Alþjóðlegur beinverndardagur

Í dag, föstudaginn 20. október 2000, er alþjóðlegur beinverndardagur. Markmiðið með alþjóðlegum beinverndardegi er að vekja athygli almennings og stjórnvalda á hinum útbreidda en þögla sjúkdómi beinþynningu sem er vaxandi vandamál og var aðeins viðurkenndur sem sjúkdómur á síðasta áratug. Hann hefur verið nefndur hinn þögli faraldur. Þögull vegna þess að hans verður oftast ekki vart fyrr en brotastigi er náð. Með brotastigi er átt við að beinin eru orðin svo stökk og viðkvæm að þau geta brotnað við minnsta áverka. Beinþynning verður án efa eitt stærsta heilsufarsvandamál 21. aldarinnar því beinbrotum hefur fjölgað mikið á síðasta áratug og líkur benda til þess að þeim muni fjölga enn á komandi árum. Sjúkdómurinn er kallaður faraldur vegna þess hve útbreiddur hann er. Fleiri og fleiri munu greinast með beinþynningu á næstu árum og áratugum eftir því sem fjöldi aldraðra eykst, en hættan á beinþynningu eykst með auknum aldri.

Slagorð beinverndardagsins er: „fjárfestu í beinum” eða „invest in your bones” og að þessu sinni leggur Beinvernd áherslu á að ná til unga fólksins. Allir nemendur í 8. bekk grunnskólans fá bækling, Hollusta styrkir bein, ásamt spurningablaði um mjólkina og beinin sem hvatningu til að huga strax að beinheilsunni á unga aldri. Bæklingurinn er gefinn út af Beinvernd og Markaðsnefnd íslenska mjólkuriðnaðarins, sem er styrktaraðili Beinverndar.

Brýnt er, að nemendur séu upplýstir um það á unglingsárum, þegar líkaminn er að taka út hvað mestan vöxt og þroska, hve mikilvægt það er að líkaminn fái næga og rétta næringu ásamt hreyfingu. Í ljós hefur komið, að mataræði versnar oft á unglingsárum, einmitt á þeim tíma sem við „leggjum inn” beinmassa til framtíðar, ef svo má að orði komast. Á þessum árum fara unglingar einnig að hreyfa sig minna, en brottfall úr íþróttum er hvað mest þegar komið er á unglingsárin. Ef við náum ekki að byggja upp beinmassa höfum við lítið (lítinn beinmassa) „að taka út” síðar á ævinni. Munum að bein eru „bein fjárfesting”! En hugum nú aðeins að beinum og beinþynningu.

Beinþynning

Beinin eru lifandi vefur sem inniheldur kalk og er í stöðugri endurbyggingu, þ.e. niðurbrot og nýmyndun eiga sér stað, enda þótt fullum vexti sé náð. Þar eru að verki bæði beinmyndunarfrumur (osteoblastar) og beinúrátur (osteoclastar). Á aldrinum milli 20-40 ára er jafnvægi þarna á milli og beinmagnið helst stöðugt. Beinmassinn er mestur á þessum aldri. Röskun á jafnvægi beinmyndunar og beinniðurbrots veldur því að beinvefurinn rýrnar og það ástand skapast sem við köllum beinþynningu. Við beinþynningu þynnist hin harða og þétta skurn beinanna og frauðbeinið sem fyllir hol þeirra gisnar. Við þetta minnkar styrkur beinanna, þau verða stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak.

Beinþynning er mjög útbreiddur sjúkdómur, milljónir manna um allan heim eru haldnir þessum sjúkdómi. Flestir vita ekki að þeir eru með sjúkdóminn því hann er einkennalaus uns beinin eru orðin svo stökk og viðkvæm, að þau geta brotnað við lítinn áverka.

Algengasta orsökin fyrir röskun á þessu jafnvægi eru þær hormónabreytingar, sem verða í líkama kvenna við tíðahvörf, þegar estrogenþéttnin minnkar. Estrogen er kvenhormón sem virðist hafa verndandi áhrif á bein með því að hemja áhrif beinúrátanna (osteoclastanna). Þegar estrogenmagnið minnkar, verður virkni beinúrátanna meiri og beinmyndunarfrumurnar ná ekki að bæta upp bein sem tapast.

Afleiðingar beinþynningar

Afleiðingar beinþynningar eru beinbrot við lítinn áverka, einkum á efri árum. Algengust þessara brota eru framhandleggsbrot, hryggsúlubrot og mjaðmabrot.

Framhandleggsbrot gróa oftast án fylgikvilla. Samfallsbrot á hrygg eða hrun veldur gjarnan miklum og stundum langvinnum verkjum. Líkamshæðin lækkar með tímanum og líkaminn bognar. Þá fylgja oft verulegar sálarþjáningar aflögun í vexti. Lærleggshálsbrot eru alvarlegust og nær alltaf afar sársaukafull. Fyrstu vikur eftir brot hækkar dánartíðnin umtalsvert, og margir ná aldrei fyrri getu.

