Aflimun

Aflimun þýðir það að líkamshluti skerst eða rifnar af, svo sem fingur, tá, hönd, fótur eða handleggur.

Hvað gerirðu?

· Stöðvaðu blæðinguna með því að þrýsta beint á sárið.
· Leggðu þurrar umbúðir eða þykkt stykki yfir sárið á stúfnum.
· Finndu afhöggna líkamshlutann og hafðu hjá hinum slasaða ef kostur er.
· Ef mögulegt er skaltu skola stúfinn varlega með hreinu vatni til að fjarlægja óhreinindi.
· Afhöggna hlutann þarf ekki að hreinsa.
· Vefðu afhöggna líkamshlutann í raka, grisju. Settu hann í plastpoka eða annað vatnsþétt ílát (t.d. bolla). Leggðu pokann eða ílátið í vatn með ísmolum.
· Leitaðu læknishjálpar strax.

Erfitt er að bjarga afhöggnum líkamshluta sem liggur ókældur í meira en sex klukkustundir. Átján klukkustundir eru sennilega það lengsta sem hægt er að geyma líkamshluta þótt hann hafi verið rétt kældur. Blóðlausir vöðvar deyja innan fjögurra til sex klukkustunda.

 

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands