Áhrif rafsegulsviðs á lifandi verur

Getur rafsegulsvið í daglegu umhverfi okkar valdið illkynja sjúkdómum?

Vitað er að rafsegulsvið getur haft margvísleg áhrif á lifandi frumur. Ef reynt er að tengja áhrif raflagna í húsum, háspennulína og spennubreyta við illkynja sjúkdóma eða annars konar heilsubrest þarf fyrst að afneita ýmsum lögmálum eðlisfræði og lífeðlisfræði. Þar að auki hefur tíðni margra algengra krabbameina lækkað og meðalaldur hækkað verulega á síðustu 50-100 árum en á sama tíma hefur orðið gífurleg aukning í notkun rafmagns og rafmagnstækja. Rafsegulsvið sem ná inn í líkamann frá raflögnum og algengum rafmagnstækjum eru veik miðað við svið sem alltaf eru til staðar eins og segulsvið jarðar. Rannsóknirnar sem komu þessum áhyggjum af stað voru gerðar fyrir meira en tuttugu árum, þær voru ekki vel skipulagðar og tölfræðilega veikar.

Fyrir meira en 20 árum voru gerðar rannsóknir í Bandaríkjunum og Svíþjóð sem þóttu benda til þess að börn sem bjuggu í námunda við háspennulínur eða spennistöðvar fengju hvítblæði oftar en önnur börn. Þetta kom af stað hálfgerðri múgsefjun og var smám saman yfirfært á ýmis tæki sem senda frá sér rafsegulbylgjur eins og sjónvarpstæki, tölvuskjái, rafmagnshitapúða, örbylgjuofna og nú síðast farsíma. Þessar áhyggjur hafa skotið upp kollinum af og til og þó að fullyrða megi að fyrstu rannsóknirnar hafi verið gallaðar þá bættu síðari rannsóknir þar lítið úr í fyrstu. Vegna þess að tíðni illkynja sjúkdóma hjá börnum er lág, þurfa slíkar rannsóknir að ná til mikils fjölda og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem slíkar rannsóknir hafa verið gerðar. Niðurstöður þessara síðustu rannsókna sýna ekkert samband milli illkynja sjúkdóma hjá börnum og búsetu nálægt háspennulínum, spennistöðvum eða öðrum uppsprettum rafsegulsviðs. Það er þó galli við allar þessar rannsóknir að þær eru það sem kallað er afturskyggnar, þær skyggnast aftur í tímann. Þetta er gert þannig að þegar illkynja sjúkdómur greinist hjá barni eða unglingi, er athugað hvort sjúklingurinn bjó eða dvaldi fyrr á æfinni í sterku rafsegulsviði, en slíkt getur verið mjög erfitt að kanna.

Í þessum málum hefur múgsefjunin oft verið skammt undan. Þegar t.d. greindust sex krabbameinstilfelli í börnum, sem áttu heima í sömu götu í nágrenni spennistöðvar í litlum bæ í Bandaríkjunum, varð allt vitlaust og á endanum var skrifuð bók um málið. Þetta var óvenjuleg tilviljun en það breytti engu um viðbrögðin þó að um sex ólíkar tegundir krabbameins hafi verið að ræða og bent hafi verið á þúsundir annarra gatna með sams konar aðstæður en engin krabbameinstilfelli.

Við lifum í tveimur sterkum rafsegulsviðum, segulsviði jarðar og rafsviði lofthjúps jarðarinnar. Segulsvið jarðar er mjög öflugt í samanburði við það svið sem háspennulínur og rafdreifikerfi í þéttbýli mynda og fólk er útsett fyrir. Segulsvið jarðar er hins vegar svipað að styrk og segulsviðið sem sum heimilistæki og rafknúnar járnbrautarlestir mynda. Til eru tæki sem mynda mun sterkara segulsvið og má þar nefna tæki til sjúkdómsgreininga eins og segulómunartæki en þar liggur sjúklingurinn, oft í 1-2 klst., í segulsviði sem er 50 þúsund sinnum sterkara en segulsvið jarðar, án þess að verða meint af. Í lofthjúp jarðar er rafsvið sem er um 120 volt fyrir hvern metra (í stefnu upp og niður). Í umhverfi okkar er ekki víða að finna rafsvið sem jafnast á við þetta, við getum þó fundið sambærileg og jafnvel sterkari rafsvið ef við stöndum beint undir háspennulínu eða á brautarteinum undir loftlínu rafknúinnar lestar. Þess má geta til gamans að rafsvið lofthjúpsins er stöðugt að byggjast upp og fær útrás í þeim 40 milljónum eldinga sem lýstur niður daglega á jörðinni.

Af þessu sést að flest rafsegulsvið sem við búum til og við erum líkleg til að dvelja lengi í nágrenni við eru veik í samnburði við þau svið sem umlykja jörðina og við höfum alltaf mátt búa við. Þessu til viðbótar kemur að til þess að rafsegulsvið geti haft áhrif á lifandi frumur þurfa frumurnar að hafa eitthvað sem nemur rafsegulsviðið og breytir því í annars konar orku. Vitað er að slík tenging milli rafsegulsviðs og frumu er mjög veik og þau áhrif sem geta orðið við verstu aðstæður eru mjög lítil í samanburði við það rafsvið og strauma sem er að finna í öllum lifandi frumum.

Heimasíða Magnúsar Jóhannssonar