Hér á landi verða a.m.k. 1300 einstaklingar fyrir beinbrotum árlega sem rekja má til beinþynningar. Þannig verða árlega a.m.k. 2-300 mjaðmarbrot, flest innandyra. Hvert mjaðmabrot leiðir til innlagnar á sjúkrahús, þar sem gera þarf uppskurð til þess að setja brotið saman með stálnöglum. Þetta er dýrt fyrir þjóðfélagið þar sem kostnaður er a.m.k. 1-2 milljónir á sjúkling, og ekki má gleyma þeim þjáningum og erfiðleikum sem brotunum fylgja. Það er fátt sem rýrir lífsgæði eins mikið á efri árum og beinþynning.

Áhættuþættir beinþynningar

1. Kyn

Konur eru í þrefalt meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar. Það er m.a. vegna þess að hámarksbeinþéttni kvenna er minni en karla, og eftir tíðahvörf eykst niðurbot beina til muna hjá konum eins og fyrr segir. Konur þurfa því að huga sérstaklega að mataræði sínu og hreyfingu. Konur sem fara snemma í tíðahvörf eru í aukinni hættu, svo og konur sem gengist hafa undir legnám.

2. Aldur

Bein gisna með aldrinum, bein kvenna þó mun meira en karla. Beinþynning hefst oft hjá konum eftir tíðahvörf, og er beintapið í mörgum tilvikum mikið fyrsta áratuginn á eftir. Þegar sjötugsalsri er náð, er beintapið svipað hjá körlum og konum.

3. Erfðir

Líklegt er talið, að hámarksbeinstyrkur sem næst, sé að hluta til bundinn erfðum, og hugsanlega stjórna erfðir einnig beintapi. Þessi erfðaþáttur er m.a. skýringin á því, að hafi móðir eða faðir fengið beinþynningu, eykur það líkur á að afkomandi fái sjúkdóminn.

4. Lífsstíll/umhverfi

Beinin þarfnast bæði næringar og áreynslu til að haldast sterk og heilbrigð.

 1. Næring. Næring skiptir máli fyrir heilbrigði beina á öllum aldri. Þess vegna er heilbrigt mataræði mikilvægt. Ýmsar kalkríkar fæðutegundir svo sem mjólk og mjólkurvörur innihalda þau næringarefni sem eru hvað mikilvægust fyrir beinin. D-vítamín er nauðsynlegt til að kalkið nýtist beinunum. D-vítamín fáum við einkum úr lýsi.
 2. Líkamsþyngd/undirþyngd. Konur sem ekki hafa náð að byggja upp nægilega mikinn beinmassa eru í meiri hættu á að fá beinþynningu svo og smábeinóttar konur. Farsælast er að byggja upp beinforða sinn í uppvextinum, allt til þrítugs.
 3. Hreyfing. Sýnt þykir að hæfileg hreyfing hefur góð áhrif á öllum aldri, ekki síst meðal eldra fólks. Öll líkamshreyfing og þjálfun virðist vera til góðs, en göngur og hreyfing sem felur í sér þungaburð, þ.e. þar sem þyngdarafls gætir, er áhrifaríkast í baráttunni við beinþynninguna. Mikilvægt er að þjálfunin sé reglubundin a.m.k. þrisvar sinnum í viku 15-30 mínútur í senn. Öll hreyfing er betri en engin. Afar mikilvægt í forvarnarstarfi er að forðast byltur. Líkamshreyfing og þjálfun styrkir og þéttir bein, bætir jafnvægi og dregur þannig úr byltum. Einstaklingur sem hefur þegar hlotið beinbrot eða samfall á hryggjarlið vegna beinþynningar ætti þó ekki að gera æfingar nema í samráði við lækni og sjúkraþjálfara því mikilvægt er að æfingarnar séu rétt gerðar og án álags á þá líkamsstaði sem eru veilir.
 4. Reykingar. Reykingar stuðla að beinþynningu.
 5. Áfengi. Áfengisneysla í óhófi eykur hættu á beinþynningu.

5. Sjúkdómar

Sjúkdómar, sem hafa áhrif á kalkbúskapinn, geta valdið beinþynningu. Eftirtaldir sjúkdómar eru meðal þeirra: ofstarfsemi skjaldkirtils, liðagigt, dreifðir, illkynja sjúkdómar í beinagrind og langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar.

6. Lyf

Eftirtaldir lyfjaflokkar geta valdið beinþynningu:

1. Sykursterar t.d. prednisolon, notað við asthma og bólgusjúkdómum.
2. Flogaveikilyf.
3. Ofskömmtun á skjaldkirtilshormónum.

