Almannavarnir til að tryggja öryggi okkar

Það starf sem unnið er á vegum almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra fer yfirleitt ekki hátt nema þegar válegir atburðir gerast. Landlæknisembættið telur mikilvægt að almenningur þekki hlutverk almannavarnadeildarinnar og hvernig embættið og heilbrigðisþjónustan koma að því starfi.

 

 

 

Helsta hlutverk almannavarna er að koma í veg fyrir að atburðir eins og náttúruhamfarir, eldsvoðar eða hópslys valdi líkamstjóni og veita líkn og aðstoð eftir að atburður hefur átt sér stað. Þannig er sífellt unnið í samstarfi við ýmsa opinbera aðila og líknafélög að því að gera áætlanir um á hvern hátt á að bregðast við ef hættuástand skapast. Sem dæmi má nefna forvarnir og æfingar vegna Kötlugoss eða flugslyss á Keflavíkurflugvelli og snjóflóðavarnir.

 

 

 

Við minniháttar slys bregst hin daglega neyðarþjónusta við með hefðbundnum hætti, en við almannavarnaástand fer neyðarþjónustan (lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir, Landlæknisembættið, Landhelgisgæslan) og Rauði krossinn, starfsmenn sveitarfélaga og aðrir að vinna eftir einu samræmdu neyðarskipulagi almannavarna.

 

 

 

Almannavarnanefndir skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna tjóns eða hættu sem skapast hefur, hver í sínu héraði eða umdæmi, undir stjórn lögreglustjóra.  Þegar áfall hefur orðið, af þeirri stærðargráðu að úrræði innan héraðs eða umdæmis duga ekki til að mæta því, leita almannavarnanefndir eftir utanaðkomandi aðstoð til almannavarnadeildar ríkislögreglustjórans.

 

 

 

Hlutverk landlæknis er að stýra þeim þáttum almannavarna er varða málefni heilbrigðisstofnana, læknismeðferð og hjúkrun á sjúkum og særðum. Stjórn sóttvarna er í höndum sóttvarnalæknis og á þann þátt getur reynt í stærri faröldrum af völdum smitsjúkdóma. Þá hefur Landlæknisembættið með höndum forvarnir, leiðbeiningar og almannafræðslu er varða málefni sem ógna heilsu manna. Má þar nefna dæmi eins og leiðbeiningar um endurlífgun eða meðferð við ofkælingu og á hvern hátt áfallahjálp skuli skipulögð á landsvísu.

 

 

 

Heilbrigðisstofnanir undirbúa og framkvæma ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að geta veitt sjúkum og særðum móttöku og meðferð á hættutímum. Þær hafa tiltækar svokallaðar greiningarsveitir sem fara á vettvang þegar slys verða og veita slösuðum lífsbjargandi hjálp, greina ástand þeirra og forgangsraða til sjúkraflutnings og frekari meðferðar.

 

 

 

Samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjórans er í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Þaðan eru aðgerðir af hálfu ríkisins samhæfðar. Hlutverk almannavarnadeildar á neyðar- og hættutímum er meðal annars að fara með yfirstjórn á aðstoð milli umdæma og aðstoð við almannavarnir í héraði. Til dæmis skipulagning og yfirstjórn á flutningi fólks af hættusvæðum, tryggja að utanaðkomandi mannafli og búnaður berist til áfallssvæðisins og skipuleggja flutning og dreifingu slasaðra þegar yfirálag skapast á sjúkrahúsum.

 

 

 

Ljóst er að ef fólk þekkir á hvern hátt unnið er að skipulagi almannavarna á þeim stað sem það býr þá er það betur í stakk búið að bregðast við þegar nayðarástand skapast. Ekki er síður mikilvægt að hver og einn læri skyndihjálp til að geta veitt aðstoð við minni eða stærri slys.

 

 

 

Sigurður Guðmundsson landlæknir

 

Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur