Afreksíþróttir og lyfjanotkun

Vangaveltur um lyfjanotkun í afreksíþróttum.

Keppa íþróttamenn á jafnréttisgrundvelli? Eru íþróttamennirnir á óleyfilegum lyfjum? Eru allir eða kannski bara örfáir að taka lyf? Það getur verið ergilegt fyrir „hreinan“ íþróttamann að sjá aðra vaxa og bæta sig, vitandi að viðkomandi er að taka óleyfileg lyf og kemst upp með það. Það er mannlegt að hafa metnað. Og ef eina leiðin til að ná bestum árangri er að taka lyf, þá er næsta öruggt að margir falla í þá freistni.

Lyfjakapphlaup

Flestir íþróttamenn sem nota árangursbætandi lyf eru það skynsamir að nota lyf sem finnast ekki við lyfjaleit. Þeir leita í sérhönnuð lyf sem ekki greinast og lyf sem eru það áþekk efnum sem fyrir eru í líkamanum að ekki er unnt að greina við lyfjapróf. Þetta hefur leitt til þess að endalaust kapphlaup er á milli þeirra sem þróa lyf og þeirra sem þróa greiningaraðferðir. Lyfjagreiningariðnaðurinn er iðulega á eftir í þessu mikla kapphlaupi. Hvernig á að vera mögulegt að hlaupa á eftir einhverjum, ná honum og taka framúr ef ekki er vitað hvar viðkomandi hleypur?

EPO

EPO (erýþrópóietín). Lyfið örvar framleiðslu rauðra blóðkorna í merg. Prófin sem greina EPO gera kröfu um bæði þvag- og blóðsýni og þau greina EPO sem notað hefur verið fyrir allt að 20 dögum. Nú er komin ný afleiða af EPO sem felur í sér að aðeins þarf að sprauta sig einu sinni í viku í stað þrisvar áður.

Líkaminn gabbaður

Það sem sumir íþróttamenn gera til að ná aukinni framleiðslu á rauðum blóðkornum er að taka úr sér blóð. Þá eru eðlileg viðbrögð líkamans að auka framleiðslu rauðra blóðkorna til að ná upp fyrra magni. Svo er blóðinu (eða hlutum úr því) sprautað aftur inn í íþróttamanninn. Þarna hefur íþróttamaðurinn náð að plata líkamann til að framleiða meira af rauðum blóðkornum (sömu áhrif og af EPO) og það sem meira er, að með þessum hætti greinist ekkert við lyfjaleit.

Steranotkun

Varðandi vöðvauppbyggjandi stera þá hafa lyfjaeftirlitsaðilar ágæta möguleika á að greina þá en það getur þó líka verið vandamálum háð. Það eru til hundruð vöðvauppbyggjandi sterar og auðvelt er að gera litlar breytingar á testósterón sameindinni til að búa til enn fleiri afleiður sem hafa rétta virkni en erfitt eða ómögulegt er að greina. Það er jafnvel auðveldara fyrir íþróttamenn að nota bara þekkta stera (eins og t.d. nandrolone) og hætta notkuninni bara nægilega löngu fyrir keppni svo þeir greinist ekki við lyfjapróf.

Ekki mögulegt að greina öll lyf

Sum lyf sem er verið að nota er ekki hægt að greina með óyggjandi hætti við lyfjapróf. Það eru efni eins og vaxtarhormón (hGH, human growth hormone) og vaxtarþættir (IGF-1, insulinlike growth factor-1). Þessi lyf byggja upp vöðva. Önnur ný lyf sem ekki er hægt að greina eru t.d. lyf sem auka plasmarúmmál og efni sem flytja súrefni og auka þannig súrefnisflutning til vöðva og auka þannig árangur í greinum sem krefjast mikils úthalds/þreks.

…gera hvað sem er fyrir frægðina?

Lokatakmark íþróttamanna er að sýna umheiminum að þeir séu framúrskarandi BESTIR; stökkvi lengst, hlaupi hraðast, vinni flest stig. Með því að tróna á hæsta palli íþróttaafreka sanna þeir fyrir sér sjálfum og milljónum annarra að þeir eru afreksmenn á sínu sviði. Þessu fylgir eftirsóknarverður lífsstíll, frægð og miklir peningar. Sumir íþróttamenn eru reiðubúnir að gera allt sem í þeirra valdi stendur fyrir upphefðina (jafnvel að koma naktir fram þrátt fyrir að landar vorir Stuðmenn setji siðferðismörk frægðarinnar þar!). Afreksmenn deyja oft um aldur fram. Í mörgum tilvikum er orsökin síðkomin áhrif lyfjanotkunar. Það er staðreynd að fjöldi íþróttamanna hefur látist um aldur fram vegna misnotkunar lyfja.