Áhrif tilfinninga á nám og starf

Hefðbundinn aðskilnaður tilfinnninga og starfsemi hugans hafði í för með sér skólakerfi sem átti fyrst og fremst að sinna fræðslu. En börn geta ekki skilið tilfinningar sínar eftir fyrir utan skólann fremur en líkama sinn. Þroskað fólk veit að vellíðan hefur áhrif á nám og starf. Í vellíðan felst að hafa jákvæða sjálfsvitund sem byggist á samspili þess hvernig einstaklingur metur sjálfan sig, hvernig hann skynjar sig, hvernig hann vill vera og hvernig hann telur að aðrir meti hann. Sjálfsvitundin, jákvæð eða neikvæð, hefur síðan áhrif á gæði þeirra samskipta sem einstaklingur á við aðra. Mótun persónuleikans felst, ásamt líffræðilegum þáttum, í reynslu af samskiptum við aðra, margvíslegum áhrifum samfélagsins og meðvitaðri og ómeðvitaðri merkingu sem einstaklingur skynjar og nemur úr umhverfi sínu. Það er því ekki af engu sem margir þeirra sem hafa tileinkað sér fjölgreindakenningu Howards Gardner telja að sjálfsþekkingargreind og samskiptagreind séu mikilvægustu greindir mannsins, en jafnframt þær sem við höfum vanrækt mest. Í þessu samhengi má nánast setja jafnaðarmerki milli þeirra og skilgreiningar Golemans á tilfinningagreind.

Upplýsingasamfélag nútímans kallar á breytt viðhorf til þekkingar og færni. Atvinnurekendur leita eftir starfsfólki sem býr yfir sjálfsöryggi, frumkvæði og samskiptafærni. Þekking gefur sérfræðingum, stjórnendum í fyrirtækjum og kennurum í skólum ekki lengur sama vald og áður og nú eru gerðar kröfur til þeirra um hæfni í mannlegum samskiptum. Goleman skrifaði aðra bók 1998, Working with Emotional Intelligence, þar sem hann fjallar um hvernig þjálfa megi starfsmenn og stjórnendur til að þeir geti betur uppfyllt þessar kröfur. Hann setti einnig á fót stofnun, ásamt Eileen Rockefeller Grönvald, The Collaborative to Advance Social and Emotional Learning (CASEL) til að efla og þróa félags- og tilfinningatengt nám í skólum á öllum skólastigum (www.CASEL.org)

Sérfræðingar og rannsakendur á sviði kennslufræði sem byggist á heilarannsóknum halda því fram að tilfinningar séu kveikja og orkugjafi náms. Undanfarna tvo til þrjá áratugi hefur átt sér stað ör þróun og framleiðsla á námsviðfangsefnum undir heitinu lífsleikni þar sem markmiðið er að styrkja félags- og tilfinningatengda hæfni nemenda. Rannsóknir á tilfinningum og tilfinningagreind hafa gefið þessari námsgrein nýtt vægi og fært vísindaleg rök fyrir mikilvægi hennar. Eitt af hlutverkum CASEL er að meta gæði námsefnis á þessu sviði og leiðbeina kennurum og skólastjórnendum um hvernig megi standa að verki. Eitt af því námsefni sem hátt er metið er svokallað Lions Quest efni sem hefur staðið íslenskum grunnskólum til boða frá 1990 undir heitinu Að ná tökum á tilverunni (Ciarochi, Forgas, Mayer. 2002, bls.137). Í lífsleikniefni af þessum toga er lögð áhersla á að kenna nemendum að hlusta á aðra, að tjá sig skýrt og skilmerkilega, að greina og skilja tilfinningar, hafa stjórn á þeim, að taka ákvarðanir, meta kosti þeirra og galla og greina afleiðingar. Afar mikilvægur þáttur í þjálfun barna í þessari færni er að foreldrar, kennarar og aðrir fullorðnir sem skipta máli í lífi þeirra séu góðar fyrirmyndir. Ef hlustað er á börn eiga þau auðveldara með að læra að hlusta á aðra, ef tilfinningar þeirra eru viðurkenndar og rætt um þær, læra þau að skilja eigin tilfinningar og annarra.

Erna sem er þriggja ára er bæði þreytt og svöng þegar pabbi hennar sækir hana í leikskólann. Á leiðinni heim koma þau við í búð til að kaupa í matinn. Í búðinni hefur þess verið gætt að hafa úrval af sælgæti í augnhæð barna og Erna sér strax eitt og annað sem hana langar í og fer að háöskra þegar pabbi hennar segir: ,,NEI! Hættu þessari frekju – það er ekki nammidagur í dag.”

Góð fyrirmynd hefði sagt: ,,Ég veit að þú ert þreytt og svöng og þig langar í eitthvað gott. Við skulum flýta okkur heim svo ég geti gefið þér að borða.”

Nonni er að klæða sig og mamma hans er orðin stressuð því hún er að verða of sein í vinnuna: ,,Ertu ekki kominn í skóna ennþá! Þú ert alltaf að gaufa og gera mig seina…”

Góð fyrirmynd: ,,Þú átt bara eftir að fara í skóna og þá erum við til.”

Það eru í raun engin ný sannindi að börn sem búa yfir tilfinningahæfni, sem hafa stjórn á eigin tilfinningum og bregðast rétt við tilfinningum annarra hafi forskot á mörgum sviðum lífsins, hvort sem um er að ræða fjölskyldu- eða jafningjatengsl, skólann, íþróttir eða annað sem þau sækjast eftir í samfélaingu. Hins vegar hafa komið fram ný sannindi um hvernig megi stuðala að því að fleiri börn öðlist þessa hæfni. Í skólum hefur lengi verið kennt um ýmsa líkamsstarfsemi, s.s. meltingarkerfið og blóðrásina, en fram til þessa hefur ekki verið kennt markvisst um starfsemi hugans sem er þó einmitt sú starfsemi sem við getum haft mótandi áhrif og stjórnun á. Hvað felst í því að vera maður og hvernig verður maður meira maður í þeirri merkingu sem Páll Skúlason heimspekingur leggur í menntun.

„Að menntast er þá að verða meira maður – ekki meiri maður – í þeim skilningi að þær gáfur eða þeir eiginleikar sem gera manninn mennskan fái notið sín, vaxi og dafni eðlilega.“ (Pælingar,bls. 305)

Þessi kafli er tekinn úr grein Erl u Kristjánsdóttur – Hugtakið tilfinningagreind sem er á Doktor.is