í minnst 6-8 klukkustundir svo að tryggt sé að sæðisdrepandi kremið hafi tilætluð áhrif.

Öryggið er meira en 90% ef hettan er notuð með sæðisdrepandi kremi.

Pillan

Tíðahringnum er stjórnað frá heiladinglinum fyrir tilstilli tveggja hormóna. Hið fyrra örvar þroskun eggsins og framleiðslu estrógens í eggjastokkunum.

Þegar styrkur estrógens í blóði er orðinn hæfilegur hættir heiladingullinn að senda frá sér hormónið sem örvar eggþroskann. Í staðinn framleiðir hann annað hormón sem veldur egglosi og framleiðsla prógestagens hefst.

Þegar pillan er tekin eru bæði estrógen og prógesterón til staðar frá upphafi tíðahrings og þess vegna sendir heiladingullinn ekki hormón sín frá sér. Það verður til þess að egg þroskast ekki og ekkert egglos verður konan getur ekki orðið þunguð.

Í pillunni er blanda tveggja hormóna, estrógens og gestagens. Gestagenið líkist prógesteróni líkamans. Estrógenið er hið sama í öllum gerðum pillunnar, en magnið er mismunandi frá 20 til 50 míkrógrömm. Gestagenið er mismunandi eftir pillutegundum. Nýjustu gerðir pillunnar innihalda mjög lítið af hormónum og hafa því lítil áhrif á hormónajafnvægi líkamans.

Pillan fæst venjulega í pakkningum með 21 töflu. Milli hverra skammta verður 7 daga hlé á töku taflnanna. Í pakkningum með 22 töflum verður 6 daga hlé milli skammta. Með pakkningum sem innihalda 28 töflur er ekkert hlé tekið þar sem 7 töflur innihalda ekkert hormón – svokallaðar lyfleysutöflur. Pillan verkar frá 1. degi og veitir einnig vörn gegn þungun í pilluhléinu.

Samsetning pillunar getur verið tvenns konar, einfasa og fleirfasa. Í einfasa pillum er alltaf sama magn estrógens og gestagens í öllum skammtinum. Annaðhvort er 21 tafla eða 28 töflur í hverjum skammti. Fleirfasa pillur innihalda breytilegt magn estrógens og gestagens. Í hverjum skammti er 21 tafla, 22 töflur eða 28 töflur. Mjög mikilvægt er að taka fleirfasa pillur inn í réttri röð samkvæmt leiðbeiningum á hverri skammtaþynnu.

Óæskilegar aukaverkanir sem fylgja nýjum lágskammtapillum eru fáar og smávægilegar. Í upphafi getur orðið vart við spennu í brjóstum, ógleði, höfuðverk, þyngdaraukningu (vökvasöfnun) og milliblæðingar. Oft hverfa þessar aukaverkanir innan þriggja mánaða þegar líkaminn hefur vanist hormónunum. Ef einkennin hverfa ekki er ráð að skipta um pillutegund sem gæti þolast betur. Það hentar ekki öllum konum að nota pilluna. Konur sem hafa fengið blóðtappa eða þjást af lifrarsjúkdómi ættu ekki að nota pilluna og heldur ekki konur sem reykja og eru jafnframt eldri en 35 ára.

Á móti kemur að það hefur ýmsa kosti að nota getnaðarvarnarpillur. Hættan á móðurlífsbólgum er helmingi minni en ef notaðar eru aðrar aðferðir án hormóna. Pillan dregur úr hættu á krabbameini í legholi og eggjastokkum og minnkar einnig líkur á góðkynja hnútum í brjóstum. Auk þessa verða blæðingar kvenna sem nota pilluna reglulegri en áður og flestar finna fyrir minni verkjum og óþægindum meðan á blæðingum stendur. Pillan getur einnig haft jákvæð áhrif á húðina. Um 15 til 20% kvenna sem nota pilluna þyngjast um rúm tvö kíló, en sami fjöldi kvenna missir fleiri en tvö kíló. Um 60 til 70% kvenna heldur þyngd sinni eins og fyrr (+/- 2 kg). Ekki hefur komið fram að ein pillutegund hafi meiri eða minni áhrif á þyngd en önnur tegund.

Ef pillan er notuð rétt er hún mjög örugg getnaðarvörn (99,9%). Pillan er lyfseðilsskyld og fæst í apótekum.

Pillan er mjög örugg getnaðarvarnaraðferð gegn óæskilegri þungun, en hún verndar ekki gegn alnæmi, lekanda eð a öðrum kynsjúkdómum. Ef þú ert ekki í föstu sambandi er því mikilvægt að muna líka eftir smokknum. Ef hann er notaður á réttan hátt veitir hann talsvert öryggi fyrir því að þú verðir ekki fyrir smiti.

Getnaðarvarnapilla án estrógens

Estrógenlaus pilla inniheldur aðeins eitt hormón, gestagen. Magn hormónsins er um það bil helmingi minna en í samsettum pillum, samt nægir það til þess að hindra egglos. Öryggið gegn þungun er því álíka mikið og þegar teknar eru pillur sem innihalda einnig estrógen.

Taka skal estrógenlausa pillu daglega án hlés. Ráðlegt er að taka pillurnar alltaf inn á sama tíma dags.

Estrógenlausa pillu má einnig taka þótt kona hafi barn á brjósti þar eð pillan hefur hvorki áhrif á magn né gæði brjóstamjólkurinnar.

Blæðingar geta verið óreglulegar í fyrstu eftir að kona byrjar að taka estrógenlausa pillu. Á móti kemur að blæðingarnar koma til með að minnka og verða sjaldnar en á mánaðarfresti. Aukaverkanir vegna hormónsins eru þekktar en þær líða oftast hjá. Þar sem pillan kemur í veg fyrir egglos getur estrógenlaus pilla oft dregið úr tíðaverkjum.

Öryggi estrógenlausrar pillu er það sama og samsettra pilla, hún veitir 99,9% öryggi gegn þungun.

Estrógenlaus pilla er lyfseðilsskyld og fæst í apótekum.

Mínípillur

Mínípillur innihalda aðeins lítið magn af gestagenhormóni. Þær koma í veg fyrir þungun með því að hafa áhrif á slímið í leghálsinum þannig að það verður svo seigt að sáðfrumur komast ekki gegnum það. Þar að auki breytist legslíman þannig að frjóvgað egg getur ekki tekið sér bólfestu í henni. Aðeins er komið í veg fyrir egglos að vissu marki.

Taka á pillurnar daglega án hlés. Mikilvægt er að taka þær alltaf á sama tíma dags vegna þess að áhrifin á leghálsslímið hverfa líði meira en 27 klukkustundir milli pilla.

Þar sem mínípillur innihalda ekki estrógen mega konur taka þær þótt þær séu með barn á brjósti. Mínípillur hafa oft í för með sér óreglulegar blæðingar og þar sem ekki er komið til fulls í veg fyrir egglos veitir þessi getnaðarvörn ekki sama öryggi og aðrar hormónagetnaðarvarnir. Skammvinnar hormónaaukaverkanir geta komið fyrir.

Mínípillur eru örlítið óöruggari en aðrar pillur og veita um 98% öryggi.

Mínípillur eru lyfseðilsskyldar og fást í apótekum.

Hormónastafurinn

Hormónastafurinn er grannur stafur á stærð við tannstöngul sem inniheldur gestagenhormón. Hann er 4 cm langur og 2 mm í þvermál. Stafurinn gefur frá sér litla skammta af hormóninu sem hindrar egglos og gerir leghálsslímið seigt þannig að sáðfrumur komast ekki gegnum það upp í legið.

