Albert litli og jólin.

Þetta byrjaði allt með Alberti litla árið 1919. Albert litli var nokkra mánaða drengur sem var notaður sem tilraunadýr fyrir sálfræðing nokkurn, Watson að nafni, til að athuga tilfinningalega skilyrðingu. Þessi litli drengur var nefnilega svo óheppinn að vera annað af tveimur frægustu börnum í sögu sálfræðilegra rannsókna (hinn var Hans litli sem Freud hafði með að gera).

Þannig var að Watson notaði Albert til að sýna fram á að lögmál klassískrar skilyrðingar (Pavlov), sem höfðu verið rannsökuð á hundum, gætu skýrt hegðun og tilfinningar fólks. Albert litli, sem þótti óvenju tilfinningalega stöðugt barn, var því látinn klappa rottu, sem honum þótti afar krúttuð (hlutlaust áreiti). Og þá hóf sálfræðingurinn ferlið. Í hvert sinn þegar Albert litli ætlaði að klappa krúttuðu rottunni þá sló sálfræðingurinn ofur hátt á bjöllu rétt bakvið eyrað á Alberti litla (neikvætt áreiti) þannig að honum brá við. Ekki þótti Alberti þetta skemmtileg reynsla, datt á hliðina, grét og skreið eins hratt og hann gat í burtu. Með endurteknum bjölluslætti í hvert skipti sem Albert ætlaði að snerta krúttuðu rottuna þá varð hann sífellt hræddari við hana. Þannig var hægt að sýna fram á að Albert varð hræddur við krúttuðu rottuna (skilyrt neikvætt áreiti) því nærvera hennar hafði verið pöruð við neikvæða reynslu (bjölluslátt).

Næsta skref í rannsókn Watsons var að sýna fram á hvernig þessi tilfinningaviðbrögð gætu yfirfærst yfir á aðra svipaða hluti, til dæmis kanínu, bómull og jólasveinagrímu. En hvað kemur Albert litli jólunum við? Jú í fyrsta lagi vænti ég þess að Albert sé ennþá dálítið kvekktur (ef hann lifir enn) þegar hann sér kanínur og jólasveina. Í öðru lagi hefur þessi rannsókn og aðrar slíkar sýnt fram á hvernig áreiti í umhverfinu geta stjórnað tilfinningum okkar og átt þátt í að þróa neikvæðar (og jákvæðar) tilfinningar eins og kvíða og depurð. Engum kemur á óvart að neikvæð reynsla geti haft neikvæðar tilfinningar í för með sér. Aftur á móti eru slík tengsl einnig bundin við aðstæður og tímabil. Þannig getur til dæmis neikvæð reynsla í sundi haft þau áhrif að viðkomandi verður vatnshræddur. Þar hefur neikvætt áreiti verið parað við ákveðinn atburð og umhverfi. Á sama hátt vakna jákvæðar tilfinningar hjá mörgum fyrir jól.

Um jólin gerast skemmtilegir hlutir, við fáum gjafir og góðan mat. Sterkar tilfinningar geta vaknað þegar við sjáum fyrstu jólaljósin eða heyrum jólalögin í útvarpinu þar sem slíkt gefur til kynna að brátt fáum við jólamat, frí og gjafir. Þannig hefur jákvæð reynsla verið pöruð við ákveðið tímabil. Ekki eru þó allir svo lánsamir að upplifa jákvæðar tilfinningar, því jólin og aðrar hátíðir hafa aðra merkingu fyrir marga. Eins og Albert litli hefði vitnað um þá eru börnin varnarlaus fyrir valdi fullorðinna og hafa ekki náð þroska til að skilja eða hugleiða á sama hátt og fullorðnir. Þau geta ekki varið sig og stóla algerlega á foreldra sína með að jólin gangi eins og þau hafa ímyndað sér. Væntingar barna til jólanna eru nefnilega oft miklar og jafnvel óraunhæfar. Lítið þarf því til að koma börnum úr jafnvægi á þessum tíma. Þá geta hlutir eins og drykkja, streita og tilfinningaerfiðleikar foreldra haft varanleg áhrif á því hvernig börnin upplifa jólin. Sumir hafa það til siðs að bjóða upp á vín á jólunum. Það er jú hátíð og allt í lagi að lyfta sér upp. Það eru þó nokkrir sem nota vín nokkuð jafnt yfir árið og hætt er við að þegar loksins á að nota það til hátíðarbrigða þá verða jólaskammtarnir nokkuð meiri en hversdagsskammtarnir. Þessi upplifting á þó ekki við um börnin. Þau þurfa öryggi til að geta slakað á og skemmt sér. Þegar foreldrar fá sér í glas er öryggi það síðasta sem börnin finna fyrir þar sem hegðun foreldra er ekki sú sama og börnin eru vön. Þau geta því ekki séð fyrir eða skýrt hegðun foreldra sinna og veldur það því óöryggi. Áfengisnotkun er þó kannski ekki það eina sem foreldrar þurfa að passa upp á því flest erum við nokkuð ábyrg með vín þegar börnin okkar eru til staðar. Aðrir hlutir geta haft alveg jafn mikil neikvæð áhrif á börnin. Mikið hefur verið skrifað um svokallaðan jólakvíða og áhrif streitu á heilsu okkar. Minna hefur þó verið skrifað um hvaða áhrif þessi jólakvíði foreldranna hefur á börnin. Kvíði og aðrar tilfinningar foreldra hafa einmitt mikil áhrif á líðan barna, hvort sem þær tilfinningar eru jákvæðar eða neikvæðar. Eins og ég minntist á hér að ofan þá eru börnin okkar algjörlega háð okkur með nánast allt sem hugsast getur og því eru þau einnig háð því hvernig tilfinningalíf okkar er. Þegar við erum pirruð þá bitnar það beint á þeim.

Of mikið álag á jólunum getur orsakað kvíða og pirring hjá foreldrum sem bitnar beint á börnunum. Mikilvægt er fyrir foreldra að setja sér mörk með hvað á að gera fyrir jólin og muna það að jólastemmningin er miklu mikilvægari heldur en rándýrar jólagjafir. Sjálfur á ég nokkra drengi og ég veit að þeir hafa ekki hugmynd um hva&eth ; þeir fengu síðast í jólagjöf. Þeir muna aftur á móti eftir því þegar við fórum saman að saga niður jólatré einhversstaðar á Jótlandi í Danmörku. Stórar gjafir skipta engu máli. Besta gjöfin til barnanna okkar er að geta slakað á með þeim, veitt þeim það öryggi sem þau þurfa og njóta þess að leyfa þeim að njóta sín. Þetta getum við einungis með því að vera í góðu jafnvægi sjálf og laus við áhyggjur og streitu.

Hafið það gott um jólin og munið að malt og appelsín er besti jóladrykkurinn.

Desember 2002
Brynjar Emilsson, Sálfræðingur