7. Meðganga og brjóstagjöf

Meðganga hefur í för með sér álag á beinin, þar sem fóstrið tekur til sín kalk frá móðurinni. Af þessum sökum er mikilvægt að konur gæti vel að kalkneyslu sinni á meðgöngunni.

Á meðan á brjóstagjöf stendur fara um 160-300 mg/dag af kalki frá móðurinni í mjólkina. Þó svo að þetta bráða kalktap sem verður á meðan á brjóstagjöf stendur endurnýist hratt, er ráðlagður dagskammtur af kalki um 1200 mg.

8. Ofþjálfun og átröskun

Ofþjálfun getur einnig aukið hættuna á beinþynningu hjá öllum, þegar næringarþörf er ekki fullnægjandi miðað við líkamlegt álag eða ef um átröskun er að ræða. Ef blæðingar stöðvast í meira en 6 mánuði vegna þessa, er aukin hætta á beinþynningu í kjölfar þeirra hormónabreytinga sem verða í líkamanum.

eru landssamtök áhugafólks um beinþynningu, jafnt leikra sem lærðra. Samtökin voru stofnuð 12. mars 1997 í Reykjavík. Stjórn Beinverndar skipa sjö manns og er Ólafur Ólafsson, fv. landlæknir, formaður.

Markmið félagsins eru fjögur:

 1. Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli.
 2. Að standa að fræðslu meðal almennings og heilbrigðisstétta á þeirri þekkingu sem á hverjum tíma er fyrir hendi um beinþynningu og varnir gegn henni.
 3. Að stuðla að auknum rannsóknum á eðli, orsökum og afleiðingum beinþynningar og forvörnum gegn henni.
 4. Að eiga samskipti við erlend félög á svipuðum grundvelli.

Beinvernd er aðili að alþjóðlegu samtökunum International Osteoporosis Foundation. Veffang Beinverndar er www.beinvernd.is og netfang beinvernd@beinvernd.is Upplýsingar gefur einnig starfsmaður Beinverndar Halldóra Björnsdóttir , halldora@beinvernd.is. Sími Beinverndar er 897-3119.

Heimildir:

Bæklingur um beinþynningu, gefinn út af, Gunnar Sigurðson samdi efnið. Styrktur af Landlæknisembættinu.

Bæklingurinn Líkamshreyfing og beinþynning. GunnariSigurðsson læknir og Þórunn Björnsdóttir, sjúkraþjálfari sömdu efnið. Styrktur af Farmasíu.

Bæklingur um beinþynningu, Hollusta styrkir bein, gefinn í samstarfi við Markaðsnefnd íslenska mjólkuriðnaðarins.

Beinþynning, Endurmenntunarnámskeið HÍ, Gunnar Sigurðsson et.al

Beinþynning, orsakir, greining og meðferð, Samráðsfundur Landlæknisembættisins 1993. Höfundar Ari Jóhannesson, dr. Jens A Guðmundsson og Katrín Fjeldsted í samvinnu við dr. Gunnar Sigurðsson, dr. Brynjólf Mogensen, Jón Þ. Hallgrí msson, Þór Halldórsson og dr. Ingvar Teitsson.

Beinþynning, bæklingur gefinn út af Gigtarfélagi Íslands.

Beinþynning, bæklingur gefinn út af Sig. Thorarensen

Efni um beinþynningu frá alþjóðasamtökum um beinþynning IOF, International Osteoporosis Foundation.

Alþjóðlegur beinverndardagur 2000

Staðreyndir um beinþynningu:

 • 30-40% líkur eru á því að konur um heim allan hljóti brot af völdum beinþynningar.
 • 13% líkur eru á því að karlar um heim allan hljóti brot af völdum beinþynningar.
 • 1,7 milljónir til 6,3 milljónir á heimsvísu er áætluð aukning á fjölda mjaðmarbrota frá 1990-2050.
 • 30 sekúndur líða á milli þess að einhver Evrópubúi brotni af völdum beinþynningar
 • Aðeins annaðhvertsamfallsbrot í hrygg fær læknisfræðilega greiningu
 • 1 af hverjum 5 sjúklingum, sem hafa mjaðmarbrotnað eða hryggbrotnað, deyr á ári hverju í Evrópu; alls um 150.000 manns 
 • 1 af hverjum 4 verður 1 af 2 árið 2050í aukningu á tíðni mjaðmarbrota í Asíu og Rómönsku Ameríku. 
 • Í Miðausturlöndum mun fjöldi mjaðmarbrota þrefaldast á næstu 20 árum.

Asía er sá heimshluti sem talið er að mesta aukningin verði á mjaðmarbrotum á næstu áratugum.