Læknir kemur hormónastafnum fyrir grunnt undir húðinni á innanverðum upphandleggnum. Hann byrjar á því að staðdeyfa svæðið þar sem stafurinn kemur til með að vera. Sprautunál er notuð til að koma stafnum fyrir á sínum stað. Plástur er settur á handlegginn yfir stafinn og hafður þar í einn sólarhring. Hormónastafurinn sést ekki en hægt er að finna fyrir honum með þreifingu. Það tekur aðeins tvær mínútur að setja stafinn inn undir húðina eða fjarlægja hann.

Hormónastafur hentar konum sem vilja þægilega getnaðarvörn með mikið öryggi. Stafinn má hafa í allt að þrjú ár en að þeim tíma loknum þarf að láta lækni fjarlægja hann. Þegar stafur hefur verið fjarlægður, verður konan fljótt frjó á ný. Þetta á við hvort sem stafurinn er fjarlægður eftir þrjú ár eða fyrr. Hormónastafur dregur oft úr tíðaverkjum.

Notkun hormónastafsins hefur oft í för með sér óreglulegar blæðingar og hjá um 20% kvenna stöðvast blæðingar alveg. Hormónaukaverkanir eru þekktar, en þær eru oftast skammvinnar.

Hormónastafurinn er lyfseðilsskyldur og fæst í apótekum.

Lykkjan

Lykkjan er margvísleg að lögun, en í nær öllum tilvikum er hún stafur úr plasti og um hann er snúinn, grannur þráður úr kopar.

Læknirinn setur lykkjuna upp í gegnum leghálsinn og kemur henni fyrir í leginu. Þar hefur hún meðal annars þau áhrif á slímhúðina að eggið nær ekki festu þar. Í staðinn sundrast það og hverfur við næstu tíðablæðingar.

Lykkjan hentar best þeim konum sem átt hafa barn því að ungar stúlkur sem nota lykkjuna fá oftar óreglulegar blæðingar og verki. Lykkjan er heldur ekki heppileg fyrir konur sem hættir til að fá móðurlífsbólgur.

Á lykkjunni er þráður sem liggur út úr leghálsinum. Hann gerir konunni kleift að kanna hvort lykkjan sé á sínum stað. Þráðurinn er einnig notaður til þess að draga lykkjuna út, t.d. þegar skipta þarf um lykkju (á 3ja til 5 ára fresti).

Því geta fylgt nokkur óþægindi þegar lykkjan er sett upp, en fyrir utan örlítið meiri blæðingar veldur lykkjan sjaldan vandræðum hjá þeim sem nota hana. Lykkjan veitir ekki jafn mikið öryggi og getnaðarvarnarpillur, en öryggið er þó 96-99%.

Ef kona með lykkju verður þrátt fyrir allt þunguð er best að fjarlægja lykkjuna hvort sem konan heldur áfram meðgöngunni eða gengst undir fóstureyðingu.

Lykkjur eru mismunandi að stærð og lögun og því skaltu ráðfæra þig við lækninn hvaða lykkju þú átt að nota. Læknar afgreiða lykkjuna handa konum á læknastofum eða heilsugæslustöðvum.

Hormónalykkja

Hormónalykkjan er lykkja sem er með lítinn sívalning eða hólk með gestagenhormóni.

Læknir setur lykkjuna upp í gegnum leghálsinn inn í legið. Þar hefur lykkjan áhrif á legslímuna. Auk þess veldur gestagenið sem seytlar úr lykkjunni því að slímið í leghálsinum verður svo seigt að sáðfrumur eiga erfitt með að komast í gegnum það.

Hormónalykkja hentar einkum konum sem hafa fætt barn.

Þráður er festur við lykkjuna og hann hangir niður í gegnum leghálsinn og niður í leggöngin. Konan getur fylgst með hvort lykkjan er á sínum stað með því að þreifa eftir þræðinum með fingrunum. Þráðurinn er einnig notaður þegar fjarlægja á lykkjuna. Hún má vera í leginu í allt að fimm ár, en þá er hún tekin og ný sett upp í staðinn.

