Afskráð lyf

Til þess að mega selja lyf á Íslandi þarf það að hafa markaðsleyfi, sem Lyfjastofnun gefur út. Þau lyf sem hafa fengið markaðsleyfi og fengið viðurkennt verð eru þannig skráð í opinberar lyfjaskrár.

Innflytjendur og framleiðendur lyfja láta afskrá lyf af ýmsum ástæðum. Það getur m.a. verið vegna þess að framleiðslu þess hefur verið hætt, sala þess er það lítil hér á landi að kostnaðurinn við það að hafa það skráð er meiri en tekjurnar af sölu þess eða í ljós koma alvarlegar aukaverkanir af lyfinu. Í sumum tilfellum eru lyfin því fáanleg þrátt fyrir að þau hafi verið tekin af skrá, en þá eingöngu samkvæmt sérstakri undanþágu. Þetta á einnig við um lyf sem ekki hefur verið sótt um skráningu á.

Ef læknir (eða tannlæknir) telur brýna ástæðu til að sjúklingur fái lyf sem ekki er skráð hér á landi getur hann þannig sótt um undanþágu til notkunarinnar á sérstöku eyðublaði til Lyfjastofnunar fyrir einstakan sjúkling. Samþykki Lyfjastofnun undanþágubeiðnina tilkynnir hún viðeigandi lyfjaheildsölu um það. Þá fyrst getur apótekið pantað lyfið hjá heildsölunni. Notkun lyfsins er þá á fullri ábyrgð læknisins.

Almennt gildir að Tryggingastofnun ríkisins tekur ekki þátt í greiðslu fyrir þessi lyf. Læknir getur þó sótt um það til Tryggingastofnunar sem metur hvert einstakt tilvik.

Sjúklingur verður því að vera viðbúinn því að afgreiðsla lyfja sem ekki hafa markaðsleyfi hér á landi sé mun seinlegri en þegar um skráð lyf er að ræða.