Árátta og þráhyggja

Árátta og þráhyggja
Um áráttuhugsun og þráhyggju er það að segja að algengt er að furðulegustu hugsanir skjóti upp kollinum hjá fólki. Stundum eru þetta hugsanir sem því finnst óviðeigandi, hættulegar eða dónalegar. Þetta geta verið hugsanir um að meiða einhvern, skaða eða jafnvel drepa. Yfirleitt veita menn þessu samt litla athygli og láta hugsanirnar ekki hafa áhrif á sig. Hjá sumum þróast þetta hins vegar í þá átt að þeim finnst þeir þurfa stöðugt að reyna halda aftur af þessum hugsunum og koma í veg fyrir að það sem í þeim felst verði að veruleika. Fólk áttar sig á að þessar hugsanir eru alls ekki um það sem það óskar sér að gerist en er samt sem áður hrætt við að svo sé. Sumir hætta að þora að aka bíl þar sem þeim finnst þeir muni aka yfir á rangan vegarhelming eða óttast að þeir hafi ekið á einhvern án þess að taka eftir því. Þetta er kallað þráhyggja.

Handþvottur er nokkuð algeng árátta sem ætlað er að bægja burt óþægilegum þráhyggjuhugsunum.

Vandamálið getur líka komið fram með þeim hætti að manni finnst maður þurfa stöðugt að þvo sér eða forðast óhreinindi, hegðun sem er dæmi um áráttu. Þótt fólk geri sér yfirleitt alltaf grein fyrir því að áhyggjurnar og hegðunin sé ástæðulaus finnst því að það verði engu að síður að láta undan knýjandi þörf til þess að bregðast við eins og hætta sé á ferðum.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að slíkt fólk er alls ekki að missa vitið. Hugsanirnar eru alls ekki merki um neitt slíkt. Þær benda heldur ekki til neinnar sérstakrar löngunar til að fremja óhæfuverk. Vandinn er að þeir sem eiga við þráhyggjuhugsanir að stríða taka þær svo bókstaflega. Það er því erfitt og tímafrekt að lifa með áráttu og þráhyggju. Viljinn einn nægir oftast ekki til að losna úr viðjunum. Sem betur fer er hins vegar til ýmiss konar meðferð við áráttu og þráhyggju. Meðal annars er þar um að ræða sálfræðilega meðferð sem skilar mjög góðum árangri.

Umfjöllun þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