Áherslur til heilsueflingar

Landlæknir ákvað í ársbyrjun árið 2000 að setja á stofn fagráð til að vera Landlæknisembættinu til ráðgjafar um áherslur í forvarnastarfi, heilsuvernd og heilsueflingu á ýmsum sviðum heilsugæslu.

Í skýrslunni eru dregnir fram áhrifaþættir heilsueflingar á lýðheilsu á Íslandi, bæði jákvæðir og neikvæðir, auk þess sem hún hefur að geyma tillögur um hvernig heilsuefling getur bætt heilsufar og líðan þjóðarinnar.

 

Einnig kemur fram í skýrslunni að margt hefur áunnist á undanförnum áratugum er stuðlar að bættri lýðheilsu hér á landi. Fyrir utan ýmsar framfarir í heilbrigðisþjónustu ræður þar mestu góður efnahagur, hátt menntunarstig og velferðarþjóðfélag með áherslu á jöfnuð þegnanna. Samt sem áður eru ýmsir þættir í nútímasamfélagi sem geta verið ógn við heilsu og velferð þjóðarinnar.

 

Samantekt úr skýrslunni.

  • Góður efnahagur, hátt menntunarstig og þjóðfélagsgerð, sem stuðlar að jöfnuði þegnanna, ásamt ýmsum jákvæðum ytri aðstæðum skapa íslensku þjóðinni einstakar forsendur til að lifa heilbrigðu og innihaldsríku lífi.
  • Lífstíll fólks í neyslusamfélagi einkennist af hraða, samkeppni og streitu, er leitt getur til vanheilsu og verða börn og unglingar oft fórnarlömb þeirrar þróunar. Dæmi um þessi streitubundnu lífsstílsvandamál eru ofþyngd og átröskun, stoðkerfiskvillar vegna hreyfingarleysis, kynsjúkdómar, margvísleg vanlíðan en einkum kvíði og þunglyndi, neysla vímugjafa og slys og ofbeldi.
  • Sjúkdómsvæðing felst í tilhneigingu þjóðfélagsins til að sjúkdómsgera flest mannleg vandamál í þeirri von, að þau megi bæta með hefðbundnum aðferðum læknisfræðinnar. Hætt er við að kostnaðarsöm sjúkdómsvæðing geti hamlað framgangi forvarna og heilsueflingar sem ætti að beinast að því að almenningur skilgreini vanda sinn svo að bregðast megi við honum með árangursríkum hætti.
  • Heilsufar Íslendinga verður héðan í frá varla bætt nema með heilsueflingu á sem víðustum grundvelli þar sem allir, sem hafa hag af bættri þjóðarheilsu, axla ábyrgð og vinna að sameiginlegum markmiðum án tillits til uppruna, stéttar, menntunar eða hefða.
  • Hvetja þarf ríki og sveitarfélög til að marka sér heilsueflingarstefnu við hæfi og beita heilbrigðismati við undirbúning allra ákvarðana, sem áhrif geta haft á líf og heilsu íbúanna. Heilsuefling krefst þverfaglegra aðgerða, samhæfðra lausna og samvinnu opinberra aðila, sveitarfélaga, áhugasamtaka, aðila vinnumarkaðarins og einstaklinga.
  • Með markvissri fjölskyldustefnu sveitarfélaga og skipulegri fjölskylduvernd í heilsugæslunni má vafalítið breyta uppvaxtaraðstæðum barna og unglinga, þannig að þau öðlist frekar félagslega færni og sjálfstraust, sem gerir þeim kleift að sneiða hjá þeirri heilsuvá, sem frekast ógnar þessum aldursflokki.
  • Huga þarf sérstaklega að tilfinningalegum og geðrænum vanda barna og unglinga, leita skipulega að einstaklingum í áhættu og skapa úrræði til að leysa vandamálin, áður en í óefni er komið. Því fyrr sem ganga eftir slysavegi er tafin þeim mun líklegra er að íhlutun beri árangur.
  • Stuðningur við skólakerfi, kennarastéttir og menntun almennt er líklegri leið til að bæta heilsu og vellíðan en efling heilbrigðiskerfisins.
  • Nauðsynlegt er að efla þekkingu á lýðheilsu í landinu með auknum rannsóknum og upplýsingaöflun og vinna úr þeim gögnum með vísindalegum hætti, þannig að niðurstöður geti markað stefnu um forgangsverkefni og skiptingu fjármagns til heilbrigðismála.
  • Eitt af forgangsverkefnum heilbrigðisyfirvalda ætti því að felast í að efla heilsugæsluna sem máttarstólpa heilsuverndar og forvarnarstarfs. Starf heilsugæslunnar þarf að vera sóknarmiðað í stað þess að felast fyrst og fremst í nauðvarnarhlutverki.