Áhættumat – öryggismenning

Áhættumat – öryggismenning

 

 

 

 

Í dag eru miklar kröfur gerðar um árangur og á það ekki síst við um árangur í rekstri og þjónustu fyrirtækja. Atvinnurekendur þurfa að byggja starfsemi sína á hæfu og ánægðu starfsfólki ásamt því að hafa vinnuumhverfið öruggt og heilsusamlegt. Í fyrirtækjum þar sem áhersla er lögð á gott og öruggt vinnuumhverfi, vellíðan starfsmanna og góð samskipti er meiri líkur á jákvæðari fyrirtækjamenningu þar sem starfsmenn leggja sig fram um að skila árangri.

 

 

Áhættumat starfa

 

 

 

 

Áhættumat er ferli sem felur í sér greiningu og mat á innri og ytri þáttum starfa sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi starfsfólks og vinnuumhverfi fyrirtækja. Þegar greining og mat hefur farið fram þarf að forgangsraða áhættuþáttum. Áhættumatsferlið hefst því á námkvæmri og skipulagðri skráningu á því sem getur skaðað fólk við vinnu sína og haft áhrif á vinnuumhverfið. Skráning er gerð til þess að meta hvort nægjanlegar ráðstafanir séu gerðar til að verjast hugsanlegum skaða. Næsta skref er að forgangsraða áhættuþáttum og fyrirbyggja þá, leysa það sem hægt er að leysa strax eða stýra áhættunni þannig að hún valdi sem minnstum skaða. Að lokum þarf að finna lausnir eða verkferla og framkvæma þá, endurmeta áhættuna og fylgja ferlinu eftir.

 

 

Áhættumatsferli:

 

 

 • Greina og meta 
 • Forgangsraða og áhættustýra 
 • Úrbætur og verkefni, verkferlar 
 • Eftirfylgni og efndurmat 

 

Þetta virðist ekki flókið og sérstaklega þar sem flestir þekkja sín störf, vita hvernig á að framkvæma þau og passa sig á því sem hættulegt er. En því miður verða samt óhöpp og vinnuslys sem oft hefði verið hægt að fyrirbyggja, eða að vinnana getur leitt til vanlíðan starfsmanna.

 

 

Margar mismunandi aðferðir má nota til að greina og meta vinnuumhverfi. Val á aðferð getur farið eftir stærð vinnustaða, vinnuskipulagi, verkefnum, staðsetningu o.fl. Til að ná árangri er mikilvægt að samstarf sé um að efla öryggismenningu vinnustaðarins, þannig að allir taki þátt, hvort sem um ræðir stjórnendur eða almennir starfsmenn, í að gera góðan vinnustað betri og öruggari. Samvinna er því mikilvæg til að ná árangri.

 

 

Áhættumat þarf að ná til allra þátta í vinnuumhverfi sem geta ógnað heilsu og öryggi starfsmanna, helstu þættir eru:

 

 

 

 • Öryggi, véla og tækja. 
 • Efnafræðilegir þættir. 
 • Líffræðilegir þættir. 
 • Andlegir og félagslegir þættir. 
 • Vinnufyrirkomulag. 
 • Aðbúnaði á vinnustað. 
 • Notkun persónuhlífa. 

 

Áhættumatsferlið á að vera í stöðugri endurskoðun og aðlögun, það skal sérstaklega endurskoðað við breytingar á starfsaðstöðu eða vinnufyrirkomulagi, þegar vinnuferlum er breytt, við innkaup á nýjum búnaði eða ef slys, atvinnutengdir sjúkdómar eða óhöpp hafa átt sér stað.

 

 

Staðlaðar aðferðir við gerð áhættumats auðvelda mat á árangri milli ára. Gátlistar, spurningalistar, vinnuumhverfismælingar og heilsufarsskoðanir eru dæmi um staðlaðar aðfer&et h;ir. Einnig er hægt að meta vinnuumhverfið og líðan fólks út frá viðtölum eða formlegum starfsmannasamtölum, á deildarfundum eða á öðrum vettvangi. Upplýsingar um tíðni og orsakir fjarvista t.d. vegna slysa og óhappa eru mikilvægir mælikvarðar.

 

 

 

Öryggismenning

 

 

Á vinnustöðum þar sem gott skipulag og samstaða ríkir, starfsmenn og stjórnendur eru meðvitaðir um að öryggis- og vinnuumhverfisstarf er samþætt daglegum störfum fyrirtækisins er meiri líkur á öruggu og góðu vinnuumhverfi þar sem starfsfólk er ánægt og hvetjandi.

 

 

Öruggar og heilsusamar vinnuaðstæður og vinnufyrirkomulag hefur víðtæk áhrif bæði innan vinnustaðarins sem utan, á fjölskyldur starfsmanna og samfélagið í heild.

 

SJ jan2007