Það getur valdið svolitlum óþægindum þegar lykkjan er sett upp. Að frátöldum smáblæðingum fyrst á eftir og hugsanlegum aukaverkunum sem tengjast hormóninu veldur hormónalykkjan ekki óþægindum hjá þeim sem nota hana. Flestar konur fá óreglulegar blæðingar fyrstu sex mánuðina eftir uppsetningu.

Öryggi þessarar lykkju er meira en þeirra sem innihalda ekki hormón. Þessi getnaðarvarnaraðferð verður oftast til þess að blóðmagnið minnkar og hentar því vel konum sem hafa kröftugar og miklar tíðablæðingar sem standa lengi. Þar að auki getur hormónalykkja dregið úr tíðaverkjum.

Gagnstætt venjulegum lykkum er hormónalykkjan lyfseðilsskyld. Hún fæst í apótekum.

Ófrjósemisaðgerð

Hjá konum felst ófrjósemisaðgerð í því að bundið eða brennt er fyrir eggjaleiðarana eða þeim lokað með klemmu. Þannig má koma í veg fyrir að eggið og sáðfrumurnar mætist. Konan hefur blæðingar eins og áður og ekkert annað breytist. Í fáeinum tilvikum geta konur orðið barnshafandi (um það bil 1–2 af 1000), meðal annars vegna þess að eggjaleiðarar vaxa saman á ný. Það gerist þó nær alltaf áður en ár er liðið frá aðgerðinni.
Ófrjósemisaðgerð er mun minni aðgerð hjá körlum en konum og þeir þurfa sjaldnast að leggjast inn á sjúkrahús. Gerður er lítill skurður á hvorri hlið pungsins og lykkja af sáðrásunum, sem liggja rétt undir húðinni, er dregin út um skurðinn. Þá er bundið um rásirnar á tveimur stöðum og klippt á milli. Ekkert er hreyft við eistunum og því helst hormóna- og sáðfrumumyndun óbreytt. Sæðið lítur eins út við sáðlát því að meginhluti þess er sáðvökvi sem kemur úr kirtlum sem eru ofar í kviðarholinu.

Ófrjósemisaðgerð er þess eðlis að ekki á að gera hana nema fólk sé alveg viss um hvað það vill. Að auki er aðgerðin ekki gerð á fólki yngra en 25 ára.

Það kemur þó fyrir að fólk óskar þess að verða frjósamt á ný. Hægt er í vissum tilvikum að koma til móts við óskir fólks með því að tengja rofnu hlutana saman á nýjan leik en þetta tekst þó ekki nærri því alltaf.

Neyðargetnaðarvörn

Hvað er til ráða ef gleymst hefur að nota getnaðarvarnir eða smokkurinn hefur rifnað? Hægt er að grípa til tveggja ráða til þess að koma í veg fyrir þungun.

Hið fyrra er að taka nokkrar getnaðarvarnarpillur sem innihalda stóra hormónaskammta og verður það að gerast innan 48 klst. frá samförum. Er þetta kallað neyðargetnaðarvörn. Líta verður á meðferðina sem neyðarúrræði þar sem ekki er víst að takist að koma í veg fyrir þungun og svo stór skammtur getur haft í för með sér nokkrar aukaverkanir.

Ef neyðargetnaðarvarnapillur hafa verið notaðar er góð regla að gera þungunarpróf einum mánuði eftir inntökuna til að fullvissa sig um að ekki hafi orðið þungun.

Neyðargetnaðarvarnarpilluna er hægt að kaupa í apótekum án lyfseðils en mælst er með því að lyfjafræðingur veiti leiðbeiningar um notkun lyfsins.

Neyðarlykkja

Hitt ráðið sem grípa má til er að biðja lækninn um að setja upp lykkju innan sex daga frá því að samfarir áttu sér stað þar sem ónóg aðgát var viðhöfð. Hafi egg frjóvgast, kemur lykkjan í veg fyrir að það geti búið um sig í slímhú&eth ; legsins.

Birt með góðfúslegu leyfi Organon

Þessi texti er fenginn úr bæklingnum Ást og aðgát sem gefinn var út af Organon.